Sveitarstjórnir verði virkari í efnahagsstjórn landsins

Mikið hefur verið rætt og ritað að undanförnu um óábyrga fjármálastefnu sveitarfélaganna í góðærinu og er vissulega hægt að taka undir að víða hafi verið gengið of langt en þó ber að varast alhæfingar í því efni. En hver ættu markmið sveitarstjórna þar sem sjálfstæðisstefnan er leiðarljósið að vera?

Sjálfstæðismenn um land allt búa sig nú undir setu á 38. landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem fer fram í næstu viku. Aldrei hefur meira legið við að landsfundarstörf takist vel og flokksmenn hafa unnið hörðum höndum undanfarna mánuði við að smíða drög að ályktunum fundarins. Málefnanefnd um sveitarstjórnar- og skipulagsmál hefur skilað af sér drögum sem nálgast má á www.xd.is

Í drögum nefndarinnar kemur fram að í stefnu Sjálfstæðisflokksins felist að sveitarstjórnir skapi fyrirtækjum samkeppnishæf skilyrði m.a. með vönduðu skipulagi, sveitarfélög einbeiti sér að lögbundnum verkefnum, hafi jafnræði að leiðarljósi og nýti kosti einkamarkaðarins við rekstur fyrirtækja. Það sé í þágu íbúanna að hvert og eitt sveitarfélag sníði sér stakk eftir vexti og að rekstur og fjárfestingar séu í samræmi við tekjur. Þjónusta sveitarfélaga skuli boðin út þar sem kostir einkamarkaðarins nýtist með það að markmiði að lækka skatta.

Þá kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á efnahagslegan styrk og sjálfsforræði sveitarfélaga svo þeim sé unnt að takast á við stærra hlutverk í opinberri stjórnsýslu. Til þess þurfi tekjustofnar sveitarfélaga að vera áreiðanlegir og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga skýr.
Í drögunum kemur fram sú skoðun að sveitarfélögin séu betur til þess fallin en ríkið að sinna einstaklingsbundnum þörfum þar sem helsti styrkleiki þeirra felst í nálægðinni við íbúana. Þessi styrkleiki sveitarfélaganna hefur berlega komið í ljós á undanförnum vikum, þar sem þau hafa skipulagt ýmsar aðgerðir innan velferðarþjónustunnar.

Þá kemur fram að mikilvægt sé að sveitarfélögin í landinu verði virkari í efnahagsstjórn landsins, að sveitarfélögin setji sér fjármálareglur sem takmarki útgjaldavöxt og skuldsetningu milli ára. Lögð er áhersla á aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga enda beri báðir aðilar sameiginlega ábyrgð á efnahagsstjórn landsins.

Þá er lagt til að ákvæði laga um lágmarksútsvar verði afnumið og að farið verði yfir kostnaðarmat þeirra laga sem ekki eru að fullu komin til framkvæmda, með það í huga að fresta gildistöku ákvæða sem leiða til aukins rekstarkostnaðar sveitarfélaga, svo sem ákvæði nýrra grunnskólalaga um auknar menntunarkröfur til kennara. Jafnframt er lagt til að sett verði á stofn velferðarráð ríkis og sveitarfélaga þar sem farið verði yfir alla þætti félagslegrar og fjárhagslegrar aðstoðar á vegum hins opinbera. Markmið Velferðarráðs verði að einfalda og samræma þjónustu á sviði velferðarmála og draga þannig úr kostnaði hins opinbera.

Ljóst er að drögin innihalda ýmis nýmæli og spennandi verður að sjá hvernig ályktunardrögin leggjast í landsfundarfulltrúa.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.