Djúp vinstrisveifla yfirvofandi í höfuðborginni

Vinstrisveiflan sem skoðananakannanir benda til að verði á fylgi flokkanna í komandi kosnignum verður sennilega hvergi jafn djúp og í höfuðborginni. Sjálfstæðisflokkurinn býr sig undir mikið fylgistap í þessu forna höfuðvígi og framsóknarmenn heyja lífsbaráttu með formanninn að veði. Nýtt framboð gæti komið að manni í Reykjavík.

Vinstrisveiflan sem skoðananakannanir benda til að verði á fylgi flokkanna í komandi kosnignum verður sennilega hvergi jafn djúp og í höfuðborginni. Sjálfstæðisflokkurinn býr sig undir mikið fylgistap í þessu forna höfuðvígi og framsóknarmenn heyja lífsbaráttu með formanninn að veði. Nýtt framboð gæti komið að manni í Reykjavík.

Allt útlit er fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn bíði sögulegt afhroð í Reykjavík í komandi alþingiskosningum. Samkvæmt nýjustu könnunum gæti svo farið að flokkurinn missti tæplega helming þingmanna sinna og fengi einungis fimm menn kjörna í báðum Reykjavíkurkjördæmunum til samans. Í kosningunum 2003 varð flokkurinn fyrir því áfalli að fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður var Össur Skarphéðinsson en Davíð Oddsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, var 2. þingmaður kjördæmisins. Það var í fyrsta sinn síðan 1983 að formaður Sjálfstæðisflokksins var ekki 1. þingmaður síns kjördæmisins. Í kosningunum 2007 endurheimti Sjálfstæðisflokkurinn forystuhlutverk sitt í Reykjavíkurkjördæmi norður þegar Guðlaugur Þór Þórðarson varð 1. þingmaður kjördæmisins. Fékk Sjálfstæðisflokkurinn þá 36,4% atkvæða í Reykjavík norður en 39,2% í Reykjavík suður, þar sem Geir H. Haarde, þáverandi formaður og forsætisráðherra, leiddi flokkinn.

Fimm þingmenn komu í hlut flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, auk Geirs, en það voru þá Illugi Gunnarsson, Björn Bjarnason, Ásta Möller og Birgir Ármannsson. Að þeim síðastnefnda frátöldum er enginn þessara í framboði nú í Reykjavík suður. Illugi og Ásta eru í framboði í Reykjavík norður en Geir og Björn gefa ekki kost á sér sem kunnugt er. Guðlaugur Þór leiðir nú listann í Reykjavík suður, Ólöf Nordal skipar 2. sætið og Birgir það þriðja. Erla Ósk Ásgeirsdóttir skipar fjörða sætið, sem er baráttusæti flokksins í þessu kjördæmi en Sigríður Á. Andersen á litla möguleika á kjöri í fimma sætinu.

Í Reykjavík norður voru þau Guðlaugur Þór, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Pétur H. Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2007. Guðfinna gefur ekki kost á sér og Guðlaugur fer nú fram í Reykjavík suður. Illugi leiðir listann í norðurkjördæminu, Pétur er í 2. sæti og Sigurður Kári í því þriðja. Kannanir benda til þess að þriðja sæti listans sé baráttusætið og því gætu möguleikar Ástu Möller í 4. sæti á því að komast á þing verið harla litlir. Yrði það í annað skiptið sem Ásta þarf að sæta því að komast ekki á þing á meðan frambjóðandi sem hafnar fyrir neðan hana í prófkjöri kæmist inn. Árið 2003 gerðist það að Ásta Möller hafnaði í 9. sæti í prófkjöri flokksins en Birgir Ármansson í því tíunda. Ásta raðaðist á lista með Davíð í norðurkjördæminu þar sem fjórir sjálfstæðismenn náðu inn en Birgir var á lista með Geir í suðurkjördæminu þar sem fimm náðu kjöri. Nú gæti sama staða komið upp með Ástu og Erlu Ósk, ef marka má skoðanakannanir.

Ljóst er að mikið þarf að gerast til að Samfylkingin nái ekki að sigra í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Jóhanna Sigurðardóttir leiðir lista flokksins í Reykjavík norður, þar sem flokkurinn hefur haft sterkari stöðu, og á eftir henni koma þau Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Mörður Árnason. Stjórnmálaskýrandinn Baldur Þórhallsson skipar svo sjötta sætið en fjölmiðlar hafa mikið leitað til hans á síðustu árum til að túlka og skýra stöðu manna og málefna innan stjórnamálaflokkanna. Margt bendir til að Mörður eigi möguleika á þingsæti og yrðu það óneitanleg góð úrslit ef Samfylkingin næði fimm mönnum inn í norðurkjördæminu.

Í Reykjavík suður leiðir Össur Skarphéðinsson lista Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem vann stórsigur í prófkjörinu, er í öðru sæti og Skúli Helgason í því þriðja. Kannanir benda til þess að fjórða sætið verði baráttusætið hjá Samfylkingunni í þessu kjördæmi en það skipar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra, sem hlaut slæma útreið í prófkjöri flokksins. Baráttusæti Samfylkingarinnar í Reykjavík eru því skipuð þeim Merði Árnasyni og Ástu Ragnheiði. Af þeim tíu frambjóðendum sem skipa efstu 5 sætin í báðum Reykjavíkurkjördæmunum hjá Samfylkingunni eru aðeins tveir sem ekki hafa setið á þingi áður. Samfylkingin fékk 29% fylgi í Reykjavík suður árið 2007 og 29,2% í Reykjavík norður. Búast má við talsverðri fylgisaukningu flokksins, jafnvel upp á 7-10 prósentustig.

Vinstrigrænir eru í mikilli sókn í Reykjavík, eins og annars staðar en VG er eini flokkurinn þar sem ekki er mælanlegur munur á fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Í kosningunum 2007 náðu þær Kolbrún Halldórsdóttir og Álfheiður Ingadóttir kjöri í Reykjavík suður og þau Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson í Reykjavík norður. Fékk VG 14,4% fylgi í Reykjavík suður árið 2007 en tæplega 17% í Reykjavík norður. Búast má við að fylgi flokksins verði yfir 20% í höfuðborginni nú, jafnvel svipað og fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Engin breyting hefur orðið á tveimur efstu sætunum í Reykjavík norður þar sem þau Katrín og Árni sitja en á eftir þeim kemur nú Álfheiður Ingadóttir sem hlaut ekki það brautargengi í prófkjöri flokksins sem hún hafði vonast eftir. Auður Lilja Erlingsdóttir er í 4. sæti en telja verður að hennar möguleikar séu litlir. Álfheiður Ingadóttir skipar því baráttusæti VG í Reykjavík norður.

Svandís Svavarsdóttir leiðir lista VG í Reykjavík suður en hún er dóttir Svavars Gestssonar, félaga Steingríms J. Sigfússonar úr síðustu vinstristjórn sem hér sat. Lilja Mósesdóttir kemur einnig ný inná lista í 2. sætinu en Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, reið ekki feitum hesti frá prófkjöri flokksins og mátti sætta sig við þriðja sætið í Reykjavík suður. Það sæti er þó sennilega baráttusæti VG í kjördæminu.

Síðasti fjórflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, á mjög erfitt uppdráttar í höfuðborginni. Alls óvíst er hvort nýkjörinn formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nái þar kjöri, en hann skipar 1. sæti listans í Reykjavík norður. Ásta Rut Jónasdóttir, sem skipar 2. sætið á eftir Sigmundi, á enga möguleika á kjöri. Þá á Vigdís Hauksdóttir, sem rekinn var úr starfi hjá ASÍ fyrir að vera í framboði, var sennilega ekki að mikið að hugsa um starfsöryggi þegar hún gaf kost á sér til framboðs, því möguleikar hennar á kjöri eru harla litlar. Í raun má segja að möguleikar Framsóknar á því að ná inn manni í Reykjavík ráðist úti á landi, og þá kæmist hugsanlega einn þingmaður flokksins inn í Reykjavík sem uppbótarþingmaður.

Möguleikar nýju framboðanna eru líklega mestir í höfuðborginni. Kjördæmakjörinn maður þar myndi auk þess hugsanlega taka með sér uppbótarmann eða -menn úr öðrum kjördæmum. Borgarahreyfingin hefur verið að eflast ef marka má kannanir síðustu daga og ekki er loku fyrir það skotið að hún næði inn manni í Reykjavík. Þráinn Bertelsson eða Birgitta Jónsdóttir gætu þannig náð inn í Reykjavík.

Litlar líkur eru hins vegar á því að Frjálslyndir nái inn manni og verður Sturla Jónsson, vörubílsstjóri, sem er í framboði fyrir flokkinn í höfuðborginni, því að láta sér áfram nægja að þeyta lúðra á Austurvelli í stað þess að básúna innandyra.

Spá Deiglunnar um þingmenn Reykjavíkur að loknum kosningum:

Reykjavík norður:

B-listi: 1
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

D-listi: 3
Illugi Gunnarsson
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson

S-listi: 4
Jóhanna Sigurðardóttir
Helgi Hjörvar
Valgerður Bjarnadóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir

V-listi: 3
Katrín Jakobsdóttir
Árni Þór Sigurðsson
Álfheiður Ingadóttir

Reykjavík suður:

D-listi: 4
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ólöf Nordal
Birgir Ármansson
Erla Ósk Ásgeirsdóttir

S-listi: 4
Össur Skarphéðinsson
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Skúli Helgason
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

V-listi: 3
Svandís Svavarsdóttir
Lilja Mósesdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir