Samræmd stefna um að óttast Kína

Enginn ráðherra ætlar að hitta Dalai Lama meðan hann er hér á landi. Fjármálaráðherra hefur sagt að engin samræmd stefna hafi verið mótuð af hálfu ríkisstjórnarinnar um heimsókn hans og er það svar nokkuð í anda ríkisstjórnarinnar sem virðist líta á samræmingu áætlana sem sitt helsta viðfangsefni. Raunveruleg ástæða er þó augljós – þjónkun við stórveldið Kína sem vill fyrir alla muni að enginn þjóðarleiðtogi hitti Dalai Lama að máli.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar grafa rækilega undan öllu tali um sjálfstæða utanríkisstefnu og að láta rödd Íslands á alþjóðavettvangi heyrast með því að funda ekki með Dalai Lama, leiðtoga Tíbeta, í tilefni af heimsókn hans til landsins.

Það er stór viðburður að Dalai Lama sé kominn hingað til lands. Kínversk yfirvöld hafa lengi haft horn í síðu frelsisbaráttu Tíbeta sem hann hefur veitt forystu. Raunar er vitað að kínversk stjórnvöld beinlínis setja sig upp á móti því að þjóðarleiðtogar annarra ríkja hitti Dalai Lama og gerðu þau t.d. athugasemdir við það að forsætisráðherra Danmerkur hitti Dalai Lama nýverið. Danskir stjórnmálamenn, jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu, svöruðu þeim athugasemdum hins vegar fullum hálsi og sögðust vera í fullum rétti til að hitta hvern þann þjóðarleiðtoga sem þau vildu.

Það er ekki sami bragurinn yfir íslenskum ráðamönnum. Fjármálaráðherra sagðist í fréttum í gærkvöldi vera að sinna öðrum verkefnum úti á landi og að engin samræmd stefna hafi verið mótuð um þessa heimsókn. Það hefur ekkert náðst í utanríkisráðherra, sem ætti þó að hafa veg og vanda af því að taka á móti þessum merka gesti. Ekkert heyrist heldur frá forsætisráðherra.

Tómlæti ríkisstjórnarinnar í þessu máli kemur ekki til af tilviljun, gleymsku eða annríki. Það fer ekki framhjá neinni ríkisstjórn þegar gestur eins og Dalai Lama kemur til landsins. Heimsókn hans hefur legið fyrir um nokkurt skeið og ráðamenn hljóta að vera vel með á nótunum um hvaða þýðingu heimsókn hans hefur fyrir okkur. Ekki kæmi á óvart þótt kínversk stjórnvöld, t.d. sendiráðið hér á landi, hafi komið skilaboðum áleiðis um að þessi heimsókn hans væri þeim ekki að skapi og hvað þá að ráðherrar og hin pólitíska forysta landsins tæki á móti honum. Mörg dæmi eru um slík afskipti af hálfu kínverskra sendiráðsins hér á landi.

Það er út af fyrir sig sorglegt að risaveldi á borð við Kína geti ekki unað því að aðrar þjóðir hitti Dalai Lama en það er hins vegar ófyrirgefanlegt að íslensk stjórnvöld láti beygja sig með þessum hætti. Þegar til stykkisins kemur þá virðist íslensk utanríkisstefna ekki vera burðugri eða víðsýnni en svo að hún beygir sig undir vilja Kínverja.

Dalai Lama er hér á landi fram á þriðjudaginn og mun þá hitta utanríkismálanefnd Alþingis – sem virðist vera eini opinberi aðilinn sem er til í að taka á móti honum og á Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar hrós skilið fyrir það.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa enn tækifæri til að bæta sig og hitta leiðtoga Tíbeta og sýna þannig að Ísland virðir sjónarmið Tíbeta.

Uppfært kl. 22:32: Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra mun hitta Dalai Lama á morgun og funda með honum, sem er tilraun til að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar í málinu. Það að heilbrigðisráðherra taki að sér að leysa þetta mál, sem heyrir augljóslega ekki undir hann, gerir spurninguna um hvers vegna forsætisráðherra og utanríkisráðherra ætli ekki að hitta Dalai Lama enn meira áberandi. Hvaða skýringar eru á því?

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.