Leikjafræðin og leigubílstjórar

Ein af forsendum hagfræðinnar er sú að mannskepnan taki ákvarðanir með hagsmuni sína að leiðarljósi og bregðist við utanaðkomandi hvötum til að verja þá hagsmuni. Þetta er yfirleitt orðað sem svo að maðurinn sé „rational“ að upplagi, sem myndi útleggjast skynsamur eða rökréttur. Ástæða þess að ég hika við að nota íslensku orðin er sú að „rational“ ákvarðanir einstaklinga þurfa hvorki að virðast skynsamar né rökréttar á yfirborðinu. Það er einmitt ástæðan fyrir því að margir eiga erfitt með að kyngja þessari forsendu hagfræðinnar.

Ein af forsendum hagfræðinnar er sú að mannskepnan taki ákvarðanir með hagsmuni sína að leiðarljósi og bregðist við utanaðkomandi hvötum til að verja þá hagsmuni. Þetta er yfirleitt orðað sem svo að maðurinn sé „rational“ að upplagi, sem myndi útleggjast skynsamur eða rökréttur. Ástæða þess að ég hika við að nota íslensku orðin er sú að „rational“ ákvarðanir einstaklinga þurfa hvorki að virðast skynsamar né rökréttar á yfirborðinu. Það er einmitt ástæðan fyrir því að margir eiga erfitt með að kyngja þessari forsendu hagfræðinnar.

„Það er ágætt að læra þessar kenningar,“ segir fólk því stundum við mig, „en mannskepnan er of flókin til að hagfræðin geti virkað í raunveruleikanum. Hagfræðin gerir ekki ráð fyrir því hvað maðurinn er ófullkominn. Það er ekki hægt að setja mannlegt eðli upp í formúlur, gröf eða líkön.“

Hagfræðin og mannlegt eðli

Þeir sem svona tala halda að hagfræðingar líti fram hjá mannlegu eðli við störf sín, en skilja ekki að mannlegt eðli er þvert á móti eina viðfangsefni hagfræðinnar. Þetta eru oft þeir sömu og segja sigri hrósandi að kreppan marki einhverskonar hrun hagfræðinnar og þeirra kenninga sem rúmast innan hennar. Ætli eðlisfræðingar þess tíma hafi þurft að þola álíka efasemdir og níð um þyngdarlögmálið þegar fyrstu helíumblöðrurnar tóku að svífa um loftin?

En vegna þessara efasemda verð ég alltaf jafnánægður þegar ég sé að það er ekki bara vit í kenningum hagfræðinnar í rykföllnum fyrirlestrarsölum háskólans, heldur einnig þegar út í raunveruleikann er komið – jafnvel þó það sé með óvæntum hætti.

Fangaklípan og leikjafræði

Eitt af því sem allir hagfræðinemar læra er hin svokallaða fangaklípa. Þar hafa tveir óþokkar verið handsamaðir fyrir alvarlegan glæp og hvorum þeirra er boðinn samningur við yfirheyrslur: Ef annar þeirra velur að játa og vitna gegn félaga sínum fær sá hinn sami friðhelgi meðan hinn er dæmdur í 10 ára fangelsi. Ef þeir játa báðir fær hvor þeirra fimm ára dóm, en ef hvorugur þeirra svíkur hinn hefur lögreglan aðeins sannanir gegn þeim til að fá þá dæmda fyrir minniháttar brot í um hálfs árs fangelsi.

Skynsamur óþokki mun fljótt sjá í hendi sér að út frá eigin hagsmunum sé skást að játa. Hvernig má það vera? Jú, ef hinn fanginn velur að halda sér saman fær skynsami óþokkinn þannig að ganga frjáls, en játi hinn fanginn fær skynsami óþokkinn fimm ára dóm, sem er minna en ella. Hvað sem hinn leikmaðurinn velur að gera er best fyrir skynsama óþokkann að játa.

Niðurstaðan mun því óhjákvæmilega verða sú að báðir játa og sitja inni í fimm ár, þrátt fyrir að augljóslega sé heppilegri niðurstaða fyrir þá að halda sér saman og fá hálft ár hvor. (Ákvörðun einstaklinganna virðist því á yfirborðinu hvorki skynsamleg né rökrétt þó hún sé fullkomlega „rational“.)

Fangaklípan sem endurtekinn leikur

En bíðum nú við. Hvað ef fangaklípan er leikur sem spilaður er oft, og leikmönnunum sagt að játa eða halda sér saman eftir atvikum með það að markmiði að lágmarka samanlagðan tíma sinn í fangelsi? Þá breytist viðhorf fanganna, því sú ákvörðun sem þeir taka hefur ekki aðeins áhrif í eitt skipti, heldur einnig á næsta leik, og þarnæsta og alla leiki eftir það.

Ef fangi svíkur félaga sinn í endurtekinni fangaklemmu er líklegt að félaginn gjaldi líku líkt og refsi honum í næsta leik með því að svíkja hann á móti. Hvorugum þeirra finnst það ákjósanleg staða, enda kemur hún sér illa fyrir þá báða þegar leiknum vindur fram. Hvatar fangans breytast því og það verða á svipstundu hagsmunir hans að vinna með félaganum, en ekki að svíkja hann. Strategían verður þeim sameiginlega hagkvæm.†

Alvöru fangaklemmur

Þetta er allt saman gott og blessað, en hvað kemur þetta raunveruleikanum við? Hverjar eru líkurnar á því að nokkur venjulegur maður muni lenda í þeim aðstæðum að geta valið sér fangelsisvist við yfirheyrslur eftir því hvort hann svíkur félaga sinn eða ekki? Hvað þá að hann muni nokkurtíman fá tækifæri til að spila slíkan „leik“ oft?

Það er nánast útilokað, enda er fangaklípan frekar notuð sem táknmynd fyrir aðstæður sem kunna að koma upp í alvöru en bókstafleg lýsing á raunveruleikanum. Dæmi um talsvert flóknari fangaklípu sem spiluð er í raunveruleikanum er nokkuð sem flestir djammarar hafa einhvertíman upplifað; leigubílaraðir.

Leikur í Lækjargötu

Þegar líða tekur á nóttina um helgar safnast þreyttir djammarar oft fyrir í Lækjargötu og bíða eftir leigubílum. Stundum er traffíkin svo mikil að biðröðin nær meðfram allri Lækjargötunni og leigubílarnir sem bíða eftir að taka fólk upp í úr röðinni ná meðfram öllum Fríkirkjuveginum í hina áttina. Ég stóð í tæpan hálftíma og fylgdist með slíkri biðröð um daginn. Fyrst um sinn reyndu margir óþolinmóðir nátthrafnar að fara fram fyrir röðina og vinka leigubílunum sem biðu ofar á Fríkirkjuveginum, þ.e. svindla sér.

Það er augljóst að skammtímahagsmunir hvers og eins leigubílstjóra eru að taka þátt í svindlinu og fá fólk upp í bílinn sem fyrst. Það munar kannski ekki háum fjárhæðum, en þannig greiðir fólk þó engu að síður hærra fargjald og leigubílarnir ná að fara fleiri ferðir en ef þeir myndu bíða og virða röðina. Ég spái því að ef svona örtröð myndaðist aðeins einu sinni yrði það líka niðurstaðan; bæði fólk og leigubílstjórar myndu svindla á röðinni og hún myndi fljótlega leysast upp öllum til ama.

Endurteknir leikir í leigubílaröðinni

Sú er hinsvegar ekki raunin. Í heilan hálftíma varð ég ekki vitni að því að einn einasti leigubílstjóri freistaðist til að svindla á röðinni og fljótlega hætti fólk að reyna að fara fram fyrir og beið þolinmótt. Það er vegna þess að leigubílaröðin í Lækjargötu er endurtekinn leikur. Slík röð myndast reglulega, og þar er komin skýringin á hegðuninni sem ég tók eftir í þessum óformlega rannsóknarleiðangri mínum.

Það eru hagsmunir leigubílstjóra til lengri tíma litið að geta gengið að langri biðröð vísri um hverja helgi í Lækjargötunni. Og biðröðin veltur á því að hún haldist sanngjörn. Enginn myndi hafa fyrir því að mæta þangað og bíða ef svindlararnir fengju síðan alltaf far fyrstir. Það verða því jafnframt hagsmunir leigubílstjóranna að röðin haldist sanngjörn, og þetta virðast þeir vita.

Ég spurði meira að segja leigubílstjóra út í þetta á ferðum mínum um áramótin og hann staðfesti grun minn. Leigubílstjórarnir hafa gert með sér samkomulag um að virða biðröðina og taka aldrei upp fólkið sem læðist upp Fríkirkjuveginn í von um að komast fram fyrir. Það væri í lagi eina helgi, en röðin yrði öllu styttri þá næstu og myndi að lokum hverfa.

Laumufarþegavandinn

Vandinn við samkomulag af þessu tagi er hins vegar að það skapast kjöraðstæður fyrir svokallaða laumufarþega, sérstaklega því þáttakendurnir í „biðraðarleiknum“ eru margir. Einn leigubílstjóri getur ákveðið að svíkja samkomulagið og grætt á því, en jafnframt notið góðs af því að allir hinir standi við það. Röðin hverfur varla þrátt fyrir stöku sviksaman bílstjóra.

Þessu hef ég líka tekið eftir á ferðum mínum um miðbæinn. Þó það sé sjaldséð er alltaf stöku svindlari sem lendir í lukkupottinum og finnur leigubílstjóra sem er til í að taka hann upp í bílinn fyrir framan Fríkirkjuna – langt fyrir framan aumingja fólkið sem bíður í kulda og byl í Lækjargötunni. (Ég hef sjálfur nokkrum sinnum verið í hlutverki svindlarans og alltaf verið jafnánægður þegar það heppnast. Rational? Engin spurning! Skynsamlegt út frá sameiginlegum hagsmunum heildarinnar? Ekki svo mjög.)

Langtímalaumufarþegar eða skammtímabílstjórar?

Hver er hugsanleg skýring á þessu? Auðvitað getur verið að sumir leigubílstjórar séu einfaldlega illa upp aldir og finnist það bara allt í lagi að svíkjast undan samkomulaginu og láta þá heiðarlegu bera kostnaðinn af því. Það virðist þó ganga svolítið í berhögg við forsenduna um almenna skynsemi mannskepnunnar.

Samkvæmt henni verður hagkvæmara fyrir leigubílstjórana að svindla eftir því sem þeir þurfa sjaldnar að treysta á röðina í Lækjargötunni – rétt eins og það eru hagsmunir fangans að svíkja félaga sinn þegar leikurinn er spilaður einu sinni, en ekki þegar hann er spilaður oft.

Ég ráðlegg því lesendum að taka stikkprufu næst þegar þeim tekst að svindla á leigubílaröðinni (og það mun þeim takast) og spyrja bílstjórann hvort hann keyri oft um helgar. Ég þori að veðja stórum bjór á Ölstofunni á að svikulu leigubílstjórarnir keyra hlutfallslega sjaldnar á kvöldin um helgar en hinir sem eru á sveimi. Líklegast mun ég aldrei þurfa að greiða þann bjór – enda virkar hagfræðin sem betur fer í raunveruleikanum.

†Þetta er hægt að sýna fram á og sanna með aðstoð stærðfræði, en það verður látið ógert hér.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)