Klárum dæmið og ekkert helv… væl!

Ástæða er til að hvetja knattspyrnuáhugamenn til að mæta á völlinn næstkomandi laugardag og sjá íslenska landsliðið í knattspyrnu taka fyrsta skrefið í átt að sæti á úrslitakeppni EM 2004. Skotar hafa aldrei verið jafn auðveld bráð og nú er bara að klára dæmið…

Á laugardaginn kemur mætir íslenska landsliðið í knattspyrnu liði Skota á Laugardalsvelli í undankeppni Evrópumóts landsliða. Þetta er fyrsti leikur Íslands í undankeppninni og hugsanlega einn sá mikilvægasti. Flestir sparkfræðingar eru á einu máli um að aldrei fyrr hafi íslenska liðið átt jafn góða möguleika og einmitt nú á því að komast í lokakeppni á stórmóti.

Skotar mæta hingað til lands með vængbrotið lið, fjölmargir lykilmenn þeirra meiddir, auk þess sem liðsandinn er í lágmarki eftir slakt gengi undanfarin misseri. Mikil pressa er á Berti Vogts, hinum þýska þjálfara Skota, en skoskir fjölmiðlar eru þó raunsæir og segja að jafntefli yrði góð niðurstaða.

Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari Íslands, reynir að gera litið eru þessu tali skoskra fjölmiðla og segir hann í Morgunblaðinu í morgun, að þetta sé einungis sett fram til þess að slá íslenska liðið út af laginu. En ef málið er skoðað eilitið nánar, þá kemur í ljós að það væri raunverulegur sigur fyrir Skota að ná einu stigi á Laugardalsvelli.

Afar líklegt verður að teljast að Íslendingar og Skotar muni berjast um 2. sætið í riðlinum. Þumalputtareglan í slíkri riðlakeppni er að tapa ekki leikjum gegn þeim sem þú ert að berjast við um sæti – frekar að tapa á móti öðrum ef svo má að orði komast. Ástæðan er einföld: þú ert ekki einungis að verða af stigunum, heldur ertu að færa þau keppinauti þínum, og þar með tvöfaldast gildi þeirra.

Víst yrðu Skotar sáttir við jafntefli í Reykjavík og þeir gætu þá hugsað til heimaleiksins, þegar lið þeirra verður hugsanlega komið í betra stand en nú er raunin. Fjögur stig Skota úr leikjunum tveimur við Ísland myndu fara langt með að tryggja þeim annað sætið.

Íslendingar eiga því ekki að vera feimnir við að takast á við verkefnið sem við blasir. Í slíkri baráttu er það hlutverk stjórnandans að telja kjarkinn í sína menn, örva þá upp og skipuleggja liðið með þeim hætti að kraftar hvers og einn nýtist sem best. Einhver undarleg kremlarlógía og sálfræðihernaður á hendur skoskum fjölmiðlum kemur að litlu haldi fyrir íslensku leikmennina úti á vellinum á laugardaginn.

Íslenska landsliðið á sigurinn vísan gegn vængbrotnu liði Skota – nú er bara að klára dæmið og innbyrða stign þrjú. Áfram Ísland!

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)