Afnám gjaldeyrishafta er þjóðarnauðsyn

Gjaldeyrishöftin skapa aðstæður þar sem menn hagnast á því að finna leiðir til að fara í kringum óeðlilegt ástand, eins og fyrrverandi bankaráðsmaður Seðlabankans gerði. Slíkt brask þrífst best í flóknu og órökréttu umhverfi. Þess vegna þarf að afnema gjaldeyrishöft en ekki herða eftirlit eða viðurlög.

Magnús Árni Skúlason óskaði eftir því að verða leystur undan setu í bankaráði Seðlabankans um helgina. Krafan um að hann segði af sér tengdist því að í starfi sínu sem fjármálaráðgjafi aðstoðaði hann fyrirtæki við að fá hærra verð fyrir gjaldeyrinn sinn heldur en Seðlabankinn er tilbúinn að borga. Þetta þótti ekki samræmast því að sitja samtímis fyrir hönd Framsóknarflokksins í stjórn Seðlabankans enda má segja að starfsemi Magnúsar Árna hafi verið í beinni samkeppni við Seðlabankann. Þótt enginn hafi haldið því fram að um ólöglegt athæfi hafi verið að ræða af hálfu Magnúsar Árna þá var það óneitanlega sérstök staða sem hann hafði komið sér í. Annars vegar þarf hann, í krafti setu sinnar í stjórn Seðlabankans, að hafa skoðun á því hvort og hvenær gjaldeyrishöftum er aflétt. Hins vegar græðir hann á þeim markaðsbresti sem gjaldeyrishöftin valda.

Við þetta mál kemur berlega í ljós einn ókosturinn við gjaldeyrishöftin. Hann er sá að smám saman verður til iðnaður í kringum hið óeðlilega ástand. Menn og konur finna leiðir til þess að græða peninga á því að kunna betur á kerfið heldur en aðrir – eða að fara eins nálægt mörkum hins ólöglega og kostur er. Sá hópur öðlast mikla hagsmuni af því að viðhalda hinu óeðlilega ástandi og smám saman verður til pólitískur þrýstingur um að viðhalda því. Í þessu tilviki skal ósagt látið um hvort Magnús Árni hefði haft svo sterk bein að geta látið eigin hagsmuni víkja fyrir þeim hagsmunum sem honum er treyst fyrir með setu í stjórn Seðlabanka Íslands ef til þess hefði komið að hann þyrfti að taka afstöðu gegn eigin fjárhagslegum hagsmunum með því að berjast fyrir afnámi haftanna. Það skiptir raunar ekki höfuðmáli. Jafnvel þótt við gefum okkur að þessi tiltekni maður hafi svo sterka siðferðiskennd þá sýnir dæmi hans vel hvers kyns rugl höft á viðskipti með gjaldeyri bjóða upp á.

Því miður fer fjölgandi dæmum þar sem leikreglurnar eru flæktar í stað þess að vera einfaldaðar. Ástand þar sem þekking á kerfinu er mikilvægari heldur en sköpun verðmæta hefur í för með sér að brask verður mjög ábatasamt og hætta á ýmis konar spillingu eykst. Annað dæmi en gjaldeyrishöftin eru endalausar tilraunir stjórnvalda í gegnum tíðina til þess að ná fram ýmsum öðrum markmiðum en hagkvæmni í sjávarútvegi. Líklega hefur það þó ekki áður gengið jafnlangt í vitleysunni eins og svokallaðar strandveiðar en með þeim er enn verið að taka veiðiheimildir út úr hefðbundna kerfinu og refsa þannig þeim sem keypt hafa aflaheimildir fullu verði á markaði.

Vera má að mörgum þyki markmiðin með gjaldeyrishöftum tilraunarinnar virði og víst er að margir vilja leiðrétta ýmsar af þeim afleiðingum sem kvótakerfið hefur haft í för með sér. En gjarnan er lækningin verri en sjúkdómurinn. Sífelldar fínstillingar á einföldum kerfum gera þau á endanum flókin. Það er nú að koma í ljós varðandi gjaldeyrishöftin og þess vegna liggur á að afnema þau sem fyrst frekar heldur en að rembast eins og rjúpa við staur eins og Seðlabankastjóri boðar nú með auknu eftirliti.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.