Ferskt blóð á vígvöllinn

Yfir 40% kjósenda undir þrítugu styðja Vinstri-græna. Sjálfstæðisflokkurinn á að geta betur en tapa fylgi ungra kjósenda til fólks sem lagðist gegn bjórsölu og einkarekstri ljósvakamiðla. Það getur þó varla verið að þær hugsjónir sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um séu að glata vinsældum. Frelsi einstaklingsins til að njóta hæfileika sinna og ná árangri á eigin forsendum er eitthvað sem flestir geta sammælst um að standa vörð um. Hver er þá vandi flokksins?

Yfir 40% kjósenda undir þrítugu styðja Vinstri-græna. Sjálfstæðisflokkurinn á að geta betur en tapa fylgi ungra kjósenda til fólks sem lagðist gegn bjórsölu og einkarekstri ljósvakamiðla. Það getur þó varla verið að þær hugsjónir sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um séu að glata vinsældum. Frelsi einstaklingsins til að njóta hæfileika sinna og ná árangri á eigin forsendum er eitthvað sem flestir geta sammælst um að standa vörð um. Hver er þá vandi flokksins?

Vandi flokksins felst ekki í þeirri hugmyndafræði sem hann hefur staðið fyrir, enda þarf ekki nema að eiga létt spjall við næsta mann til að sjá að flestir eru sammála um grunngildi Sjálfstæðisstefnunnar. Klúðrið er að sjálfstæðismenn hafa undanfarin ár þurft að verja ýmsa gjörninga flokksins sem stangast algjörlega á við stefnu hans. Þar á meðal eru fjölmiðlalögin, umdeildar dómaraskipanir, framkoma við mótmælendur í Falun Gong og stuðningur við Íraksstríðið.

Það er ótrúverðugt þegar orð og verk stjórnmálaflokks fylgjast ekki að. Það er ekki síður ótrúverðugt þegar fólkið sem ber ábyrgð á öllu sem að ofan er nefnt fær áfram að standa í brúnni í okkar umboði. Á meðan flokksmenn sýna ekki vilja til endurnýjunar og breytinga þá verður ungt fólk áfram tortryggið í garð Sjálfstæðisflokksins. Þetta þurfa Sjálfstæðismenn að hafa í huga þegar þeir taka þátt í prófkjörinu sem fram undan er.

Þórlindur Kjartansson er einn þeirra sem eiga að fá tækifæri til að endurreisa fylgi við Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst meðal ungs fólks. Hann hefur gegnt formennsku SUS í eitt og hálft ár og hefur á þeim tíma sýnt hversu auðvelt hann á með að sannfæra ótrúlegasta fólk um fegurðina að baki Sjálfstæðishugsjóninni og virkja það til góðra verka. Það þarf ferskt blóð á vígvöllinn til að sýna ungu fólki að Sjálfstæðisstefnan sé í raun svarið.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)