Bankaleynd

Bankaleynd hefur þann tilgang að koma í veg fyrir að upplýsingar um einkamálefni aðila séu borin á torg. Bankaleynd er hins vegar hvorki ætlað að koma í veg fyrir eftirlit á fjármálamarkaði né vera skálkaskjól fyrir lögbrjóta. Íslensk lög gera beinlínis ráð fyrir því að til þess bærir aðilar hafi greiðan aðgang að öllum upplýsingum banka sem þeim er nauðsynlegt að hafa til að meta áhættu þeirra og umsvif. Þá geyma íslensk lög fjölmörg ákvæði sem tryggja rannsóknaraðilum aðgang að nauðsynlegum gögnum ef grunur leikur á um refsiverða háttsemi. Séu rannsóknarúrræði ekki fullnægjandi er sjálfsagt að bæta úr því.

Bankaleynd hefur þann tilgang að koma í veg fyrir að upplýsingar um einkamálefni aðila séu borin á torg. Bankaleynd er hins vegar hvorki ætlað að koma í veg fyrir eftirlit á fjármálamarkaði né vera skálkaskjól fyrir lögbrjóta. Íslensk lög gera beinlínis ráð fyrir því að til þess bærir aðilar hafi greiðan aðgang að öllum upplýsingum banka sem þeim er nauðsynlegt að hafa til að meta áhættu þeirra og umsvif. Þá geyma íslensk lög fjölmörg ákvæði sem tryggja rannsóknaraðilum aðgang að nauðsynlegum gögnum ef grunur leikur á um refsiverða háttsemi. Séu rannsóknarúrræði ekki fullnægjandi er sjálfsagt að bæta úr því.

Bankaleynd er lögfest með 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 undir fyrirsögninni þagnarskylda. Ákvæðið á sér stoð í 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem staðfest eru mannréttindi um friðhelgi einkalífs. Í 1. mgr. 58. gr. laganna um fjármálafyrirtæki segir að þeir aðilar sem vinna fyrir fjármálafyrirtæki séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við störf sín og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækisins, nema skylt sé að veita upplýsingarnar samkvæmt lögum. Þá segir að þagnarskyldan haldist eftir að viðkomandi starfsmaður lætur af störfum. Í 2. mgr. 58. gr. segir að „sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna“.

Þarna kemur fram sú meginregla að trúnaðarskyldan fylgir þeim upplýsingum sem háðar eru þagnarskyldu. Af því leiðir að jafnvel þótt upplýsingum hafi verið miðlað í trássi við ákvæði laganna, þá gildir enn trúnaðarskylda á þeim sem hefur upplýsingarnar undir höndum. Sé slíkum upplýsingum til að mynda miðlað til fjölmiðils væri þeim fjölmiðli óheimilt að birta upplýsingarnar án samþykkis þeirra aðila sem eiga í hlut. Brot, eða hlutdeild í broti, á reglum um bankaleynd er refsiverð.

Athygli vekur að ákvæði 58. gr. gerir beinlínis ráð fyrir því að heimilt sé að miðla upplýsingum sem þagnarskylda nær til þegar heimild er veitt til þess samkvæmt lögum til varnar ákveðnum hagsmunum. Dæmi um slíkt ákvæði er til dæmis að finna í 94. gr. tekjuskattslaga sem gerir ráð fyrir að skattyfirvöld hafi aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum sem gætu nýst við skattlagningu, eftirlit eða rannsókn. Hæstiréttur hefur lagt skýrar línur um hvernig túlka beri ákvæði er veita stjórnvöldum aðgang að gögnum háðum bankaleynd. Lög um meðferð sakamála gera einnig ráð fyrir að rannsóknarhagsmunir sakamála réttlæti fullan aðgang að gögnum sem annars njóta þagnarskyldu. Þess vegna er bankaleynd ekki um að kenna ef sérstakur saksóknari hefur ekki nægan aðgang að gögnum, en nauðsynlegt er að bæta aðgang embættisins að gögnum með lagabreytingu.

Í opinberri umræðu um málefni bankanna að undanförnu hefur oft verið haldið fram þeirri „réttmætu“ kröfu almennings að vita um umsvif einstakra viðskiptavina bankanna. Þannig sé það fullkomlega eðlilegur hlutur að listar um stærstu útlán banka birtist á síðum dagblaða þar sem einstaka viðskiptamenn eru tilgreindir með nafni auk fjárhæða trygginga eða annarra ábyrgða. Á sama tíma er því haldið fram að bankaleynd sé of mikil og fráleitt sé að hún nái til ákveðinna viðskiptamanna. Á þessu tvennu er hins vegar reginmunur. Hið fyrra er skýlaust brot á 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Hið síðara er hins vegar fullkomlega rétt, enda er sú skylda lögð á herðar bankastofnana að gera fjármálaeftirlitinu reglulega og ítarlega grein fyrir fyrirgreiðslu til eigenda sinna og annarra tengdra og venslaðra aðila, stórum áhættuskuldbindingum, undirliggjandi tryggingum, áætluðu mati þeirra o.m.fl. Ef óeðlileg fyrirgreiðsla við eigendur hefur átt sér stað munu þau gögn nýtast til rannsóknar á þeirri fyrirgreiðslu.

Bankaleynd lýtur að stjórnarskrárvörðum mannréttindum sem eru lögfest í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Margvíslegar lagaheimildir heimila hins vegar að fjárhagsmálefnum viðskiptavina banka sé miðlað til aðila utan bankastofnana vegna mikilvægra rannsóknar- eða eftirlitshagsmuna. Ekkert er því til fyrirstöðu að löggjafinn fjölgi þeim ákvæðum sem fela í sér undanþágu frá bankaleynd, sé það gert innan marka stjórnarskrárinnar. Á hinn bóginn er það ekki svo að löggjafinn hafi heimild til þess, að óbreyttri stjórnarskrá, að afnema bankaleynd með öllu. Það er ekki gott veganesti við uppbyggingu íslensks efnahagslífs og samfélags að byrja á því að fórna stjórnarskrárvörðum réttindum eða hafa landslög að engu. Það er einmitt á umrótatímum sem mannréttindi og virðing fyrir lögum eru hvað mikilvægust.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)