Þegar allt snýst um HM og ekkert annað er sýnt í sjónvarpinu er tvennt í stöðunni fyrir þá sem alla jafna fylgjast ekki mikið með fótbolta. Annað hvort er að reyna að láta þetta alveg framhjá sér fara eða demba sér í að fylgjast með og taka þátt í fjörinu. Fyrri kosturinn er ekkert sérstaklega auðveldur og þá er maður líka stimplaður félagsskítur. Seinni kosturinn býður upp á að maður geti tekið þátt í umræðunum og dottið í nokkrar HM grillveislur. Ég hef ákveðið að velja seinni kostinn þetta árið. Ef það er einhvern tímann tími til að fylgjast með fótbolta hlýtur það að vera þegar bestu lið heims koma saman og etja kappi.
Það sem hefur komið mér mest á óvart hingað til er hvað HM snýst um miklu meira en bara leikina sjálfa. Endalausir umræðuþættir fyrir og eftir leiki er alveg sérstakt fyrirbæri útaf fyrir sig. Þar koma saman allir spekingarnir sem allt vita og fræða okkur hin. Þetta þykir mér merkilegasti parturinn í öllum HM hasarnum. Í fyrsta lagi er auðvitað ótrúlegt hversu mikið er hægt að velta einum fótboltaleik fyrir sér og greina hinar ýmsu uppákomur. Fótbolti er nú einu sinni frekar einföld íþrótt sem gengur út á að þitt lið reynir að koma boltanum í mark andstæðinganna á sama tíma og það reynir að verja sitt eigið mark.
En þetta er greinilega alls ekki svo einfalt. Liðin þurfa sko að vera sterk „varnarlega séð“, liðið þarf að mynda „öfluga heild“, leikmennirnir þurfa að vera „í stuði“ og „mættir á staðinn“ (hvað sem það nú þýðir), en síðast en ekki síst verður „sjálfstraustið“ að vera til staðar. En það er sko alls ekki einfalt fyrir leikmann að halda sjálfstraustinu í leik. Það er víst ekki þannig að sumir leikmenn hafi almennt séð meira sjálfstraust en aðrir, heldur missa þeir sjálfstraustið og fá það aftur eftir framgangi leiksins. Það er því álíka mikilvægt fyrir leikmann að halda í sjálfstraustið og að halda boltanum.
Þeir sem lýsa fótboltaleikjunum nota sjálfstraustið í gríð og erg við að lýsa leiknum fyrir áhorfendum. Þegar leikmaður á gott skot eða skorar þá „var hann sko fullur sjálfstrausts“ en þegar skot hans geigar þá „missti hann sjálfstraustið“. Leikmaður getur því lagt af stað í sókn fullur sjálfstraust en misst það einhvers staðar á leiðinni og og klúðrað því lokaskotinu. Athyglisvert er þó að yfirleitt eru þetta eftiráskýringar hjá lýsendunum en þeir geta aðeins sagt til um hvort leikmaður hafði sjálfstraust þegar þeir vita hvort skotið heppnaðist eða ekki. Erfitt er því að átta sig á því hvort þetta blessaða sjálfstraust spái fyrir um árangur.
Fyrir þá sem eru að horfa á HM í fyrsta sinn er mikilvægt að temja sér „lingóið“ sem er notað og venja sig strax á að tala mjög hátíðlega um allt sem fram fer á vellinum. Það er til dæmis ekki kúl að segja „hann er góður að sparka í boltann“ heldur er mun betra að segja „hann er mjög sterkur sóknarlega séð“. Aðalatriðið er að svo að skilja mikilvægi sjálfstraustsins hjá leikmönnum og geta greint skýrt og greinilega á hvaða tímapunkti leikmaður hefur sjálfstraust og á hvaða tímapunkti hann tapar því. Þá fyrst telst maður almennilegur HM aðdáandi.
Mín spá fyrir HM er að það lið sem haldi „sjálfstraustinu“ best sigri keppnina. Hvaða lið það er verður að sjálfsögðu gefið upp að kvöldi 11. júlí næstkomandi.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021