Arðgreiðslur Orkuveitunnar

Reiði starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur vegna arðgreiðslu til eigenda fyrirtækisins var að vissu leyti skiljanleg. Þeir höfðu nýverið sætt sig við kjaraskerðingu vegna slæmrar afkomu fyrirtækisins og sveið því að sjá eftir þeim sparnaði til sveitarfélaganna sem eiga Orkuveituna. En þegar málið er krufið til mergjar er kannski eðlilegt að Orkuveitan greiði út arðinn, ekki síst í ljósi þess hverjir eigendurnir eru, hvaða ábyrgð þeir bera og hvers konar fjármuni þeir hafa bundna í fyrirtækinu.

Reiði starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur vegna arðgreiðslu til eigenda fyrirtækisins var að vissu leyti skiljanleg. Þeir höfðu nýverið sætt sig við kjaraskerðingu vegna slæmrar afkomu fyrirtækisins og sveið því að sjá eftir þeim sparnaði til sveitarfélaganna sem eiga Orkuveituna. En þegar málið er krufið til mergjar er kannski eðlilegt að Orkuveitan greiði út arðinn, ekki síst í ljósi þess hverjir eigendurnir eru, hvaða ábyrgð þeir bera og hvers konar fjármuni þeir hafa bundna í fyrirtækinu.

Orkuveitan starfar við mjög takmarkaða samkeppni við að sjá meira en helmingi þjóðarinnar fyrir húshitun, drykkjarvatni, rafmagni og fráveitu. Þannig byggja þeir langstærstan hluta rekstrarins á tekjum frá eigendum sínum sem lögðu peninga til fyrirtækisins til að tryggja sér þessa þjónustu. Eigendurnir ráða yfir starfsemi þess og hugsa að sjálfsögðu fyrst og fremst um hagsmuni sína og þarfir enda fyrirtækið stofnað til að sinna þeim.

Á undanförnum árum hefur Orkuveitan verið áberandi í samkeppni við einkafyrirtæki og í raun gefið af sér þá mynd að verulegur afgangur sé af daglegum rekstri. Þennan afgang hefur stjórnin nýtt til gæluverkefna, hvort sem það var í risarækjueldi eða útrásarverkefnum. Aldrei virðist hafa verið uppi á borðinu að lækka gjöld á notendur enda hafa einokunaraðstæður tryggt að valkostir neytenda eru takmarkaðir og varla vilja starfsmenn eða stjórnendur minnka tekjustreymi sitt að óþörfu.

Tap Orkuveitunnar á síðasta ári upp á 73 milljarða vekja upp margar spurningar um rekstur fyrirtækisins og þann ramma sem það hefur sett sér. Tekjur í krónum og fjármögnun í gjaldeyri bendir til þess að stjórnin hafi veðjað á krónuna og tapað stórt. Því er líklegt að ef gengi krónunnar gefur enn meira eftir er stutt í að eigin fé Orkuveitunnar þurrkist út, en það stóð í um 48 milljörðum í ársuppgjöri fyrir 2008. En eins og áður hefur komið fram er Orkuveitan opinbert fyrirtæki sem notar ábyrgð borgarinnar óspart í fjármögnun sinni – ábyrgð sem Orkuveitan gæti vel þurft á að halda á næstu misserum.

Því er eðlilegt að íbúar sveitarfélaganna sem eiga Orkuveituna njóti ávaxta opinberrar ábyrgðar, ef ekki í lægra veitugjöldum þá í arðgreiðslum, ekki síst þar sem þeim er ætlað að taka skellinn ef illa fer.

Enginn þarf að efast um að eigendur Orkuveitunnar sem eru í raun allir Reykvíkingar þurfa nauðsynlega að fá rentur af fjárfestingum sínum. Víða kreppir skóinn að og fyrir liggur að draga verður verulega saman í opinberri þjónustu með tilheyrandi launalækkunum og þjónustuskerðingu. Orkuveitan er sem hluti af opinberri þjónustu er ekki undanskilin því og svo lengi sem langtímahagsmunir fyrirtækisins eru tryggðir er eðlilegt að fjármunir séu greiddir þaðan til að létta undir með sveitarfélögunum. Auðvitað á Orkuveitan að standa við gerða samninga en í þessu tilfelli er eðlilegt að gert sé samkomulag við starfsmenn um niðurskurð og litið á málið í stærra samhengi.

Auðvelt er að réttlæta arðgreiðslurnar þegar þær eru hugsaðar fyrir almenningsþjónustu, ekki síst þegar niðurskurður blasir við allsstaðar í velferðarkerfinu. En grunnhugmyndin er samt sú að eigendur eiga að hafa frelsi til að stýra sínum fyrirtækjum eins og þeir vilja svo lengi sem sá rekstur samræmist lögum og heiðarlegum viðskipaháttum. Það gleymist oft í þessari umræðu að fjárfestingar einstaklinga er forsenda þess að á Íslandi sé blómlegt atvinnulíf og án þeirra verður mjög erfitt að sporna við atvinnuleysi. Þeir sem hafa fjármuni sem geta nýst til atvinnusköpunar hafa úr ýmsum valkostum að velja og því miður hallar verulega á fjárfestingar í atvinnulífinu eins og sakir standa, ekki síst vegna kæfandi samkeppni frá ríkinu á öllum sviðum, takmarkaðri fyrirgreiðslu úr bönkunum ásamt himinháum vöxtum sem íslensk fyrirtæki berjast við á degi hverjum.

Allar tilraunir til að koma í veg fyrir að eigendur fyrirtækja geti ráðstafað eign sinni eins og þeim hentar virka letjandi á þá sem hætta fjármagni sínu í íslensku atvinnulífi og gerir þar með aðra fjárfestingakosti vænlegri. Þannig geta aðgerðir starfsmanna til að koma í veg fyrir arðgreiðslur eða hefta eigendur með öðrum hætti orðið til þess að auka atvinnuleysi sem vinnur beint gegn markmiðum um hærri laun þegar fram líða stundir.

Þeir sem ættu í raun að vera óhressir með þá tilhögun að greiddur sé út arður til hluthafanna eru lánadrottnarnir. Greiðsla á arði minnkar líkurnar á því að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar og veikir stöðu þess í framtíðinni. En í tilfelli Orkuveitu Reykjavíkur treysta þeir því að sveitarfélögin komi fyrirtækinu til bjargar ef illa fer sem er þrátt fyrir allt mergur málsins og meðal annars ástæða þess Reykvíkingar gera ríka kröfu um arðgreiðslur.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.