Ríkisstjórnin skaðar trúverðugleika Íslands

Kanadíska fyrirtækið Magma Energy gerði á dögunum samning um kaup á HS Orku. Ríkisstjórnin hafði einhver afskipti af þeim samningaviðræðum á sínum tíma en sætti sig að lokum við kaupin. Nú, á síðustu metrunum, ákveður ríkisstjórnin hins vegar aftur að grípa inn í. Hún lýsir því yfir að hún muni “ekki staðfesta” samninginn, heldur skipa nefnd sem hefur það markmið að “vinda ofan af” kaupunum. Slíkt eykur ekki trúverðugleika landsins.

Eftir hrunið 2008 töluðu stjórnmálamenn um að nú hæfist mikið uppbyggingarstarf. Endurreisa þyrfti traust á íslensku efnahagslífi og laða þyrfti að erlenda fjárfesta. Mikið hefur síðan verið rætt um hversu álitlegur fjárfestingarkostur Ísland er. Hér býr hámenntað og harðduglegt fólk, hér er nóg af hreinni og ódýrri orku, o.s.frv. Íslendingar þekkja núorðið þessa upptalningu á kostum lands og þjóðar jafn vel og fermingarbörn þekkja trúarjátninguna.

Því miður er það svo að fjárfestar meta þessa kosti lítils ef stefna stjórnvalda er þeim ekki hliðholl og, það sem skiptir meira máli, ef stjórnvöld hafa ekki gefið þeirri stefnu trúverðugleika með gjörðum sínum. En hvað hefur núverandi ríkisstjórn, með “órólegu deild” VG í farabroddi, gert til að auka trúverðugleika fagurra orða um að laða að erlent fjármagn?

Fræg er orðin hin sorglega Icesave deila. Við Íslendingar getum talað út í eitt um ósanngjarna vexti, óskýrt regluverk og lýðræðislegt hlutverk málskotsréttar forseta. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að í augum flestra útlendinga er þetta sáraeinfalt: Íslensk stjórnvöld komust tvisvar að samkomulagi við viðsemjundur sína um að borga til baka skuld. Í hvorugt skiptið var staðið við gert samkomulag. Slíkt eykur ekki trúverðugleika landsins.

Kanadíska fyrirtækið Magma Energy gerði á dögunum samning um kaup á HS Orku. Ríkisstjórnin hafði einhver afskipti af þeim samningaviðræðum á sínum tíma en sætti sig að lokum við kaupin. Nú, á síðustu metrunum, ákveður ríkisstjórnin hins vegar aftur að grípa inn í. Hún lýsir því yfir að hún muni “ekki staðfesta” samninginn, heldur skipa nefnd sem hefur það markmið að “vinda ofan af” kaupunum. Slíkt eykur ekki trúverðugleika landsins.

Kínverskir fjárfestar keyptu nýverið rúmlega 40% hlut í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki. Fyrstu viðbrögð sjávarútvegsráðherra við þessu virtust vera undrun. Það er heldur bagalegt að sjálfur sjávarútvegsráðherrann þekki ekki íslensk lög um leyfilegt eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum, en önnur viðbrögð hans voru ekki síður bagaleg: Hann lýsti yfir vilja til að breyta lögunum þannig að þetta yrði ekki hægt, helst afturvirkt, “til að vernda íslenskan sjávarútveg frá erlendu fjármagni”. Slíkt eykur ekki trúverðugleika landsins.
Síðustu mánuði hafa nokkrir Alþingismenn, undir forystu stjórnarþingmannsins Ásmundar Einars Daðasonar, talað í fullri alvöru fyrir þeirri hugmynd að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu, ári eftir að við sóttum um og áður en viðræður hefjast einu sinni. Hvað skyldi það gera fyrir trúverðugleika landsins?

Stjórnvöld hafa því sent þau einföldu skilaboð út í heim að ekki sé hægt að treysta Íslendingum. Þeir standa ekki við orð sín og jafnvel ekki við skriflega samninga. Það er erfitt að sjá fyrir sér að hér verði raunverulegur hagvöxtur á næstu árum ef ekki koma til fjárfestingar frá erlendum aðilum. Ekki er síður erfitt að sjá fyrir sér að það gerist meðan ríkisstjórnin, og þá sérstaklega annar stjórnarflokkurinn, virðist róa að því öllum árum að fæla útlendinga frá og rústa trúverðugleika Íslands.

Latest posts by Ingvar Sigurjónsson (see all)