Að þykjast gefa þeim fátæku, en gefa í raun þeim ríku

Ókeypis peningar eru alltaf freistandi, og það sama á við um skuldaaflausnina sem Tryggvi Þór Herbertsson boðar þessa dagana. Það er skiljanlegt að þau 1-2% landsmanna sem skulda yfir 50 milljónir króna hugsi sér gott til glóðarinnar. En hvers vegna skyldu venjuleg heimili vera hrifin af hugmyndinni? Sennilegasta skýringin er sú að almenningur átti sig ekki á því að 20% flöt skuldaafskrift er umfangsmikil eignatilfærsla frá venjulegu fólki til efnaðra stórskuldara.

Ókeypis peningar eru alltaf freistandi, og það sama á við um skuldaaflausnina sem Tryggvi Þór Herbertsson boðar þessa dagana. Það er skiljanlegt að þau 1-2% landsmanna sem skulda yfir 50 milljónir króna hugsi sér gott til glóðarinnar. En hvers vegna skyldu venjuleg heimili vera hrifin af hugmyndinni? Sennilegasta skýringin er sú að almenningur átti sig ekki á því að 20% flöt skuldaafskrift er umfangsmikil tekjutilfærsla frá venjulegu fólki til efnaðra stórskuldara. Því það er nefnilega svo að þeir sem skulda mest eru í mörgum tilfellum þeir sömu og eiga mest.

Önnur skýring gæti auðvitað verið sú að hugmyndin borgi í raun fyrir sig sjálf eins og Tryggvi hefur gefið í skyn. Enn heldur hann því fram að ekki hafi komið fram málefnaleg rök gegn hugmyndinni, og hann virðist á því að meginþorri íslenskra hagfræðinga skilji hvorki upp né niður í hvað felst í henni, en það myndi allt breytast ef hann fengi að setjast niður með þeim í einrúmi.

Bæði Tryggvi og Sigmundur Davíð á undan honum hafa kvartað undan háði og spotti og því að hugmyndinni hafi verið hafnað af núverandi ríkisstjórn án raka. Þá halda þeir því fram að aðrar og skárri leiðir hafi ekki komið fram. Hvorugt stenst nánari skoðun. Þá hafa báðir bent á hugmyndir í Bandaríkjunum um lækkun höfuðstóls húsnæðislána og sagt það renna stoðum undir svipaðar aðgerðir á Íslandi. Slík röksemdafærsla stenst heldur ekki.

Í því verkefni sem framundan er hjá ríkisstjórn Íslands, að halda atvinnulífinu gangandi og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og þjáningar heimila, er lykilatriði að hámarka árangur sem næst af hverri krónu sem ríkið setur í verkefnið. Tryggvi hefur meðal annars bent á að í núverandi stöðu megi menn ekki einblína um of á hvort svona aðgerðir eru sanngjarnar eða ekki, það sé betra að einhverjir græði meira en aðrir frekar en að allir tapi. Sú afstaða getur í ákveðnum tilfellum átt rétt á sér. En þegar ríkið útdeilir fjármunum verður að hafa sanngirni í huga nema útdeilingin sé þeim mun skilvirkari í að auka hag heildarinnar. Þeir sem eiga mikið búa oft í stórum húsum sem, þrátt fyrir ríkidæmi eigenda sinna, hafa miklar skuldir áhvílandi. Það að fella niður skuldir flatt hyglir þeim ríku á kostnað hinna fátæku. Það sem mikilvægara er, þær krónur sem fara úr grunnum vasa ríkisins í vasa þeirra sem geta staðið undir sínum skuldum nýtast ekki við að koma í veg fyrir gjaldþrot og aðrar þarfar efnahagsaðgerðir.

Þá er það líka galli við hreina niðurfellingu skulda að meginkostnaðurinn felst ekki í að lækka greiðslubyrði fólks nú á næstu árum þegar sverfir að, heldur þegar farið verður að rofa til og flestir geta staðið í skilum. Krónum sem er varið til þess að lækka langtímagreiðslubyrði fólks væri betur varið núna til að koma þjóðinni upp úr þeirri lægð sem við erum í.

Tryggvi Þór hefur á heimasíðu sinni bent á grein um höfuðstólslækkun húsnæðislána í Bandaríkjunum sem „gömlu kennarar viðskiptaráðherra í Yale“ skrifuðu. Tryggvi virðist vísa í greinina til að gefa í skyn að viðskiptaráðherra ætti bara að hlusta á lærifeður sína, og þá myndi hann snúast á sveif með Tryggva. En í greininni er hvergi fjallað um flata afskrift allra skulda. Þvert á móti er lagt til að höfuðstóll ákveðinna lána sé skrifaður niður – og þá nákvæmlega þeirra lána sem minnstar líkur eru á að innheimtist. Þetta er einmitt það sem Gylfi Magnússon hefur lagt til – bæði áður og eftir að hann tók við ráðherraembættinu. Og þetta er sú leið sem farin er með greiðsluaðlögunarfrumvörpum þeim sem nú eru til umfjöllunar í þinginu. Það er í raun óskiljanlegt að Tryggvi vitni til þessarar greinar sem rökstuðnings fyrir tillögum sínum.

Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar um greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun miðast nákvæmlega að því lækka greiðslubyrði fólks. Þessari leið hefur helst verið fundið til foráttu að það séu ekki nógu margir þjónustufulltrúar til að taka á málum hvers og eins. Þótt afkastageta þjónustufulltrúa skipti máli þá mætti ráða ansi marga slíka án þess að kostnaðurinn kæmist með tærnar þar sem 20% leiðin hefur hælana.

Önnur leið, sem ekki þarfnast marga þjónustufulltrúa, er sú sem Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson hafa lagt til, miðar að því að tekjutengja greiðslubyrðina fyrir þá sem ráða ekki við núverandi greiðslubyrði. Fjöldamargar aðrar leiðir hafa verið ræddar, bæði leiðir sem byggja á dreifingu greiðslna og leiðir sem beinast sérstaklega að þeim sem búa við neikvæða eiginfjárstöðu og/eða atvinnuleysi. En enga leið hef ég séð sem er í senn jafndýr og jafnómarkviss og 20% skuldaaflausnin. Töfralausn Tryggva er tálsýn.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)