Beat LA!

Heimsmeistarakeppnin í S-Afríku fær mikla athygli um þessar mundir en í Bandaríkjunum er ekki síður tekist á í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar þar stórveldin Boston og Lakers takast á í annað sinn á þremur árum.

Heimsmeistarakeppnin í S-Afríku fær mikla athygli um þessar mundir en í Bandaríkjunum er ekki síður tekist á í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar þar stórveldin Boston og Lakers takast á í annað sinn á þremur árum.

Boston og LA Lakers eru sigursælustu og þekktustu lið deildarinnar og einvígi þeirra í gegnum tíðina eru fræg. Hæst bera viðureignir liðanna á 9. áratugnum þar sem Magic Johnson og Larry Bird fóru fyrir liðum sínum í mögnuðum einvígjum sem urðu til þess að auka hróður deildarinnar og körfuboltans um heim allan.

Viðureignir liðanna voru ekki síður merkilegar fyrir þær sakir að þar tókust á lið frá ólíkum hlutum í Bandaríkjunum og endurspegluðu þar sem ólíkan stíl og menningu. Glamúrinn og gleðin einkenndu L.A og Magic Johnson var leiðtogi liðsins, síbrosandi og stýrði hröðum leik liðsins þar sem sóknirnar enduðu oftar en ekki með því að hann átti glæsilegar sendingar á liðsfélaga sína sem kláruðu færin.

Boston endurspeglaði hins vegar ágætlega austurströndina og kúltúrinn þar. Larry Bird er sennilega hvítasti íþróttamaður sem hefur nokkurn tíma dripplað körfubolta og minningarnar af honum frá því um miðjan níunda áratuginn, náfölum með Mullet-greiðsluna, í stuttbuxum sem huldu aðeins það allra nauðsynlegasta, sýndu að Boston liðið var ekki sérstaklega upptekið af stíl eða útliti. Þeir spiluðu hins vegar árangursríkan körfubolta og Bird var frábær sóknarmaður sem fann nánast alltaf leiðina að körfunni.

Það var til marks um stemninguna í deildinni í þá daga að þegar Boston keppti í úrslitum Austurdeildarinnar og fyrir lá að sigurliðið myndi keppa við Lakers í úrslitunum að þá gerðist það iðulega að stuðningsmenn andstæðinga Boston tóku upp á því þegar úrslit í einvíginu voru að ráðast að kalla „Beat LA!“.

Eftir að helstu stjörnur Boston-liðsins hættu upp úr 1990 hefur heldur verið á brattann að sækja hjá liðinu og við tók löng eyðimerkurganga. Þrátt fyrir að liðið ætti inn á milli ágætis leikmenn var árangur þess aldrei í líkingu við það sem áður var. Helsta stjarna liðsins undanfarinn áratug hefur verið Paul Pierce en hann náði ekki að draga liðið áfram einn síns liðs. Þetta snarbreyttist sumarið 2007 þegar að tvær stjörnur úr deildinni, þeir Kevin Garnett og Ray Allen gengu til liðs við liðið. Ray Allen hafði í mörg ár verið einn besti skotmaður deildarinnar og mikill skorari en Garnett hafði verið einn albesti framherji deildarinnar og m.a. valinn leikmaður ársins (MVP) árið 2004. Þeir höfðu hins vegar átt það sameiginlegt að eyða ferli sínum í deildinni hjá slökum liðum og aldrei komist nálægt því að vinna titilinn. Þessu vildu þeir breyta og með samstilltu átaki var hægt að koma öllum þessum stjörnum fyrir innan launaþaksins sem öll lið í deildinni verða að virða.

Þetta lið varð vitaskuld ógnarsterkt og endaði á að fara alla leið í úrslitin gegn Lakers um vorið 2008. Það einvígi vann Boston nokkuð sannfærandi 4-2 og vann fyrsta titilinn í 22 ár þar sem Paul Pierce var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Liðið er að vísu tveimur árum eldra núna og flestar helstu stjörnur liðsins eru komnar á efri árin í ferli sínum. Vítamínsprautan í liðinu í ár hefur hins vegar verið hinn ungi leikstjórnandi Rajon Rondo, sem er á fjórða ári sínu í deildinni og hefur slegið í gegn á þessu ári.

Lakers hafði ekki lent í sömu eyðimerkurgöngunni og Boston eftir gullaldarárin. Liðið fékk til sín Kobie Bryant árið 1996 og stjörnumiðherjann Shaquille O’Neal árið 1999 og saman mynduðu þeir sterkasta dúó deildarinnar í kringum aldamótin. Lakers vann þrjá titla í röð 2000-2002 og virtist sem önnur lið deildarinnar ættu fá svör við kraftinum í liðinu. Fljótlega fór þó að gera vart við sig innbyrðis deilur milli Bryants og O’Neal sem enduðu með því að O’Neal fór til Miami Heat og raunar vann titilinn með þeim árið 2006. Bryant varð eftir en liðið var ekki nærri jafnsterkt og í nokkur tímabil mátti Lakers sætta sig við að vera með einn besta leikmann deildarinnar en ná aldrei nema miðlungsárangri.

Bryant átti auk þess við ýmis vandamál að etja á þessum tíma, hann var kærður fyrir nauðgun en lauk því máli með samkomulagi. Hann þykir nokkuð sérstakur persónuleiki, er til að mynda harður við liðsfélaga sína og um tíma var ekki óalgegnt að sjá hann húðskamma liðsfélaga sína en yrða ekki á þá að öðru leyti. Hann hefur sömuleiðis athyglisverða framkomu í fjölmiðlum – ef Lakers tapar og Bryant situr fyrir svörum á blaðamannafundum eftir leikina fer ekkert á milli mála að hann getur varla ímyndað sér neitt leiðinlegra í heiminum en að vera þarna. Innblásnum spurningum blaðamanna er mætt af hans hálfu með stingandi augnaráði og 3-4 orða setningum.

Þrátt fyrir þetta hefur Bryant tekist, ásamt Phil Jackson þjálfara liðsins, að gera Lakers að stórveldi á ný. Þar munaði mest um að liðið fékk til sín miðherjann Paul Gasol fyrir þremur árum. Gasol þessi er spænskur og hafði leikið í nokkur ár í deildinni með Memphis Grizzlies. Þrátt fyrir að Gasol líti ekki út fyrir að vera til stórræðanna er hann einn besti stóri maðurinn í deildinni og hefur styrkt liðið gríðarlega. Gasol þessi minnir mann einna helst á spænskan skiptinema á Interrail, hefur síða lokka og þriggja daga rót og lítur út fyrir að hafa fengið sér eitt eða tvö rauðvínsglös áður en hann fór úr húsi. En um hæfileika hans þarf enginn að efast og samvinna hans og Andrews Bynum, sem er einn efnilegasti miðherji deildarinnar, hefur gert það að verkum að Lakers eru orðnir afar sterkir inni í teignum.

Skrautlegasti leikmaðurinn í liðinnu er þó vafalaust Ron Artest. Sá spilaði lengi vel í Indiana og var þar meðal frambærilegri leikmanna deildarinnar þar til að liðið mætti Detroit Pistons árið 2004. Þar mættustu stálin stinn enda bæði lið þekkt fyrir að vera hörð í horn að taka. Sá leikur endaði hins vegar í upplausn þar sem leikmenn liðanna lentu í slagsmálum þar sem hnefahöggin voru látin dynja. En það var ekki allt, þvi einn áhorfendanna ákvað að blanda sér í slaginn með því að henda inn flösku á völlinn. Áhorfandinn hefur sjálfsagt talið sig vera í góðu vari því hann sat í 10. röð frá vellinum. Flaskan lenti hins vegar í Artest sem brást við með því að skeiða upp áhorfaendapallana, finna kauða og ráðast á hann. Seinna meir var sýnt fram á að Artest réðst að vísu á vitlausan áhorfanda. Hann bætti þó um betur þegar hann var kominn aftur inn á völlinn og kýldi annan áhorfenda kaldan. Artest fékk langt bann og var seldur frá Indiana og eftir nokkuð flakk um deildina endaði hann hjá Lakers. Artest spilar fasta vörn en hann er enn sem komið er helsta spurningamerkið í liðinu.

Fyrstu fjórir leikir liðanna í úrslitunum núna hafa endað þannig að hvort lið hefur unnið tvo leiki. Lakers hafa virkað sannfærandi en breiddin í Boston hefur verið meiri og baráttan oft skilað þeim langt. Allir áhugamenn um körfubolta og íþróttir almennt ættu ekki að láta næstu leikina fara fram hjá sér.

Og til þess að lesendur Deiglunnar fái einhverjar tölur í þessum pistil þá fer hér að lokum spá um úrslitin – Boston vinnur 4-3.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.