Snúum orðræðunni við!

Nú þegar nokkrir mánuðir eru liðnir frá falli bankanna hefur fréttaflutningurinn lítið breyst og sást það ef til vill best í sjónvarpsfréttum RÚV þann 19. febrúar síðastliðinn þar sem fyrsta frétt var kynnt undir yfirskriftinni „Engin framtíð“. „Frábært!“ hugsaði ég með mér.

Flestir geta verið sammála um það að fjölmiðlar geta haft mikil áhrif og fréttaflutningur stýrir oftar en ekki orðræðunni og stemningunni í samfélaginu. Á fyrstu vikunum eftir efnahagshrunið dundu á þjóðinni slæmar fréttir og nánast allt sem maður las í blöðunum og sá í sjónvarpsfréttunum var neikvætt. Margir brugðu því á það ráð að hætta að hlusta og horfa á fréttir, þar með talið undirrituð. Nú þegar nokkrir mánuðir eru liðnir frá falli bankanna hefur fréttaflutningurinn lítið breyst og sást það ef til vill best í sjónvarpsfréttum RÚV þann 19. febrúar síðastliðinn þar sem fyrsta frétt var kynnt undir yfirskriftinni „Engin framtíð“. „Frábært!“ hugsaði ég með mér.

Í fréttinni var rætt við Gylfa Zoëga, hagfræðing, um áhyggjur hans af því að ekkert erlent fjármagn komi inn í landið á næstu misserum. Hann óttast að íslensk stjórnvöld séu búin að brenna allar brýr að baki sér erlendis og er það skelfilegt því án þessa fjármagns er engin framtíð á Íslandi samkvæmt hagfræðingnum. Við erum, með öðrum orðum, dauðadæmd.

Þegar fréttinni lauk sat ég eftir og hugsaði með mér hvernig ég og samlandar mínir værum betur sett með þessar upplýsingar: það er engin framtíð á Íslandi. Punktur. Er hér verið að ala á ótta eða verið að veita nauðsynlegar upplýsingar? Ég hallast að hinu fyrrnefnda.

Að sjálfsögðu eiga fjölmiðlar að sinna upplýsingaskyldu sinni gagnvart almenningi en þeir bera líka mikla ábyrgð og þurfa ávallt að gæta að henni, sérstaklega nú á þessum erfiðu tímum. Ég er sannfærð um að fréttastofa RÚV hefði getað komið skilaboðum Gylfa Zoëga á framfæri með nærgætnari hætti og réttara hefði verið að láta frétt, sem birtist í kvöldfréttum daginn eftir, fylgja strax í kjölfarið. Þar svöruðu viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra því hvort og hvernig verið sé að bæta alþjóðasamskipti og tryggja að erlent fjármagn komi inn í landið.

Þegar orðræðan í fjölmiðlum er með jafnneikvæðum hætti og raun ber vitni er ekki skrýtið að bölmóður og svartsýni tröllríði íslensku samfélagi. Ég tel að það sé tímabært að við snúum orðræðunni við, ekki síst vegna æsku landsins og þeirra sem eiga í erfiðleikum vegna efnahagsástandsins. Fjölmiðlar eiga að geta flutt fréttir án þess að slá upp fyrirsögnum á borð við þá sem RÚV gerði þann 19. febrúar síðastliðinn þar sem þær gera fáum gott og eru síst til þess fallnar að auka bjartsýni, nema síður sé.

Í þessu samhengi verður forvitnilegt að fylgjast með komandi kosningabaráttu og því hvort stjórnmálamenn falli í þá gryfju að kenna hvorum öðrum um það sem miður hefur farið eða rísi upp og tali kjark og dug í íslensku þjóðina. Hver veit nema leiðtoginn sem Davíð Oddsson kallaði eftir í Kastljósviðtali á dögunum komi þá fram á sjónarsviðið, og þó fyrr hefði verið?

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.