Faglegur forsendubrestur frelsisskerðingar

Það voru eflaust fleiri en ég sem supu hveljur þegar þeir sáu tillögur Læknafélags Íslands um tóbaksvernd sem viðraðar voru á tóbaksvarnarþingi félagsins nú fyrir helgi. En hvaða skoðun sem menn hafa á neyslustýringu hins opinbera í prinsippinu hljóta allir að geta sammælst um að hún komi ekki til greina nema rökstuðningurinn sé algjörlega hnökralaus.

Það voru eflaust fleiri en ég sem supu hveljur þegar þeir sáu tillögur Læknafélags Íslands um tóbaksvernd sem viðraðar voru á tóbaksvarnarþingi félagsins nú fyrir helgi. Meðal þeirra tillagna sem settar voru fram á þinginu voru að almenn sala á tóbaki yrði takmörkuð, lögaldur til tóbakskaupa yrði hækkaður og álögur sömuleiðis. Eins og við mátti búast var fjöldi fólks sem hristi hausinn yfir tillögunum meðan aðrir voru þeim sammála. En hvaða skoðun sem menn hafa á slíkri neyslustýringu hins opinbera í prinsippinu hljóta allir að geta sammælst um að hún komi ekki til greina nema rökstuðningurinn sé algjörlega hnökralaus.

Ef Læknafélagið ætlast til þess að jafnróttækum tillögum sé gefinn gaumur er þannig sjálfsögð krafa almennings að faglegur og trúverðugur rökstuðningur liggi þeim að baki. Sú er hins vegar síst raunin í þessu tilfelli.

Þau höfuðrök sem Læknafélagið hefur vísað til máli sínu til stuðnings er samfélagslegur kostnaður reykinga, sem það heldur fram að nemi 30 milljörðum á ári. Það skal ekki efast um að samfélagslegur kostnaður reykinga, sem á fræðimáli nefnast neikvæð úthrif, eru til staðar. En að þau nemi 30 milljörðum króna á ári er eiginlega alveg ævintýraleg niðurstaða – sérstaklega ef tölurnar eru settar í samhengi t.d. við rekstrarkostnað Landspítalans, sem nemur um 35 milljörðum á ári.

Þessir útreikningar eru sóttir í skýrslu sem Hagfræðistofnun birti árið 2003 og unnin var upp úr gögnum frá árinu 2000. Gögnin eru sumsé tíu ára gömul, en tölurnar hafa verið uppreiknaðar á föstu verðlagi og Læknafélagið flaggað þeim sem ófrávíkjanlegum sannleik. Það teljast tæpast fagleg vinnubrögð að vísa til áratugs gamallar skýrslu til að réttlæta frelsisskerðingu nú þegar aðstæður í íslensku þjóðfélagi eru gjörbreyttar; álögur á tóbak hafa hækkað mikið hlutfallslega og reykingabann gengið í gildi á skemmtistöðum.

En þó við gefum okkur að skýrslan gæti enn átt við í dag er málflutningur Læknafélagsins ámælisverður. Skýrslan er til dæmis ekki unnin frá grunni á Íslandi, heldur tekur hún mið af þremur erlendum rannsóknum og er staðfærð að íslenskri tölfræði. Þetta er auðvitað ágæt leið til að fá einhverja mynd af aðstæðum, en er ekki nógu traustur grundvöllur til að réttlæta meiriháttar frelsisskerðingu eins og Læknafélagið leggur til. Sérstaklega ekki þegar erlendu rannsóknirnar þrjár greinir jafnmikið á og raun ber vitni, en þeim skeikaði um allt að 225 prósentum á samanlögðum beinum og óbeinum samfélagslegum kostnaði reykinga. Þótt fyrirsjáanlegt sé ákváðu þeir sem staðfærðu skýrsluna að taka frekar mark á hærri upphæðunum en þeim lægri.

Jafnvel þó við göngum enn lengra og gefum okkur að hæstu upphæðirnar eigi hér við er athugavert að langstærsti hluti hins „samfélagslega“ kostnaðar í skýrslunni er síður en svo beinn eða óbeinn kostnaður vegna reykinga, heldur svokallaður óáþreifanlegur kostnaður, s.s. þjáningar,sársauki og dauðsföll vegna reykinga. Þann kostnað ber reykingamaðurinn hins vegar að stærstum hluta einn, og því stórundarlegt að tala um kostnaðinn sem samfélagslegan . Þá er ekki tekinn inn í reikninginn ábati hins opinbera af ótímabærum dauðsföllum vegna sparnaðar í almannatryggingakerfinu.

Af þessu má ljóst vera að samfélagslegur kostnaður reykinga er langt innan við 30 milljarðana sem Læknafélagið heldur á lofti, og líklegast aðeins brot af þeirri upphæð. Jafnvel þeir sem hlynntir eru syndasköttum af þessu tagi, eins og t.d. undirritaður, hljóta að sjá að rökstuðningur Læknafélagsins stendur á brauðfótum. Álögur á tóbak eru þegar með þeim hæstu í heimi og allt eins líklegt að hið opinbera ofrukki fyrir tóbak hér á landi.

Undirritaðan grunar reyndar að tilgangur Læknafélagsins sé síst sá að ná tillögum sínum í gegn, heldur færa átakalínurnar lengra út í öfgar svo aðrar tillögur virðist hófstilltar í samanburði. Það er til lítils, því Þegar faglegur metnaður lækna til að færa rök fyrir máli sínu er ekki meiri en hér er rakinn hafa þeir dæmt sig úr leik í umræðunni.

Útdráttur úr skýrslu Hagfræðistofnunar

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)