Af jafnrétti kynjanna í Ekvador

Um daginn lét ég elstu nemendur mína í menntaskólanum þar sem ég kenni ensku hér í Ekvador, gera verkefni um frelsi og mannréttindi. Í verkefninu áttu nemendurnir, allt stúlkur á aldrinum 17-18 ára, að fjalla um efnið út frá því hvernig ástandið er í Ekvador í dag. Langflestum þeirra varð tíðrætt um misréttið á milli karla og kvenna hér og nauðsyn þess að auka jafnrétti kynjanna. Sitt sýnist hins vegar hverjum og ekki eru allir sammála um að hægt sé, eða að yfir höfuð skuli, breyta hlutunum.

Um daginn lét ég elstu nemendur mína í menntaskólanum þar sem ég kenni ensku hér í Ekvador, gera verkefni um frelsi og mannréttindi. Í verkefninu áttu nemendurnir, allt stúlkur á aldrinum 17-18 ára, að fjalla um efnið út frá því hvernig ástandið er í Ekvador í dag. Langflestum þeirra varð tíðrætt um misréttið á milli karla og kvenna hér og nauðsyn þess að auka jafnrétti kynjanna. Sitt sýnist hins vegar hverjum og ekki eru allir sammála um að hægt sé, eða að yfir höfuð skuli, breyta hlutunum.

„Machismo“, karlremba, er ákaflega rótgróin í suður-amerískt samfélag og nokkurs konar hluti af menningunni hér. Í Ekvador eru birtingarmyndirnar óteljandi en ég mun hér nefna nokkur dæmi:
a) Hér fá börn mismunandi uppeldi inni á sama heimilinu; sonurinn fær lausan tauminn á meðan dóttirin sligast undan boðum og bönnum, oft af óljósum ástæðum.
b) Karlmenn sem kunna að þvo þvott, strauja eða elda eru aumingjar og í versta falli hommar.
c) Stúlkur skulu halda fast í meydóm sinn fram yfir giftingu en gjarnan er farið með 12-13 ára gamla drengi á vændishús til að gera þá að mönnum.

Ríkisstjórn landsins, með forsetann Rafael Correa í broddi fylkingar, hefur nú skorið upp herör gegn karlrembunni með slagorðinu „El machismo es violencia – reacciona Ecuador!“ sem gæti útlagst á íslensku sem „Karlremba er ofbeldi – gerið eitthvað í málunum Ekvadorar!“ (hljómar mun betur á spænsku). Herferðin er góð og blessuð en vandamálið ristir dýpra og liggur t.d. í menntakerfinu; opinberir leikskólar eru sárafáir og hart barist um hvert pláss, einkaleikskólar eru fleiri en rándýrir, og því reynist það mörgum mömmunum flókið að ætla sér að vinna úti þar sem meirihluti launanna færi í að borga skólagjöld (það þarf ekki að taka það fram að það kemur aldrei til greina að pabbinn sé heimavinnandi).

Vandinn er þó aðallega inni á heimilunum þar sem börn læra það sem fyrir þeim er haft og ég tek ekvadoríska jafnaldra mína sem dæmi. Þeir viðurkenna fúslega, bæði konur og karlar, að börnin þeirra muni hljóta mismunandi uppeldi eftir kyni; það sé einfaldlega staðreynd að það þarf að passa meira upp á stelpur. Kannski verður munurinn ekki jafnmikill og á þeirra æskuheimili en jú, sonurinn mun að einhverju leyti njóta meira frelsis en dóttirin. Það sé einnig önnur staðreynd að „machismo“ er hluti af menningunni og menningu er bara of erfitt að breyta, því miður. Mitt svar er þá gjarnan þetta: karlremba var líka einu sinni hluti af vestrænni menningu en í dag þykir það gamaldags, og hreint og beint rangt, að fara fram á að eiginkonan standi á bak við eldavélina allan daginn og ali börnin upp ein.

Nemendur mínir, ungar stúlkur, eru ljós í myrkri þessarar karllægu menningar. Þær, sem og skólabræður þeirra, gera sér grein fyrir því að hlutunum þarf að breyta og kynjajafnrétti þarf að komast á sem fyrst vilji Ekvador skipa sér sess á meðal þróaðra ríkja. Ég get bara vonað að þær gleymi ekki því sem þær trúa núna á og að skilaboð mín til minnar kynslóðar hér, vina minna, sígist að einhverju leyti inn því það er einfaldlega ekki nóg að leyfa konum að kjósa og bjóða sig fram til þings; það þarf algjöra hugarfarsbreytingu.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.