Dráttarklárinn þrýtur örendi

Hægt er að hugsa sér hagkerfið sem hest sem dregur kerru á eftir sér. Þá er atvinnulífið hesturinn og velferðarkerfið er kerran. Þessir tveir hlutir þurfa að vinna saman, sterkt atvinnulíf skapar miklar tekjur í hagkerfinu og þá er hægt að halda uppi góðu menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðakerfi, því sterkari sem hesturinn er þeim mun þyngri kerru getur hann dregið.

Hægt er að hugsa sér hagkerfið sem hest sem dregur kerru á eftir sér. Þá er atvinnulífið hesturinn og velferðarkerfið er kerran. Þessir tveir hlutir þurfa að vinna saman, sterkt atvinnulíf skapar miklar tekjur í hagkerfinu og þá er hægt að halda uppi góðu menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðakerfi, því sterkari sem hesturinn er þeim mun þyngri kerru getur hann dregið.

Á undanförnum árum óx hagkerfið mjög hratt (of hratt) og dráttarkraftur atvinnulífsins jókst samhliða þeirri þróun. Brugðist var við með því að hlaða stöðugt fleiri sekkjum á vagninn og vegna þess hvað klárinn var orðinn sterkur gerði það ekki að sök.

Í kjölfar hrunsins stendur atvinnulífið veikum fótum enda dregur það dám af gengisfalli, mikilli skuldsetningu og háum vöxtum. Af þessum sökum er dráttarklárinn að þrotum kominn en sekkirnir á vagninum eru jafnmargir og áður. Til þess að klárinn ráði við byrðina þarf að styrkja klárinn með bættu fóðri en þess í stað hefur verið brugðið til þess ráðs að setja dálk undir taglið á honum til að tryggja sömu afköst og áður.
Vandamálið við þessa aðferð er að hún er ekki sjálfbær. Fyrr eða síðar mun klárinn springa.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar var vinnuafl á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi 2009 um 180 þúsund manns. Þar af voru 165 þúsund starfandi. Af þeim sem eru starfandi þá starfa um fimmtíu þúsund hjá hinu opinbera (1). Ef sú tala er rétt þá þýðir það að það eru 115.000 manns sem eiga að vinna fyrir hinum 310.000.

2009 er ár dramadrottningarinnar. Kastljós fjölmiðlanna sem áður baðaði útrásarvíkinganna hefur nú beinst að götuvígjabyggjandi- einbýlishúsa-rífandi- málningarslettandi, brennum-alla-á-báli-bloggandi niðurrifsseggjum.

Meðaljóninn sem með minnkandi ráðstöfunartekjum sínum borgar af hækkandi húsnæðisláninu og verslar inn dýrari matvörur er ætlað það eitt
hlutverk að halda áfram að borga og sætta sig við versnandi lífsskilyrði.

Veikt atvinnulíf mun ekki geta skapað ný störf eða greitt há laun. Veikt atvinnulíf hefur í för með sér veikari lífskilyrði , verri möguleika og færri tækifæri. Ungt fólk mun ekki sætta sig við þetta umhverfi til lengdar. Það mun í sífellt auknum mæli velja sér önnur lönd sem heimaland þar sem kaupmáttur launa er hærri og opinber gjöld þeirra skila sér betur.

(1) Það er ekki haldin sérstök tölfræði um fjölda opinberra starfsmanna en ef við tökum saman hjá Hagstofunni fyrir árið 2008 starfsmenn hjá „veitum“ (1.800), í „opinberri stjórnsýslu“ (9.600), „heilbrigðis- og félagsþjónustu“ (27.100) og „Önnur samfélagsleg þjónusta, menningarstarfsemi og ótilgr.“ (12.700) þá starfa 51.000 manns í þessum greinum og stór hluti þeirra hjá hinu opinbera.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.