„345 háskólanemar svíkja út 300 milljónir“

Í vikunni beindu helstu fjölmiðlar landsins augum að þeim 345 námsmönnum sem hafa verið skráðir í lánshæft nám og þegið atvinnuleysisbætur á sama tíma. Talið er að námsmönnunum hafi tekist að svíkja út allt að 300 milljónir úr Atvinnuleysistryggingarsjóði.

Í síðustu viku voru nýjar úthlutunarreglur LÍN samþykktar sem að mörgu leyti fólu í sér mikla kjarabót fyrir stóran hluta námsmanna. Stjórnvöld ákváðu í kjölfarið að keyra saman nemendaskrá háskólanna og skrá yfir atvinnulausa til þess að koma í veg fyrir að námsmenn í lánshæfu námi þiggi atvinnuleysisbætur. Í ljós kom að 345 námsmenn voru á báðum listum og talið er að þeir hafi þegið allt að 300 milljónir úr atvinnuleysistryggingarsjóði.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur svo mánuðum skiptir bent á ójafnvægið milli námslána og atvinnuleysisbóta. Ráðið hefur bent á möguleikana á misnotkun á kerfinu og varað við því að námsmenn gætu þurft að hætta í námi til að þyggja bætur, til þess að geta framfært sér. Stúdentaráð leggur áherslu á að námslánin verði hækkuð þannig að þau séu jafn há og atvinnuleysisbætur, því á meðan bætur eru 50% hærri en lán er beinlínis boðið upp á að krókaleiðir séu farnar í kerfinu.

Eins og fyrr greinir voru úthlutunarreglum LÍN breytt í vikunni. Fyrir einstakling í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði var framfærslan hækkuð úr 100.600 kr á mánuði í 120.000 kr, eða um 20%. Sett var á frítekjumark þannig að námsmaður má vinna sér inn 750.000 kr áður en að lánin hans eru skert og tekjuskerðingin var hækkuð úr 10% í 35%.

Yfir heildina koma þessar nýju úthlutunarreglur sér vel fyrir námsmenn. Með þessum breytingum hækka lánin fyrir um 80% námsmanna, eða alla sem hafa minna en 1.760.000 kr í árslaun. Í fyrsta skiptið í áraraðir halda námslánin í við verðbólgu, og gott betur. Hinsvegar er hækkun tekjuskerðingingarinnar alvarlegt mál, því fyrir tæplega 20% námsmanna getur enn borgar sig að svindla á kerfinu. Ljóst er að einhversstaðar þurfti að mæta þeim kostnaði sem hlaust af því að hækka grunnframfærsluna um 20% enda fjármagn af skornum skammti. Það er hinsvegar bráðnauðsynlegt að lækka þessa háu tekjuskerðingu um leið og tækifæri gefst. Reynslan sýnir að þeir námsmenn sem vinna mikið með skóla eru að gera það af brýnni nauðsyn og það er miður að þeim skuli refsað fyrir það.

Það er einlæg ósk undirritaðar að þessar breytingar á úthlutunarreglum LÍN séu fyrsta skrefið í að hækka námslánin fyrir alla námsmenn. Vonandi eru þessar breytingar skref í átt að því að lána námsmönnum mannsæmandi kjör til að lifa á.