Um hvað er kosið?

Það er margt í fortíðinni sem hægt er að gagnrýna, en fyrir liggur að á laugardaginn verður kosið um framtíðina. Um hvernig við leysum þau vandamál sem við okkur blasa. Valkostirnir eru skýrir og flokkarnir hafa ólíka stefnu um hvernig hátta skuli málum á Íslandi og hvaða aðferðafræði skuli beitt til þess að ná okkur upp úr þessari kreppu á sem skemmstum tíma.

Það er margt í fortíðinni sem hægt er að gagnrýna, en fyrir liggur að á laugardaginn verður kosið um framtíðina. Um hvernig við leysum þau vandamál sem við okkur blasa. Valkostirnir eru skýrir og flokkarnir hafa ólíka stefnu um hvernig hátta skuli málum á Íslandi og hvaða aðferðafræði skuli beitt til þess að ná okkur upp úr þessari kreppu á sem skemmstum tíma.

Það er nauðsynlegt að við komumst hratt og vel út úr kreppunni. Íslendingar mega aldrei sætta sig við að hér ríki atvinnuleysi. Við verðum að snúa vörn í sókn. Núverandi ástand er einstaklingum og fyrirtækjum mjög erfitt. Fyrir liggur að við munum ekki skattleggja okkur út úr kreppunni, né mun aðild að Evrópusambandinu bæta stöðu okkar hér. Staða ríkissjóðs er bág, atvinnuleysi mikið og krónan nýtur ekki trausts á alþjóðlegum mörkuðum.

Leiðin út úr kreppunni er aukin verðmætasköpun og niðurskurður ríkisútgjalda
Leiðin út er aukin verðmætasköpun og niðurskurður ríkisútgjalda. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að skapa fyrirtækjum lífænleg rekstrarskilyrði þannig að þau geti blómstrað og heimilin þar með. Fyrirtækin eru ekkert án fólksins sem þar starfar og því verður ekki skilið á milli hagsmuna heimilanna og atvinnulífsins. Við endurreisn atvinnulífsins þarf að tryggja að starfsemi þess sé gagnsæ hvað varðar eignarhald og jafnframt þarf að stuðla að því að þau séu samfélagslega ábyrg. Þannig getur atvinnulífið áunnið sér traust á ný. Vinstri flokkarnir hafa boðað félagslegt eignarhald á fyrirtækjunum – sem þýðir að þau fyrirtæki sem hafa verið tekin yfir af ríkinu munu áfram vera í eigu ríkisins. Þessi veruleiki blasir nú þegar við okkur en ríkið á nú t.d. ritfangaverslun, bílasölu, banka ofl. fyrirtæki. Er atvinnulíf ríkisins það sem við ætlum okkur að treysta á? Ölfug nýsköpun er forsenda hagvaxtar. Skattahagræðing í þágu sprotafyrirtækja og breytt starfsumhverfi þeirra með mótframlagssjóðum er sú leið sem sjálfstæðismenn vilja fara.

Einkarekið atvinnulíf
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að einkavæða þau fyrirtæki sem nú hafa verið ríkisvædd og tryggja samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem staðið hafa af sér storminn þannig að þau verði ekki keyrð í kaf af ríkisstyrktum fyrirtækjum. Lækkun stýrivaxta er forsenda þess að hér geti atvinnulíf dafnað eðlilega. Upptaka Evru er kostur sem taka verður til alvarlegrar skoðunar, en höft á gjaldeyrinn eru tímabundin lausn sem ekki er til þess fallin að auka trúverðugleika krónunnar sem framtíðargjaldmiðils. Vandinn verður ekki einungis leystur með endurreisn íslensks atvinnulífs, heldur horfum við fram á þannig tíma að jafnframt er nauðsynlegt að hagræða í ríkisrekstrinum og skera allverulega niður útgjöld til þess að brúa bilið í fjárlögunum. Þar eru utanríkismálin ofarlega á baugi, sameining atvinnuvegaráðuneyta, sameining stofnanna ríkisins sem eru á annað hundruð talsins og skýr forgangsröðun verkefna innan hvers málaflokks fyrir sig. Hækkun listamannalauna og fjármögnun menningarseturs og fiskeldis er ekki vænlegt til árangurs í þeim málum, svo ekki sé minnst á kosningarvíxil félagsmálaráðherra í dag upp á einn milljarð króna.

Er skattlagning lausnin?
Við munum ekki skattleggja okkur út úr kreppunni – það liggur fyrir. Þær skattahækkanir og launalækkanir sem vinstri flokkarnir hafa boðað eru til þess fallnar að draga þrótt úr einstaklingum og fyrirtækjum. Þessi leið er skammtímalausn sem hefur letjandi áhrif á þjóðfélagið í heild. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar öllum nýjum sköttum. Leiðin til þess að auka skatttekjur ríkisins og þar með standa undir velferðarkerfinu er að breikka skattgrunninn með endurreisn íslenskra fyrirtækja.

Þau eru mörg málin sem skilja á milli flokkanna í þessum kosningum, enda tekist á um grundvallarhugmyndafræði þeirra um hvernig sé best að beita ríkisvaldinu í þágu fólksins. Með einföldum hætti mætti segja að valið stæði á milli eftirfarandi kosta – hvort viljum við:

• Hafa fyrirtækin í landinu einkarekin eða ríkisrekin
• Háa skatta eða lága skatta
• Einfalt og gagnsætt skattkerfi eða margþætt og flókið skattkerfi með millitekju, eigna og hátekjusköttum
• Leysa halla ríkissjóðs með skattahækkunum eða niðurskurði á útgjöldum og endurreisn íslensks atvinnulífs
• Búa í frjálsu og opnu samfélagi eða hafta samfélagi þar sem samfélaginu stýrt með boðum og bönnum stjórnmálamanna

Það er kosið um framtíðina, um hvaða leið sé farsælust til þess að koma Íslendingum út úr kreppunni. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að íþyngja landsmönnum með frekari byrðum heldur skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið þannig að fjölskyldurnar í landinu og fyrirtækin blómstri. Ríkisvaldið mun ekki endurreisa Ísland, það munu Íslendingar gera.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.