Hvers á landsbyggðin að gjalda?

20% skuldaniðurfelling væri líklega umfangsmesta tekjutilfærsla Íslandssögunnar. Einn stór hópur sem myndi tapa væri fólk á landsbyggðinni. Það tók ekki þátt í skuldafylleríinu í nærri jafn miklu mæli og íbúar höfuðborgarsvæðisins. En það myndi þurfa að borga fyrir niðurfellinguna til jafns við aðra í gegnum hærri skatta.

Það hefur vísast ekki farið framhjá neinum að Framsóknarmenn (og nokkrir samherjar þeirra í öðrum flokkum) hafa lagt til að 20% af skuldum heimila og fyrirtækja verði felldar niður. Slík aðgerð væri líklega umfangsmesta tekjutilfærsla Íslandssögunnar. Það er því áhugavert að velta fyrir sér hverjir myndu hagnast og hverjir tapa.

Einn stór hópur sem myndi klárlega tapa eru þeir sem búa á landsbyggðinni. Húsnæðisverð hækkaði ekki nærri jafn mikið á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á landsbyggðinni er því ekki nærri eins skuldsett í dag og fólk á höfuðborgarsvæðinu. Það mun því fá mun minna út úr skuldaniðurfellingu en þeir sem búa í Reykjavík. En það mun þurfa að borga fyrir skuldaniðurfellinguna til jafns við þá sem búa í Reykjavík í gegnum skattana sína. Þegar öll kurl væru komin til grafar myndi þessi skuldaniðurfelling fela í sér mikla tekjutilfærslu frá fólki á landsbyggðinni til fólks á höfuðborgarsvæðinu.

Hvers á hásetinn í Vestmannaeyjum eiginlega að gjalda. Fyrst er gengi krónunnar haldið himinháu í mörg ár með slæmum afleiðingum fyrir sjávarútveginn vegna þess að í Reykjavík er hópur af bankamönnum að blása upp fjármálabólu af áður óþekktri stærð sem riður öllu öðru í hagkerfinu til hliðar. Og svo þegar allt hrynur eru skuldir þeirra sem verst létu felldar niður og hásetinn látinn borgar hærri skatta.

Það er afskaplega sérstakt að Framsóknarmenn, sem sækja stærstan hluta af fylgi sínu á landsbyggðina, skuli setja fram tillögur af þessum toga. Landsbyggðarfólk sem hefur hingað til kosið Framsókn ætti að hugleiða hvort flokkurinn hafi brugðist hugsjónum sínum til þess að þókknast skuldugri auðmannaklíku í Reykjavík.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.