Bandaríkjamenn vilja aukin ríkisafskipti

Bandaríkjamenn virðast um þessar mundir vilja heldur sjá meiri ríkisafskipti en minni. Repúblikanar virðast ætla að sinna þessari þörf fremur en að halda sig við þann málflutning sem venjulega einkennir flokkinn og gætu uppskorið ríkulega þegar þjóðin gengur að kjörborðinu innan skamms til þess að kjósa nýja menn á þing.

Nýleg skoðanakönnun Gallup í Bandaríkjunum sýnir fram á að sífellt fleiri Bandaríkjamenn telja að hið opinbera eigi að hafa meiri afskipti af gangi mála í samfélaginu en það gerir. Í könnuninni kemur fram að 48% telja að hið opinbera eigi að auka afskipti sín en 44% telja að draga beri úr þeim en spurningin sem svarað er hljóðar svo:

Sumir telja að hið opinbera sé að reyna að gera of marga hluti sem einstaklingar og fyrirtæki gætu séð um. Aðrir telja að hið opinbera ætti að gera meira til þess að leysa vandamál þjóðarinnar. Hvor fullyrðingin samræmist þínum skoðunum betur?

Töluverður viðsnúningur hefur orðið á afstöðu Bandaríkjamanna til þessarar spurningar frá því í ágúst árið 2000 þegar 54% töldu að ríkið ætti fremur að draga úr umsvifum sínum en einungis 38% voru á öndverðri skoðun. Leiða má líkur að því að verra ástand efnahagsmála og aukin ótti fólks við atvinnuleysi og kreppu hafi orsakað þennan viðsnúning en áhugavert er að skoða hann í því samhengi að könnunin árið 2000 er gerð í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum og líklega hefur Repúblikanaflokkurinn notið mjög góðs af þessu hugarfari meðal þjóðarinnar á þeim tíma, enda leggur flokkurinn mikla áherslu á lágmörkun ríkisvaldsins í orðræðu sinni.

Nú þegar styttist í mikilvægar þingkosningar í Bandaríkjunum virðist bandaríska þjóðin vera orðin skeptískari á einkaframtakið og mætti búast við því að sú tilfinning gagnist demókrötum í baráttunni fyrir því að halda þingmeirihluta í komandi kosningum.

Þingkosningarnar í Bandaríkjunum eru George W. Bush ákaflega mikilvægar. Bush varð fyrir því áfalli skömmu eftir kjör hans í nóvember 2000 að öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Vermont, Jim Jeffords, sagði sig frá flokknum og gerðist óháður en studdi demókrata í kjöri á nefndarmönnum og í helstu málum. Hin snögga hugarfarsbreyting þingmannsins varð til þess að repúblikanar misstu eins atkvæðis meirihluta sinn í Öldungadeildinni og hefur Bush átt í miklum erfiðleikum með að koma málum sínum í gegnum þingið af þessum sökum. Ef repúblikanar ná aftur meirihluta í þinginu myndi staða Bush styrkjast mjög verulega og því að miklu að keppa í komandi kosningum.

Aðgerðir Bush stjórnarinnar í ýmsum málum hafa ekki bent til þess að repúblikanar leggi um þessar mundir sérstaka áherslu á einstaklingsfrelsi eða lágmörkun ríkisvaldsins. Þvert á móti vaxa útgjöld ríkissjóðs hratt. Stofnun nýrrar risastofnunar, hálfgerðrar innanríkisleyniþjónustu, ásamt áberandi fráhvarfi frá fríverslunarhugsjóninni í alþjóðamálum og stórauknum niðurgreiðslum til landbúnaðarmála benda til þess að nú sé Repúblikanaflokkurinn einmitt sá flokkur sem muni leggja megináherslu á að hið opinbera leysi vandamál fólks ? eða skipti sér af þeim í öllu falli.

Í deilum milli Bandaríkjaþings og forstans upp á síðkastið hefur Bush og talsmönnum hans tekist að draga upp þá mynd að demókratar stígi á bremsuna og hindri framgang þjóðþrifamála með þrákelni sinni í þinginu. Fyrir skemmstu gekk forsetinn jafnvel svo langt í ræðu að lýsa því yfir að Demókratar hefðu engan áhuga á öryggi þjóðarinnar vegna andstöðu margra þeirra við stofnun hinnar nýju innanríkisleynisþjónustu.

Mörgum þykir það e.t.v. kaldhæðið að hægrisinnaðri flokkurinn í Bandaríkjunum ætli að gera sér mat úr þrá þjóðarinnar eftir sterkara ríkisvaldi nú þegar það hentar. Sú staða virðist engu að síður vera uppi í bandarískum stjórnmálum í dag og hlýtur það að leiða hugann að því hvort barátta frjálslynds fólks fyrir auknu frelsi og takmarkaðri ríkisafskiptum sé að eilífu dæmd til þess að tapast ef stundarhagsmunir fyrir kosningar þykja réttlæta það.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.