Hvernig sykurskattur verður óþarfur

Í síðasta pistli mínum lofaði ég hugmyndir Ögmundar Jónassonar um sykurskatt í hástert. Þær eru skref í þá átt að gera einstaklinginn fjárhagslega ábyrgan fyrir heilsu sinni – að því gefnu að fé skattgreiðenda sé notað til að greiða niður heilbrigðisþjónustu. Best af öllu væri þó ef einstaklingurinn tæki enn meiri þátt í að greiða heilbrigðiskostnað sinn og axlaði þar með fulla fjárhagslega ábyrgð á lifnaðarháttum sínum. En er hægt að útbúa slíkt greiðslukerfi án þess að gefa upp á bátinn fullkomið og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu?

Í síðasta pistli mínum lofaði ég hugmyndir Ögmundar Jónassonar um sykurskatt í hástert. Þær eru skref í þá átt að gera einstaklinginn fjárhagslega ábyrgan fyrir heilsu sinni – að því gefnu að fé skattgreiðenda sé notað til að greiða niður heilbrigðisþjónustu. Best af öllu væri þó ef einstaklingurinn tæki enn meiri þátt í að greiða heilbrigðiskostnað sinn og axlaði þar með fulla fjárhagslega ábyrgð á lifnaðarháttum sínum. En er hægt að útbúa slíkt greiðslukerfi án þess að gefa upp á bátinn fullkomið og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu?

Í stuttu máli er það hægt, og það sem meira er – það hefur þegar verið gert. Í allri umræðu um mismunandi kostnaðardreifingu í heilbrigðisþjónustu er áherslan yfirleitt á tvær meginleiðir; ríkið greiði þjónustuna með skattheimtu eða þá að einkarekin tryggingafélög greiði hana. Ýmsar útfærslur á þessum tveimur leiðum hafa síðan litið dagsins ljós, til dæmis með skyldutryggingum og öðru.

Vandinn er sá sami, hvor leiðin sem farin er. Einstaklingnum er sífellt gefið tækifæri á að velta kostnaði á aðra. Brotalamirnar við slíkt kerfi eru slæmar þegar hið opinbera er greiðandinn, og enn verri þegar einkarekin tryggingafélög borga brúsann.†

Ekki nóg með að einstaklingurinn sleppi við að bera kostnaðinn af óheilsusamlegu líferni, heldur velur stöðugt einhver annar úrræði fyrir hann; ýmist opinberir starfsmenn eða tryggingastofnanir. Kerfið getur því orðið hræðilega óskilvirkt og sóun á aðföngum mikil ef annarleg sjónarmið ráða vali þjónustunnar sem hverjum sjúklingi er veitt.

Þessi vandamál yrðu þó leyst með þriðju greiðsluleiðinni; að láta sjúklinginn sjálfan greiða fyrir þjónustuna að sem allra mestu leyti. Nú dettur eflaust einhverjum í hug að sú leið sé ófær nema almennu aðgengi að heilbrigðiskerfinu sé um leið fórnað. Það þarf hins vegar alls ekki að vera, líkt og heilbrigðiskerfið í Singapúr vitnar um.

Þar eru hvorki almannatryggingar né einkatryggingar í hefðbundnum skilningi, heldur er þegnum landsins skylt að leggja ákveðinn hluta launa sinna inn á sparnaðarreikning sem ber háa vexti, en tekjuskattur er lækkaður til móts við skyldusparnaðinn. Lágtekjufólk og langveikir fá framlag frá ríkinu á móti eigin sparnaði til að jafna stöðu þeirra. Þessi sparnaðarreikningur er síðan í raun heilsutryggingasjóður sem einstaklingurinn á fyrir sig einan.

Fæstir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda á yngri árum og eiga því dálaglegan sjóð strax og kemur á fimmtugsaldurinn. Í flestum tilfellum dugir hann til, því fæstir sjúkrareikningar eru neitt sérstaklega háir. Þá sjúkrareikninga sem hinsvegar eru óviðráðanlegir er annaðhvort hægt að greiða úr ríkissjóði eða dekka með því að leyfa einkaaðilum að veita hörmungatryggingu (e. catastrophe insurance). Slík trygging yrði ódýr þar eð fæstir myndu þurfa á henni að halda.

Þeir sem eru stálslegnir þegar kemur á eftirlaunaaldurinn og hafa lítið þurft að ganga á sjóðinn sinn geta breytt umframsparnaðinum í viðbótarlífeyri. Ef einstaklingurinn andast án þess að hafa tæmt sjóðinn gengur hann í erfðir.

Með singapúrsku leiðinni tryggjum við skilvirka gæðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Við færum fjárhagslega ábyrgð á lifnaðarháttum einstaklingsins að stærstum hluta í hans hendur svo stórdregur úr mikilvægi syndaskatta. Það verður einstaklingnum sjálfum í hag að kynna sér mismunandi úrræði og velja alltaf ódýrustu meðferðina sem dugar honum svo sóun í heilbrigðiskerfinu snarminnkar. Bæði hið opinbera og einkaaðilar veita heilbrigðisþjónustuna svo verð og gæði hennar temprast í báðar áttir. Þá er ekki minnst á umsýslukostnaðinn sem sparast og innspýtinguna sem bankarnir fengju í formi innlána.

Það sýnir sig á heilbrigðiskerfinu í Singapúr hversu mikill sparnaður af greiðsludreifingu sem þessari er. Þrátt fyrir að skora hátt á flestum gæðavísum og tryggja einhverjar bestu lífslíkur á byggðu bóli kostar heilbrigðiskerfið þar innan við 4 prósent landsframleiðslu. Kostnaðarhlutfall íslenska heilbrigðiskerfisins af landsframleiðslu er meira en tvöfalt hærra.

Ef Ögmundur Jónasson vill lifa sem hetja í sögubókunum ætti hann að skoða alvarlega að taka upp singapúrsku leiðina.

† Gott dæmi um slíkt er heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum þar sem markaðsbrestir á tryggingamarkaði valda því að fjölmargir eru tryggingalausir, tryggingar eru dýrar og sóun kerfisins er mikil. Kostnaðarhlutfall heilbrigðiskerfisins af landsframleiðslu er um 15% – þrefalt á við Singapúr og helmingi meira en Ísland. Þó hafa ekki nærri því allir aðgang að gæðaheilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)