Hraðkassinn við Austurvöll

Á undanförnum vikum hefur fjöldi nýrra og afdrifaríkra laga verið samþykktur á Alþingi. Með ólíkindum er hversu litla umræðu sum þessara nýju laga hafa fengið í þingsölum, og svo virðist sem umræðutími hverrar og einnar nýrrar löggjafar sé í öfugu hlutfalli við mikilvægi hennar og áhrif á almenning og atvinnulíf. Öll þessi afdrifaríku lög virðast líka eiga það sameiginlegt að eiga uppruna sinn í innstu kimum ráðuneyta, samin af sérfræðingum, en ekki kjörnum fulltrúum.

Á undanförnum vikum hefur fjöldi nýrra og afdrifaríkra laga verið samþykktur á Alþingi. Með ólíkindum er hversu litla umræðu sum þessara nýju laga hafa fengið í þingsölum, og svo virðist sem umræðutími hverrar og einnar nýrrar löggjafar sé í öfugu hlutfalli við mikilvægi hennar og áhrif á almenning og atvinnulíf. Öll þessi afdrifaríku lög virðast líka eiga það sameiginlegt að eiga uppruna sinn í innstu kimum ráðuneyta, samin af sérfræðingum, en ekki kjörnum fulltrúum.

Eins og sá er þetta ritar hefur nefnt áður, virðist það gegnumgangandi í hagsögu Íslands að á góðæristímum er ríkið eftirlátssamt í rekstri, en þegar skóinn kreppir er gripið til stórkarlalegra aðgerða. Löggjafinn hegðar sér eins – oftar en ekki að flotið sofandi að feigðarósi og gæluverkefni stjórnmálamanna og ráðuneyta eru aðalviðfangsefnin þegar vel gengur. Þegar horfur versna er afdrifaríkum lögum hins vegar dúndrað í gegnum þingið og enginn tími gefinn fyrir nauðsynlegar umræður. Er þetta nýtt af nálinni?

Í forystugrein Nýs Helgafells árið 1957 skrifaði Jóhannes Nordal, þáverandi seðlabankastjóri um ofríki stjórnmálanna. Þar stendur: „Einna furðulegast um starfshætti síðasta þings hefur verið hið fullkomna ósamræmi milli meðferðar þingmála annars vegar og mikilvægis þeirra hins vegar. Ekki er fjarri sanni, að því mikilvægari og róttækari sem mál hafa verið talin, því minni sómi hafi þeim verið sýndur bæði í frágangi frumvarpa og þinglegri meðferð. Mikinn hluta þingtímans var ládeyða, þar sem ríkti ýmist algert aðgerðaleysi eða menn þráttuðu um eyðingu refa og minka og önnur afdrifalítil málefni. En við og við var kyrrðin rofin, þegar hinum stóru frumvörpum ríkisstjórnarinnar var fleygt eins og vígahnöttum í gegnum þingið. Þannig voru lögin um Úflutningssjóð, sem gera ráð fyrir meiri skattlagningu en fjárlögin öll fyrir þremur árum, knúin í gegnum Alþingi á tveimur sólarhringum, enda áttuðu víst fæstir þingmenn sig á því, hvað yfir hafði dunið, fyrr en löngu seinna, hvað þá allur almenningur. Önnur mikilvæg frumvörp, einkum bankafrumvörpin, voru afgreidd eins umræðu- og skýringalítið og frekast var unnt. Með því að forðast þannig rækilegar og heiðarlegar umræður um hin mikilvægustu mál hefur þingræðinu verið sýnd hættuleg lítilsvirðing.

Þessi orð seðlabankastjórans fyrrverandi má færa allt að því alfarið yfir á daginn í dag, þó liðin séu ríflega hálf öld síðan þau birtust á prenti. Í stað málsins um Útflutningssjóð heitinn mætti sjá fyrir sér Seðlabankann, enda gekk minnihlutastjórnin sem nú ræður ríkjum skrefinu lengra en Jóhannes Nordal nefnir í grein sinni og frestaði einfaldlega þingfundi þegar ekki fékkst undanbragðalaus stuðningur meirihluta þings við frumvarpið. Óháð því hvaða skoðanir menn hafa á því hver tilgangur frumvarpsins var og hversu skynsamlegt það kann að vera, er um að ræða grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi peningamála á Íslandi. Maður hefði haldið að slíka hluti þyrfti að ræða ítarlega. Fleira má nefna í þessu samhengi; til að mynda lög um gjaldeyrishöft voru samþykkt í skjóli nætur í valdatíð síðustu ríkisstjórnar.

Sú vinstristjórn sem fer með stjórn landsmála stærir sig nú af því að vera með meira en 30 mál afgreidd úr ríkisstjórn sem starfsmaðurinn á hraðkassanum við Austurvöll, þingheimur, þarf nú einungis að skanna inn og afgreiða á tæpum tveimur vikum. Eins skiljanleg og nauðsynleg krafan er um tafarlausar aðgerðir, mega þau vopn sem lýðræðið færir okkur ekki snúast í höndunum á okkur.

Í lok greinar Jóhannesar segir: „Vér, sem nú lifum, höfum fengið að reyna, hve þunn er sú skel siðmenningar, sem skilur jafnvel hinar menntuðustu þjóðir, frá fullkominni villimennsku. Þau verðmæti, sem vér metum mest, kunna að verða fótum troðin, áður en varir, ef slakað er á þeim kröfum um frjálsa stjórnarhætti og virðingu fyrir lögum, þekkingu og mannréttindum, sem vestrænt lýðræði hvílir á.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)