Ráðherrar hætti á þingi

Þrískipting ríkisvaldsins er einn af hornsteinum lýðræðissamfélagsins og snýr að sjálfstæði löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Grundvallarhugsunin á bakvið skiptinguna er einföld; skapa lýðræðislega umgjörð samfélagins til að hámarka réttlæti, árangur og gegnsæi – þegnum landsins til góða. Því miður er staðreyndin sú að ekki er með góðri samvisku hægt að segja að þrískipting ríkisvaldsins hafi verið raunverulega virk á Íslandi.

Þrískipting ríkisvaldsins er einn af hornsteinum lýðræðissamfélagsins og snýr að sjálfstæði löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Grunndvallarhugsunin á bakvið skiptinguna er einföld; skapa lýðræðislega umgjörð samfélagins til að hámarka réttlæti, árangur og gegnsæi – þegnum landsins til góða.

Því miður er staðreyndin sú að ekki er með góðri samvisku hægt að segja að þrískipting ríkisvaldsins hafi verið raunverulega virk á Íslandi. Ójafnvægið milli framkvæmdavaldsins, löggjafarvaldsins og dómsvaldsins hefur verið verulegt. Framkvæmdavaldið, þ.e. ráðherrrarnir, hafa ótvírætt trónað á toppnum, stýrt löggjafarvaldinu og skipað dómsvaldið.

Staðreyndin er sú að nánast öll frumvörp sem farið hafa í gegnum Alþingi á liðnum árum hafa komið undan ranni ráðherranna og ráðuneyta þeirra. Afar fá þingmannafrumvörp hafa náð að verða að lögum frá Alþingi, þrátt fyrir að oft á tíðum sé um að ræða frumvörp sem víðtæk sátt ríkir um.

Ágætis dæmi um þetta er þegar varaþingmaðurinn og Deiglupenninn Erla Ósk Ásgeirsdóttir, tók sæti á Alþingi á síðasta ári og lagði fram mjög þarft frumvarp um afnám lágmarksútsvars sveitarfélaga. Já, mikið rétt – afnám lágmarksins. Það er nefnilega merkileg staðreynd að í dag er sveitarfélögum skylt að rukka okkur skattgreiðendurna um ákveðið lágmark – jafnvel í þeim tilvikum þegar sveitarfélag stendur vel og þarf einfaldlega ekki á auknum skatttekjum að halda. Fínt að hafa hámark, en það skýtur skökku við að hafa lágmark! Enda voru þingmenn almennt sammála um þetta tiltekna mál, þverpólitísk samstaða og allt í góðu. Merkilegt nokk er frumvarpið þó enn ekki orðið að lögum sökum þess hve lítil áhrif þingmenn geta haft við núverandi fyrirkomulag. Þessu þarf að breyta.

Að þessu viðbættu er líka flestum eflaust í fersku minni misgagnsæjar skipanir í embætti dómara á síðustu árum. Framkvæmdavaldið enn í forystuhlutverki. Í raun væri mun skynsamlegra að í stað þess að einstaka ráðherrar fari einungis með skipun dómara, þyrfti Alþingi að samþykkja skipun ráðherra með auknum meirihluta. Enda lykilatriði í sérhverju réttarríki að fullkomið gegnsæi ríki og samstaða sé um hlutleysi dómsvaldsins.

Af þessum dæmum er ljóst að þrískipting ríkisvaldsins hefur ekki verið nægjanlega virk né skapað þá lýðræðislegu umjörð í samræmi við markmiðin. Ein af grundvallarforsendum þess að hægt sé að bæta þessa umgjörð með auðveldum hætti er að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið með þeim hætti að ráðherrar segji af sér þingmennsku.

Framkvæmdavaldið á klárlega ekki að sitja á Alþingi, leiða löggjafarvaldið og skipa dómsvaldið. Það getur ekki talist jöfn þrískipting í mínum huga.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)