Heiðarlegri skattheimta II: Persónuafsláttur

Í síðasta pistli mínum lagði ég til að ríkisstjórnin notaði þá breytingahrinu sem nú gengur yfir skattkerfið til að gera skattheimtu á Íslandi „heiðarlegri“. Til að skattheimta geti talist heiðarleg þarf hún að vera tiltölulega einföld í sniðum, gagnsæ og áhrif hennar skýr. Í stuttu máli þarf hún að gera stjórnmálamönnum sem erfiðast fyrir að skerða kjör fólks með sköttum án þess að það geri sér grein fyrir því. Dæmi um einfaldan hlut sem gerður er flókinn einmitt með þeim afleiðingum er persónuafslátturinn á Íslandi.

Í síðasta pistli mínum lagði ég til að ríkisstjórnin notaði þá breytingahrinu sem nú gengur yfir skattkerfið til að gera skattheimtu á Íslandi „heiðarlegri“. Til að skattheimta geti talist heiðarleg þarf hún að vera tiltölulega einföld í sniðum, gagnsæ og áhrif hennar skýr. Í stuttu máli þarf hún að gera stjórnmálamönnum sem erfiðast fyrir að skerða kjör fólks með sköttum án þess að það geri sér grein fyrir því. Dæmi um einfaldan hlut sem gerður er flókinn einmitt með þeim afleiðingum er persónuafslátturinn á Íslandi.

Mikilvægasta hlutverk persónuafsláttar er að stýra skattleysismörkum á vinnumarkaði, þ.e. hversu mikið fé launamenn geta unnið sér inn án þess að greiða af því skatta. Þegar hlutverk hans er svo einfalt ættu persónuafsláttur og skattleysismörk auðvitað að vera sami hluturinn. Þannig er einfaldast fyrir skattgreiðendur að átta sig á því hvaða áhrif afslátturinn hefur á tekjur þeirra, skattleysismörkin eru hin sömu fyrir alla þegna ríkisins og það er ómögulegt fyrir stjórnmálamenn að gera breytingar á skattleysismörkunum öðruvísi en með gegnsæjum hætti. Skoðum þetta nánar.

Í Bretlandi nemur persónuafslátturinn til dæmis rúmum 6000 pundum á ári. Þá upphæð draga skattgreiðendur frá heildartekjum sínum og eftir standa skattskyldar tekjur. Svipaður háttur er hafður á í Bandaríkjunum. Persónuafslátturinn og skattleysismörkin renna saman í eitt – einfaldara getur það ekki verið. Þannig geta stjórnmálamenn ekki breytt skattleysismörkunum nema hækka eða lækka persónuafsláttinn. Það eru engar bakdyraaðferðir til.

Á Íslandi er virkni persónuafsláttarins öllu flóknari. Hér á landi reikna launþegar fyrst út skatt af heildartekjum sínum og draga svo persónuafsláttinn frá skattinum sem á þær leggst. Skattleysismörkin eru því fundin með því að deila í skattprósentuna með persónuafslættinum.† Launþegar á Íslandi þurfa semsagt að nota reiknivél til að átta sig á skattleysismörkunum! Það er síst til þess fallið að gera skattheimtuna gegnsæja.

Aukið flækjustig er þó síður en svo eina afleiðing þess að hafa afsláttinn með þessum hætti. Skattleysismörk verða til dæmis sjálfkrafa hærri í sveitarfélögum með lágt útsvar og öfugt, svo skattgreiðendur búa ekki allir við sömu skattleysismörk. Þegar ríkisstjórnin ákveður að hækka skatta er hún jafnframt um leið að lækka skattleysismörk allra – hvort sem það var ætlunin eða ekki. Og þegar hún ákveður að gera breytingar á persónuafslættinum, þá verða breytingarnar á skattleysismörkunum alltaf margfalt meiri í krónum talið.

Þetta eru vandamál sem fæst önnur ríki glíma við og stafa eingöngu af því hvað íslenska skattkerfið er flókið. Og flókið skattkerfi er ekki líklegt til að þjóna þeim forsendum heiðarlegrar skattheimtu sem talin voru upp fremst í pistlinum. Því ætti íslenska ríkisstjórnin að gera eins og flest önnur ríki heims og sameina persónuafsláttinn og skattleysismörkin í eina og sömu töluna. Skattkerfið verður þannig einfaldara og heiðarlegra, og slíkt kerfi kemur öllum til góða – nema hugsanlega undirförlum stjórnmálamönnum.

†Persónuafsláttur á Íslandi árið 2009 var 506.466 krónur á ársgrundvelli. Staðgreiðsluhlutfallið var 37,2 prósent. Þannig er útreikningur á skattleysismörkum 506.466/0,372=1.361.468 á ári. Einfalt?

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)