Foreldrajafnrétti tryggt í lögum

Það er grundvallarkrafa að foreldrajafnrétti sé tryggt í lögum, börnum og foreldrum til hagsbóta. Breyta þarf barnalögum á þann hátt að réttarstaða beggja foreldra og barns sé tryggð eftir skilnað. Lagaumhverfið á ekki að gera upp á milli foreldra og mikilvægt skref í að leiðrétta þá stöðu er að dómarar fái heimild til þess að dæma foreldrum sameiginlega forsjá.

Það er grundvallarkrafa að foreldrajafnrétti sé tryggt í lögum, börnum og foreldrum til hagsbóta. Breyta þarf barnalögum á þann hátt að réttarstaða beggja foreldra og barns sé tryggð eftir skilnað. Lagaumhverfið á ekki að gera upp á milli foreldra og mikilvægt skref í að leiðrétta þá stöðu er að dómarar fái heimild til þess að dæma foreldrum sameiginlega forsjá. Það er grundvallaratriði að dómarar hafi þessa lagaheimild, en sú takmörkun að dómarar geti einvörðungu dæmt fulla forsjá er óásættanleg og leiðir af sér að niðurstaða allra forsjármála á Íslandi leiðir alltaf til forsjársviptingar annars foreldrisins. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ekki alltaf besta niðurstaðan fyrir barnið.

Það eru nokkur atriði sem er nauðsynlegt endurskoða þar sem að fjölskyldumynstur hefur breyst verulega og því mikilvægt að lagaumgjörðin taki mið af breyttum aðstæðum. Skoða þarf þá tilhögun sérstaklega að lögheimili barns geti einvörðungu verið á einum stað. Lögheimili barns ætti í raun að geta verið hjá báðum foreldrum kjósi þeir það. Jafnframt væri eðlilegt að meginreglan væri á þann hátt, að ef um sameiginlega forsjá er að ræða skiptist kostnaður vegna umgengni jafnt á milli foreldra nema þau ákveði annað í samningi eða sýslumaður úrskurði annað.

Í dag er ákvörðun um tilfærslu á forsjá barns sjálfvirk til sambúðarmaka eftir 12 mánaða sambúð eða giftingu og því ekki tekin út frá hagsmunum barnsins, heldur afleiðing tiltekinnar skráningar. Forsjá barns á að vera sjálfstæð ákvörðun sem grundvölluð er á hagsmunum barnsins. Þessu tengt þá er mikilvægt að tryggja rétt þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns við andlát forsjárforeldris þannig að forsjá barnsins færist yfir til hins foreldrisins að jafnaði, hvort sem foreldrar fara saman með forsjá barns eða ekki. Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir að stjúpforeldri fái sjálfkrafa forsjána við andlát forsjárforeldris. Einnig þarf að breyta lögum með þeim hætti að telji karlmaður sig föður barns að þá geti hann höfðað barnsfaðernismál þótt barnið sé feðrað.

Það er að mörgu að huga í jafnréttismálunum og mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að horft sé á þau út frá báðum kynjum. Þessi mál sem nefnd hafa verið hér að framan eru ekki tæmandi talning, en ættu að gefa góða mynd af því sem þarf að bæta úr. Jafnræði foreldra verður að vera tryggt í lögum og dómarar verða að hafa úrræði til þess að taka ákvarðanir samkvæmt bestu sannfæringu. Jafnrétti beggja kynja er allra hagur.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.