Hávær minnihluti á ekki að ákveða málsmeðferðina

Ein sterkustu rökin fyrir hinni svokölluðu tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild er hve illa hörðustu talsmenn málsins taka henni. Það er aldrei góð regla að láta háværasta minnihlutann ráða því hvernig málsmeðferðinni er háttað. ESB-málið er flókið, umdeilt og fyrir því er ekki skýr meirihluti á þingi. Það er eðlilegt að aðkoma þjóðarinnar sé sem allra mest að málinu.

Það er bullandi ágreiningur innan stjórnarinnar um Evrópusambandsaðild. Annar flokkurinn er á móti því að nálgast sambandið yfirhöfuð en hinn vill allt á sig leggja til þess að komast þar inn og ganga að kröfum sambandsins í óskyldum málum til þess að liðka fyrir aðild eins og sést vel á því að ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar standa í pontu á þingi og fara með rök andstæðinga okkar í Icesave-málinu.

Þennan Evrópuágreining má leysa á ýmsa vegu. Hefðbundna leiðin í pólitík er að gera það í bakherbergjunum með ýmis konar dílum og fiffum milli flokkanna. Þetta mál er hins vegar af þeirri stærðargráðu og vekur upp slíkar tilfinningar að það verður engin sátt um að eins eða tveggja manna þingmeirihluti ákveði að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin ætti að skera úr um hvort sótt verði um.

Sú hugmynd að þjóðin kjósi um hvort sækja eigi um aðild að ESB hefur vakið hörð viðbrögð frá bæði andstæðingum aðildar og stuðningsmönnum hennar, sem telja ýmist að með henni sé verið að gefa eftir eða kjósa um ekki neitt. Það eru einmitt þessi hörðu viðbrögð úr báðum áttum sem eru besti rökstuðningurinn fyrir þessari málsmeðferð. Og það er nákvæmlega þannig sem þarf að nálgast þetta mál núna. Í mörg ár hafa stuðningsmenn og andstæðingar aðildar fært rök fyrir því hvað gera skuli og þar á milli er himinn og haf. Nú þarf að búa til vettvang þar sem þjóðin tekur málið í sínar hendur og segir til um hvað skuli gerast næst.

Það er auðvelt að gera lítið úr slíkri leið með rökum á borð við þau að þeir þingmenn sem tali fyrir henni séu huglausir og skoðanalausir. Slíkur málflutningur kemur allajafna úr röðum þeirra sem hafa hvað sterkastar skoðanir á málinu, vilja að það afgreiðist hratt, ýmist sem umsókn eða út af borðinu og ekki láta einhverja ferla og farvegi þvælast fyrir. Þetta er hinir háværu minnihlutar á sitt hvora enda málsins því staðreyndin er sú að meginþorri fólks hefur ekki endilega djúpa sannfæringu fyrir því hvaða leið skuli fara varðandi Evrópusambandsaðild. Það vill hins vegar vera með í ráðum, eins og nýleg skoðanakönnun Capacent sýnir, þar sem rúmlega 76% studdu þá tillögu að þjóðin kysi um hvort sækja ætti um aðild. Það er ágætt að muna að það er ekki endilega heppilegt að háværasti hópurinn ákveði hvernig málsmeðferðinni er háttað.

Ríkisstjórnin ætti að sjá sóma sinn í því að leysa málið á þennan hátt í stað þess að rjúka til og drífa inn umsókn. Evrópusambandsmálið verður eitt þeirra mála sem stendur upp úr í Íslandssögunni og það verður ekki síst horft til þess hvernig mál var leyst, hvernig gagnstæð sjónarmið voru sætt. Það gerist ekki með því að annar hópurinn valti yfir hinn heldur með því að sem flestir geti sagt sitt álit á málinu.

Ef vinstriflokkarnir meintu eitthvað með því tali sínu í gegnum tíðina að stjórnvöld ættu að virkja lýðræðið í flóknum og erfiðum málum og eiga samræðu við þjóðina þá er þetta tækifærið til að sýna það. Það er troðið á virðingu þingsins og þingmanna þegar fréttir berast af þeim aðferðum sem beitt er af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart þingmönnum sem eru að reyna að standa á sinni sannfæringu í málinu.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.