Helstu persónur og leikendur í íslenskum stjórnmálum hafa á undanförnu ári sýnt það ítrekað í verki að á ögurstundu eru samvinna og samstaða því miður aftar í röðinni en persónulegir hagsmunir. Í alla þá 15 mánuði sem liðnir eru frá því að bankarnir hrundu og allt árið 2008 í aðdraganda bankahrunsins hefur barátta íslensku þjóðarinnar einkennst af liðahugsun og spuna á kostnað eindrægni og baráttu.
Atburðarás dagsins var lýsandi dæmi um þetta. Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hafði baðað sig í sviðsljósi umhugsunarfrests í nokkra daga og fengið nánast alla erlenda fjölmiðla til landsins í óvissu ákvað forsetinn að vísa Icesave-ríkisábyrgðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hafði ekki látið ríkisstjórnina vita af því áður heldur sent henni tilkynninguna skömmu áður en blaðamannafundurinn byrjaði.
Ríkisstjórnin frétti af ákvörðuninni á sama tíma og allir aðrir. Fyrstu viðbrögðin voru þar af leiðandi ekki burðug. Haldinn var blaðamannafundur strax í kjölfarið þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar voru greinilega enn að jafna sig á fréttunum og höfðu allt á hornum sér. Í stað sterkra og skýrra skilaboða eyddi forsætisráðherra löngu máli í að býsnast yfir því að nú væri allt í óvissu, endurreisnaráætlunin í uppnámi og allt óvíst með framhaldið. Það vantaði bara að forsætisráðherra spyrði blaðamennina hvað þeim fyndist að hún ætti að gera.
Beðið og svo farið af stað
Þótt ríkisstjórnin eigi einhverja samúð skilda fyrir að fá þessa ákvörðun beint í andlitið án fyrirvara þá stendur eftir sú spurning hvers vegna ekki var búið að undirbúa viðbrögð við annars vegar synjun og hins vegar staðfestingu. Á vegum ráðuneytanna starfa jú nokkur hundruð manns! Varaformenn stjórnarflokkanna komust óafvitandi nálægt því að útskýra ástæður þessa í Kastljósviðtali í kvöld með þeim orðum að enn á ný hefði stjórnin þurft að taka til eftir einhverja aðra. Stjórnin ákvað sem sagt að bíða eftir „klúðrinu“ og byrja þá að taka til – líklega með miklum mæðusvip.
Á meðan ríkisstjórnin var að átta sig söfnuðust upp neikvæðar og rangar fréttir í heimspressunni um að ákvörðunin jafngilti því að við ætluðum ekki að borga og værum að hlaupast frá okkar skuldum. Ítrekaðar kröfur héðan heima um að ráðin verði almannatengslafyrirtæki og fagmenn til að sjá um að koma réttum upplýsingum á framfæri strax virðast litlu hafa skilað. Þótt eitt slíkt fyrirtæki hafi verið ráðið ef marka má fréttir, þá var greinilega enginn skýr talsmaður sem leitað var til fyrir Íslands hönd. Áþreifanlegasta dæmið um þetta er sú staðreynd að liðsmenn Indefence stóðu sveittir við símann í dag og svöruðu fyrir Íslands hönd. Þar á meðal eru menn sem voru að skjótast úr vinnunni í hádegishléinu.
Við gátum vitaskuld sagt okkur að fréttirnar yrðu ekki jákvæðar ef málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu – en það er ekki hægt að líða að þær séu rangar um lykilatriði málsins og fái að standa þannig. T.a.m. er fyrirsögnin á vef Sky eftirfarandi: „Iceland Refuses To Repay Britain £2.3bn“.
Það má líka velta öðru upp: Ef það að vísa máli til þjóðaratkvæðagreiðslu leiddi til tuga frétta erlendis um að við værum að hafna greiðslum alfarið – hvað mun synjun í þjóðaratkvæðagreiðslu þýða? Hvernig mun heimspressan túlka þann atburð? Nánast það eina sem öruggt er í þeim efnum er að íslensk stjórnvöld munu ekki hafa undirbúið sig fyrir þá niðurstöðu, að minnsta kosti ef marka má fortíðina. Við höfum misst af nánast öllum tækifærum til þess að halda rétt á málum þegar aðstæður sem þessar hafa komið upp.
Rétt ákvörðun?
Var ákvörðun forseta Íslands rétt? Í grunninn var hún það ekki. Að einn maður meti það eftir fullkomlega óljósum forsendum hvort þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, jafnvel í málum sem henda illa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað ekki eðlilegt. En sem einhvers konar neyðarvörn gagnvart ríkisábyrgð gagnvart Icesave-samkomulaginu, eftir að fyrirvarar Alþingis frá því í sumar höfðu að mestu verið teknir úr sambandi, þá var það orðinn okkar eini kostur í stöðunni. Athyglisvert er þó að þverpólitísk samstaða virðist nú vera að myndast um að breyta þurfi fyrirkomulaginu varðandi málsskotsrétt forseta. Það þurftu s.s. báðir vængirnir í íslenskum stjórnmálum að verða fyrir barðinu á þessu furðufyrirbæri sem 26. greinin er til þess að breytingar verði á.
Til þessarar undarlegu stöðu að forsetinn hefði málið í hendi sér hefði ekki þurft að koma. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms mat málið upphaflega þannig að lausn Icesave-deilunnar myndi ekki krefjast gríðarlegs átaks heldur væri þetta mál sem unnt yrði að leysa hratt og örugglega. Samninganefndin var ráðin í skyndi og lögð áhersla á að ná þyrfti samkomulagi um málið sem þyrfti einungis að vera betra en það sem var á borðinu í október 2008. Pólitíska strategían var svo sú að fyrrum valdhöfum yrði kennt um málið og þar af leiðandi myndi samningurinn sjálfur ekki fá mikla athygli. Þetta plan gekk ekki upp. Eftir því sem menn lásu samningana betur og betur yfir og gerðu sér grein fyrir t.d. vaxtakostnaði og uppgjörsskilmálunum kom í ljós að við höfðum fengið nánast verstu mögulegu niðurstöðu málsins og þegar skrifað upp á hana!
Til að bæta gráu ofan á svart þá talaði formaður samninganefndarinnar um samkomulagið í sigurtón og grínaðist með að hann hefði ekki nennt að hafa þetta hangandi yfir sér lengur. Þetta mæltist illa fyrir og snögglega var skipt um takt – talað um að Ísland yrði Kúba norðursins, enginn hefði áhuga á að stunda við okkur viðskipti og við gætum gleymt endurreisninni á meðan þetta mál væri óafgreitt. Þessi undarlegi málflutningur, annars vegar að þetta væri snilldardíll en á hinn bóginn að við yrðum að samþykkja þetta, gerði að verkum að menn fóru að velta því fyrir sér hvort ítrustu hagsmuna þjóðarinnar hefði verið gætt. Inn í það spilaði að annar stjórnarflokkurinn virtist vera tilbúinn að til að gera nánast hvað sem er til þess að koma umsókn Íslendinga til ESB af stað og hinn stjórnarflokkurinn var umhugað að veita þjóðinni siðferðislega áminningu fyrir neyslufylleríið, hrifninguna og stuðninginn við fjármálafurstana.
Misvísandi skilaboð og ósýnilegur forsætisráðherra
Auðvitað var það ekki svo að t.d. fjármálaráðherra hafi talið þetta mál léttvægt eða auðvelt. Aftur á móti hafa misvísandi yfirlýsingar og undirbúningur málsins gert það að verkum að stjórninni hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina um að fulltrúar hennar berji í borðið á samningafundum erlendis og gefi sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Forsætisráðherra hefur verið lítt sýnilegur og algerlega vanrækt það hlutverk sitt að tala upp stemninguna, tala kjark í þjóðina og útskýra fyrir henni hvað sé að gerast. Samfylkingin virðist hafa ætlað að komast ódýrt frá málinu og láta VG taka á sig óvinsældirnar. Fjórir til fimm þingmenn VG hafa ítrekað lýst því yfir að ríkisábyrgðin sé þeim ekki að skapi. Nánast eini maðurinn í stjórnarliðinu sem virðist virkilega sannfærður um að samninginn verði að staðfesta var fjármálaráðherra en einn maður megnar ekki að koma svona risamáli í gegn. Smám saman varð ljóst að berja þyrfti saman liðið til að koma málinu í gegnum í þingið sem rétt hafðist að lokum. Allt hafði þetta þau áhrif að tiltrúin meðal almennings minnkaði og reiðin jókst. Orkan á stjórnarheimilinu virðist hafa farið í halda liðinu saman og slökkva elda en kynning út á við, t.d. með fundarherferðum, blaðaskrifum og kynningarstarfi datt upp fyrir. Forsetinn sá sér leik á borði í þessari stöðu, sogaði til sín athyglina og mómentið og skaut málinu í þjóðaratkvæði.
Við þessa ólánlegu stöðu erum við nú að kljást. Lærdómurinn frá því sem hefur verið að gerast er einfaldur: Komum upp úr skotgröfunum, eyðum minni orku í blame-geimið og meiri orku í að berjast fyrir hönd þjóðarinnar.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021