Nei, ráðherra!

Vel má vera að það sé möguleiki að ríkisstjórnin þurfi að íhuga af fullri alvöru að blása til kosninga fyrr en ella en að ráðherrar í henni komi fram og lýsi þessu yfir á þessum erfiðu tímum hljóta að teljast forkastanleg vinnubrögð.

Samfylkingarráðherrarnir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir, staðfestu í samtali við fjölmiðla í vikunni að rétt væri að blása til kosninga strax næsta vor. Vel má vera að þetta sé möguleiki sem ríkisstjórnin þurfi að íhuga af fullri alvöru en að ráðherrar í henni komi fram og lýsi þessu yfir á þessum erfiðu tímum hljóta að teljast forkastanleg vinnubrögð.

Ríkisstjórnin sem nú situr er líklega að glíma við erfiðustu vandamál sem nokkur ríkisstjórn hefur þurft að fást við í sögu lýðveldisins. Eðlilega hlýtur ríkisstjórnin við þessar aðstæður að vera umdeild rétt eins og allar aðrar stjórnir væru. Því er mikilvægt að ráðherrar starfi sem ein heild til að byggja upp traust almennings á stjórnvöldum og vinni að því einhuga að koma okkar úr þeim vandræðum sem við erum í.

Með yfirlýsingum sínum um að blása skuli til kosninga eru ráðherrarnir í raun að lýsa yfir vantrausti á getu núverandi stjórnvalda til að fást við vandann. Þannig grafa þessir ráðherrar undan trúverðugleika samráðherra sinna og ríkisstjórnarinnar í augum þjóðarinnar. Það hljóta að teljast forkastanleg vinnubrögð í ljósi þess að aldrei hefur verið meiri þörf á því en núna að menn standi saman og vinni sem einn að lausn þeirra erfiðu verkefna sem blasa við. Burtséð frá því hvort skynsamlegt sé, eða jafnvel nauðsynlegt, að hafa kosningar snemma á næsta ári þá eiga menn sem vinna í liði ekki að haga sér svona gagnvart liðsfélögum sínum. Ráðherrarnir eru því ekki síður að bregðast trausti formanns Samfylkingarinnar en samstarfsflokks síns í ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin þarf á því að halda að ráðherrar, allir sem einn, beiti kröftum sínum í lausn þess vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það gagnast engum að upp komi stjórnarkreppa á næstu misserum sem myndi einungis fresta því að unnið yrði að þeim brýnu verkefnum sem þarfnast úrlausna. Vel má vera að sú staða komi upp að forsætisráðherra í samstarfi við ríkisstjórnina telji affarasælast að blása til nýrra kosninga fyrr en ella. Hins vegar er sú staða ekki uppi á borðinu í dag. Núna þurfa menn að snúa saman bökum. Þeir sem eru ekki tilbúnir til þess og þannig grafa undan trúverðugleika samstarfsmanna sinna eru einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir og ættu að sjá sóma sinn í því að víkja.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)