Hin bjartsýnu börn kreppunnar

Mér var um daginn boðið á umræðufund með jafnöldrum mínum og nokkrum þingmönnum. Þingmennirnir spurðu ákafir hvernig kreppan hefði áhrif á okkur unga fólkið og virtust búast við grátklökkum harmsögum. Þögn sló á hópinn þar til ég tók af skarið og spurði hálf kindarlegur hvort það væri ekki alveg ágætt að vera ungur í kreppunni, geta bara verið skuldlaus í skóla og haft það gott og svona. Mér leið strax eins og ég hefði blótað í kirkju. Það var greinilega algjört guðlast að halda að manni gæti bara liðið vel í kreppunni, eins og það væri eitthvað pláss fyrir bjartsýni.

Ég er undir tvítugu og tilheyri því forréttindakynslóð sem getur leyft sér að sitja á áhorfendapöllunum í kreppunni án þess að vera neydd til þátttöku. Við fólkið í kringum mig búum flest heima hjá foreldrum okkar, höfum ekki stofnað til óviðráðanlegra skulda (allavega ekki í erlendri mynt), erum ekki á vinnumarkaði nema til að eiga fyrir næstu helgi og finnst það bara fínt að geta klárað stúdentinn í rólegheitunum. Kannski er ég svona ofsalega einfaldur, en ég spyr samt; hvað gæti kreppan hugsanlega gert mér sem er svona hræðilegt?

Það er frekar ákjósanleg staða að vera ungur og vitlaus á krepputímum. Fólk sem er búið að koma upp fjölskyldu og glímir við skuldbindingar sem þyngjast með hverjum deginum sem líður á hins vegar eflaust frekar erfitt með að skilja hvernig ungu fólki geti liðið svona núna.

Mér var um daginn boðið á umræðufund með jafnöldrum mínum og nokkrum þingmönnum. Þingmennirnir spurðu ákafir hvernig kreppan hefði áhrif á okkur unga fólkið og virtust búast við grátklökkum harmsögum. Þögn sló á hópinn þar til ég tók af skarið og spurði hálf kindarlegur hvort það væri ekki alveg ágætt að vera ungur í kreppunni, geta bara verið skuldlaus í skóla og haft það gott og svona. Mér leið strax eins og ég hefði blótað í kirkju. Það var greinilega algjört guðlast að halda að manni gæti bara liðið vel í kreppunni, eins og það væri eitthvað pláss fyrir bjartsýni.

Ég held nefnilega að það hugarástand sem fólk á framhaldsskólaaldri er í sé alveg sér á parti, við þrífumst í hálfgerðu efnahagslegu lofttæmi. Vinir mínir og kunningjar eru ekki reiðir eins og svo margir – yfir hverju ættum við svo sem að reiðast? Hugarástandið einkennist miklu frekar af bjartsýni og spennu yfir því að fá að taka þátt í uppbyggingunni sem er framundan, jafnvel einhvers konar skringilegu þakklæti fyrir að fá að upplifa slíka umrótatíma. Það eru tækifærin skipta máli, ekki vandamálin.

Þetta er kannski vonlaus einfeldningsháttur kynslóðar sem veit ekki betur. En hvernig sem á því stendur stendur hlýtur samfélaginu að vera fyrir bestu að minnsta kosti einum hluta þess þyki ástæða til að horfa fram á við. Annars væri fyrst illa fyrir þjóðinni komið.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)