Niður með HM kvenna

Í dag hefst HM karla í knattspyrnu, sem í daglegu máli er einfaldlega kallað HM í knattspyrnu. Eins og fáir vita verður HM kvenna haldið í Þýskalandi á næsta ári. Vonandi munu menn hafa þor til að leggja þá kynjuðu samkomu af í framtíðinni.

Í dag hefst HM karla í knattspyrnu, sem í daglegu máli er einfaldlega kallað HM í knattspyrnu. Eins og fáir vita verður HM kvenna haldið í Þýskalandi á næsta ári. Vonandi munu menn hafa þor til að leggja þá kynjuðu samkomu af í framtíðinni.

Hinn mikli munur í launum og virðingu karla- og kvennaboltans hefur ekkert með það að gera að stelpurnar sparki lausar eða að karlamarkverðirnir hoppi hærra. Skýringin er sáraeinföld. Þær íþróttir þar sem karla- og kvennaflokkar keppa á sömu mótum, búa við jöfnuð. Í þeim íþróttum þar sem keppt er á aðskildum mótum þar hallar mjög á konur. Hafi FIFA einhvern áhuga á því að kvennaboltinn öðlist jafnháan sess í hugum fólks og karlaboltinn, sem þessi rótrotni fitupungaklúbbur auðvitað hefur ekki, þá er eina vitræna skrefið til þess að leggja niður þessi sérstöku kvennamót og koma á fót einu sameiginlegu heimsmeistaramóti, sem gæti þá staðið undir nafni sem HM. Vitanlega yrði áfram keppt í karla- og kvennaflokki, en bara á sama stað.

Í tennis, frjálsum íþróttum, fimleikum og sundi njóta karl- og kvenkynskeppendur sömu virðingar. Í fótbolta, handbolta og mörgum öðrum hópíþróttum hallar mjög á konur. Það er í raun ekki skrýtið. HM í knattspyrnu er þannig 80 ára gamalt mót með sínar hefðir og goðsagnir, sinn fasta sess í hugum fólks. Í stað þess að bæta kvennakeppni við það mót og leyfa konunum að njóta þess orðstírs sem HM hefur skapað sér, og þeirrar umfjöllunar sem mótinu fylgir, var ákveðið búa til aðskilda keppni og láta hana byrja frá grunni. Af hverju í ösköpunum?

Það má ganga út frá því vísu að ef ákveðið hefði verið að búa til sérstakt kvenna-Wimbledon, sex vikum eftir „alvöru-Wimbledon“ þá hefðum við aldrei heyrt um Williams-systurnar. Ef ákveðið hefði verið að halda sérstaka kvennaólympíuleika, á einhverjum helvítis oddatöluárum, þá hefði engin frjálsíþróttakona geta haldið sér uppi af iðju sinni.

HM-kvenna eru mót sem vekja lítinn áhuga utan þess ríkis sem þau eru haldin í, og jafnvel þá einungis í sumum ríkjanna sem taka þátt. Enginn þar fyrir utan fær yfir höfuð að heyra þessi mót, hvað þá að hann hafi möguleika á að fylgjast með þeim í sjónvarpi. Áhorfendapallarnir eru yfirleitt hálftómir, nema þegar gestgjafarnir spila. Það væri auðvitað kjörið að nýta þá áhorfendur sem leggja leið sína HM-karla til að fylla kvennaleikina. Áður en langt en langt um liði yrði troðfullt á þá leiki einnig.

Sé einhverjum annt um jöfnuð í knattspyrnu þá eru sameiginleg stórmót fyrsta og langmikilvægasta skrefið, því annað, eins og laun og athygli mun sjálfkrafa fylgja. Því miður hafa æðstu yfirvöld knattspyrnuheimsins aðrar hugmyndir. Fyrir nokkrum árum lagði Sepp Blatter til að knattspyrnukonur klæddust meira eggjandi fötum. Fín hugmynd. Ef maður er fáviti.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.