Ég sagði ykkur það

Fyrrverandi stjórnmálamenn, hvort heldur sem þeir eru fyrrum sendiherrar eða seðlabankastjórar, keppast nú við að benda á að þeir hafi nú haldið hinu og þessu fram fyrir nokkrum árum eða mánuðum, og að menn hefðu betur hlustað á þá.

Fyrrverandi stjórnmálamenn, hvort heldur sem þeir eru fyrrum sendiherrar eða seðlabankastjórar, keppast nú við að benda á að þeir hafi nú haldið hinu og þessu fram fyrir nokkrum árum eða mánuðum, og að menn hefðu betur hlustað á þá.

Nærtækasta og nýlegasta dæmið um þetta er ræða Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra. Ræðan sem Davíð hélt á fundi Viðskiptaráðs þann 18. nóvember síðastliðinn var dæmalaus. Auðvitað má nefna Davíð það til tekna að hann hafði bent á ýmis atriði fyrir einhverjum tíma síðan sem eftir á að hyggja hefði átt að athuga betur. Formaður bankastjórnar minntist þó ekki orði á hvað hefði mátt betur fara í stjórn peningamála á síðustu mánuðum, og þau atriði sem þar má telja til eru ófá.

Ræðan fjallaði nánast ekkert um framkvæmd peningastefnu Seðlabanka Íslands eða hvernig bankinn hygðist takast á við núverandi aðstæður. Ræðan var raunar persónuleg málsvörn og nokkurs konar „greatest hits“ tilvitnana Davíðs í sjálfan sig. Hvaða hagsmunum þjónar það öðrum en hans eigin persónulegu?

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Washington og fyrrum utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar snemma á síðasta áratug hélt erindi 21. nóvember síðastliðinn, á fundi laganema við Háskóla Íslands um Evrópumál. Jón hafði vissulega ýmislegt til síns máls – sterk rök má færa fyrir því að ástandið á Íslandi væri öðruvísi ef gjaldmiðilsmálum og / eða peningamálastjórn hér hefði verið hagað með öðrum hætti. Ræða Jóns var tilþrifamikil, en sendiherrann fyrrverandi féll í þá gryfju að benda á eigin ummæli fyrir ýmist 10 vikum eða 10 árum. Hvaða hagsmunum þjónar það öðrum en hans eigin persónulegu?

Á síðustu vikum hefur verið vinsælt að grípa til líkinga um brennandi hús, brennivarga, slökkvilið og aðra málsaðila sem kunna að komu við sögu þegar húsbruni á sér stað. Hvernig sem er best er að slökkva í brennandi húsi stoðar lítt að standa inn í því og rífast um hver sá brunann fyrir, hver kveikti hann, hver getur slökkt hann, hvað hefði getað komið í veg fyrir hann, og svo framvegis. Hið mikilvæga núna er að setja undir sig hausinn og slökkva helvítis eldinn með öllum tiltækum ráðum, og það strax.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)