Persónukjör og peningar

Verði hugmynd ríkisstjórnarinnar um persónukjör að lögum vaknar spurningin um hversu miklu frambjóðendur á óröðuðum framboðslista mættu eyða í kynningu og kosningabaráttu. Tæplega er hægt að heimfæra reglur um prófkjör á slíka baráttu og líklega yrði að líta svo á að slík kynningarstarfsemi jafngilti framlagi til viðkomandi flokks og takmarkaðist því við 300 þúsund krónur.

Eitt þeirra mála sem ný ríkisstjórn hyggst leggja áherslu á er að breyta kosningalögum til þess að innleiða reglur um persónukjör.

Því hefur verið lýst ágætlega af hálfu bæði stjórnmálamanna og fræðimanna út á hvað slík breyting myndi ganga, þ.e. að stjórnmálaflokkar hefðu kost á að bjóða fram það sem kallast óraðaður listi frambjóðenda. Kjósendur þeirra flokka sem bjóða fram slíkan lista hefðu því í hendi sér að ráða uppröðun á listanum í kjörklefanum og hin hefðbundnu prófkjör flokkanna færu þá fram inn í kjörklefanum en væru ekki haldin sérstaklega af hálfu viðkomandi flokks áður en kosningarnar sjálfar fara fram.

Krukkað í reglunum í miðjum klíðum
Við þessa hugmynd er ýmislegt að athuga. Hún er fyrir það fyrsta afar seint fram komin en kosið verður til Alþingis 25. apríl nk. og því væri verið að breyta reglunum í miðjum leik. Það er raunar meðal einkenna ólýðræðislegra kosninga og stjórnarfars að breyta kosningareglum eftir að blásið hefur verið til kosninga. Eðlilegra væri að gefa svona breytingum lengri tíma og undirbúa þær þá betur. Reyndar hafa fjórir af fimm flokkum nú þegar gefið út að þeir hyggjast halda prófkjör, forval eða uppstillingu (Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn) og því má velta fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að leggja ofurkapp á að koma slíku ákvæði inn núna.

Fjármál frambjóðenda
Annar flötur á hugmyndinni um persónukjör eru lög frá 2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Í þessum lögum er kveðið á um reglur varðandi styrki til stjórnmálaflokka og frambjóðendur, upplýsingaskyldu, bókhaldsskyldu og hámarkskostnað fyrir þá sem taka þátt í prófkjörum innan flokkanna. Með setningu laganna, sem allir flokkar stóðu að á sínum tíma, voru í fyrsta sinn settar reglur um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, en fram að þeim tíma höfðu nánast engar reglur gilt um þetta efni hér á landi. Lögin hafa verið gagnrýnd nokkuð harkalega hér á Deiglunni, þótt ekki verði farið nákvæmlega út í þá sálma að sinni.

Reglurnar setja frambjóðendum í prófkjörum talsverðar hömlur miðað við það sem áður var, hámarkskostnaður við prófkjör er til að mynda um það bil 8 milljónir í Reykjavík (hámarkskostnaður er reiknaður þannig að ákveðin krónutala er fyrir hvern íbúa á svokölluðu „kjörsvæði“ að viðbættri einni milljón króna) og líkt og stjórnmálaflokkarnir mega frambjóðendur ekki þiggja meira en 300 þúsund krónur í einstök framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum.

Með þessu eru töluverðar hömlur settar á kostnað við prófkjörin en að sama skapi er unnt að verja í þau þónokkru fé enda gegna prófkjörin mikilvægu hlutverki innan flokkanna varðandi nýliðun og breytingar.

Hvað mætti eyða miklu í persónukjör?
Hugmyndir um persónukjör passa ekki vel inn í lögin um fjármál flokkanna enda var ekki gert ráð fyrir þeim möguleika þegar lögin voru samin. Engu að síður mætti ætla að frambjóðendur á óröðuðum lista hefðu áhuga á að koma sér og sínum stefnumálum, áherslum og fyrri afrekum á framfæri við kjósendur með einhverjum hætti enda væri það hluti af eðlilegri nýliðun og endurnýjun innan flokkanna.

Þá vakna upp spurningar um hvernig fara ætti með kostnað sem farið yrði út í af hálfu frambjóðenda á óröðuðum lista til að kynna sig. Hvaða reglur gilda um slíkt? Ætli ríkisstjórnin með stuðningi Framsóknarflokksins að gera frumvarp um breytingar á kosningalögunum að lögum fyrir þinglok þyrfti í leiðinni að velta upp breytingum á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Miðað við ummæli og yfirlýsingar stjórnarliða og fræðimanna fram til þessa hefur þetta atriði þó ekki fengið mikla athygli og ólíklegt verður að teljast að frumvarp þess efnis sé í undirbúningi.

Framlag til flokksins sjálfs?
Vilji menn aftur á móti ekki gera sérstaka breytingu á lögunum um fjármál stjórnmálaflokka væri hugsanlega hægt að fella persónukjörið undir lögin með því að líta svo á að það fé sem frambjóðendur á óröðuðum lista verja til að kynna sjálfan sig jafngildi framlagi til viðkomandi flokks og kosningabaráttu hans og megi þar af leiðandi ekki vera yfir 300 þúsund krónum. Þetta gæti stuðst við d-lið 2. gr. laganna þar sem framlög eru m.a. skilgreind sem „framlög til starfsemi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda eða kosningabaráttu, hvort heldur eru bein fjárframlög eða önnur gæði sem metin verða til fjár, án tillits til þess hvaðan þau koma eða hvers eðlis þau eru“. Þannig yrði einfaldlega litið á þann kostnað sem hver frambjóðandi legði út fyrir sem stuðning við viðkomandi flokk og slíkt flokkað sem framlag til flokksins.

Margar milljónir í prófkjör, 300 þúsund í persónukjör
Þessi niðurstaða býður aftur á móti upp á ákveðið misræmi milli þeirra sem fara í prófkjör annars vegar og frambjóðenda í persónukjöri hins vegar. Frambjóðendur í prófkjörum gætu auglýst sjálfa sig fyrir allt að 8 milljónir í stærstu prófkjörunum, en þeir sem eru á óröðuðum lista flokka gætu aðeins varið 300 þúsund krónum til að koma sér á framfæri. Þetta hefði áhrif á nýliðun innan flokka sem yrði gerð torveldari á þennan hátt því nýir og síður þekktir frambjóðendur hefðu minni möguleika á að vekja athygli á sér þar sem hámarkskostnaðurinn til að kynna sig er 300 þúsund krónur. Þeir sem fyrir eru á fleti, t.d. sitjandi þingmenn, ættu væntanlega meiri möguleika á að halda sinni stöðu, enda í flestum tilfellum þekktari og betur kynntir.

Niðurstaðan er því sú að með góðum vilja má koma persónukjörinu undir ákvæðin um lögin um flokkana og prófkjörin en þau voru ekki hugsuð út frá þessum kosti og myndu í þokkabót búa til ýmis konar misræmi og ósamræmi.

Annar möguleiki við að koma persónukjörinu undir lögin um fjármál flokkanna án þess að gera sérstaka breytingu væri að ætla sér að lögjafna ákvæðum um kostnað við prófkjörsbaráttu yfir á persónukjörið. Á það ber hins vegar að líta að þetta er afar ólík barátta, þ.e. persónukjör annars vegar og prófkjör hins vegar og býsna langt seilst að heimfæra þau ákvæði upp á persónukjörið.

Betri undirbúningur
Að þessu öllu sögðu er ljóst að nokkur vafi leikur á því hvernig sé rétt að fara með persónukjörið gagnvart þeim kostnaði sem lagt verður út í af hálfu frambjóðenda. Svörin við því eru ekki alveg augljós, þótt eflaust mætti heimfæra ákvæði laganna upp á persónukjörið. Eðlilegra væri aftur á móti að aðlaga lögin um fjármál flokkana að hinu nýja frumvarpi. Þá vaknar aftur á móti upp sú spurning hvort tíminn sé nægur til að vinna í slíkum breytingum á síðustu stundu í þinginu, hvort mikilvægari mál ættu ekki að fá forgang og hvort það liggi yfirhöfuð mikið á að keyra svona breytingar í gegn í ljósi þess að allar líkur séu á að það væri lítið sem ekkert notað.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.