Vanhæfur menntamálaráðherra!

Félagshyggjustjórnin hefur beint spjótum sínum að námsmönnum til þess að reyna að hagræða í ríkisrekstri. Þetta er þvert á það sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu námsmönnum í kosningabaráttu sinni í vor.

Félagshyggjustjórnin hefur beint spjótum sínum að námsmönnum til þess að reyna að hagræða í ríkisrekstri. Þetta er þvert á það sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu námsmönnum í kosningabaráttu sinni í vor.

Núverandi ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð og félagshyggju er á leið með að tryggja það að á Íslandi verði ekki áframhaldandi jafnrétti til náms. Enda getur það tæpast talist félagshyggja að halda 20 þúsund íbúum undir fátæktarmörkum. Með ákvörðun sinni að halda lánasjóðssamningunum óbreyttum er verið að gera mörgum námsmönnum mjög erfitt að stunda nám. Námslánin verða áfram 100.600 kr. á mánuði með 10% tekjuskerðingu, ef lántakandi býr í leiguhúsnæði.

Það er ekki snúið reikningsdæmi að komast að því að það getur enginn framfleytt sjálfum sér á þessum kjörum. Háskólastúdentar hafa á síðustu árum þurft að reiða sig á góða sumarvinnu og jafnvel vinnu með skóla til að geta framfleytt sér í gegnum námsveturinn. Núna þegar þúsundir stúdenta eru atvinnulausir í sumar og litla vinnu að fá með skóla þá er ákvörðun félagshyggjustjórnarinnar að halda námslánunum óbreyttum eins og rýtingur í bakið fyrir námsmenn.

Það er ekki einungis atvinnuleysi stúdenta sem mun gera þeim erfitt á komandi vetri. Kaupmáttarskerðingin er gríðarlega mikil. Allt hefur hækkað í verði á Íslandi vegna gengishruns íslensku krónunnar og aukinnar verðbólgu. Meðal annars hefur leigan á stúdentagörðum Háskóla Íslands hækkað gríðarlega á einu ári en hún fylgir vísitölu neysluverðs. Mánaðarleiga á einstaklingsíbúð er nú komin upp í 61.000 til 72.000 kr. Þá er varla peningur afgangs af námslánunum til að eiga fyrir salti í grautinn.

Ríkisstjórnin hefur einnig gert drauma marga stúdenta um skiptinám á komandi vetri fjarlæga. Það getur enginn háskólastúdent með venjulegan fjárhag framfleytt sér erlendis á þessum kjörum. Skiptinemi í Kaupmannahöfn fær tæpar 4200 krónur danskar á mánuði til framfærslu miðað við núverandi gengi og það dugar ekki fyrir leigu.

Það er mjög kaldhæðnislegt að hugsa til þess að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra lofuðu stúdentum á borgarafundi í Háskólabíó fyrir kosningar að tryggja að mánaðarlegar greiðslur frá LÍN yrðu á jafnt við atvinnuleysisbætur, sem eru í dag rétt tæpar 150.000 kr. Þær og ríkisstjórnin öll var ekki lengi að svíkja þetta stærsta loforð til stúdenta. Nú stefnir í að mikil hætta sé á að fólk velji frekar að vera á atvinnuleysisbótum en í námi þar sem það sér ekki fram á að geta framfleytt sér á námslánum.

Þessi ákvörðun félagshyggjustjórnarinnar að skerða námslánin er óforskammaleg. Verst er að Katrín Jakobsdóttir “fann” engan pening í ráðuneytinu í þetta skipti, eins og þegar fjárframlög til listamannalauna voru aukin. Ríkisstjórnin verður að forgangsraða í niðurskurðinum og námsmenn eiga ekki að vera efstir á þeim lista.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)