Lærdómur bankakreppunnar

Þessa dagana fer fram mikil umræða um tillögur sem ætlað er að auðvelda almenningi að komast yfir erfiðleika bankakreppunnar. Þó að í langflestum tilfellum sé ásetningurinn góður geta sumar hugmyndanna skapað meiri erfiðleika en þær leysa.

Þjóðin er í naflaskoðun. Fólk spyr sig, hvernig gat þetta farið svona? Sú spurning á fullan rétt á sér. En engu að síður verðum við að beina kröftum okkar í réttar brautir og forgangsraða. Sum vandamál eru meira aðkallandi en önnur. Við megum ekki fórna langtímahagsmunum fyrir skyndilausnir.
Í þeim tilgangi er mikilvægt að setja sér skýr markmið og leggja þannig grunninn að betri tíð. Taka eitt skref í einu og vera fullviss um að unnið sé með eftirfarandi að leiðarljósi:

1. Þetta má ekki gerast aftur.
2. Áhrif hrunsins verði sem minnst á komandi kynslóðir.
3. Áfram verði tækifæri fyrir ungt fólk að finna hugmyndum sínum farveg í
metnaðarfullum störfum sem bæta hag þess.
4. Aðgerðir ríkisins séu sanngjarnar

Með þessum gleraugum getum við metið atburði líðandi stundar og skorið úr um hvort þær tillögur sem birtast okkur bæði almennri umræðu og sölum Alþingis séu þjóðinni til hagsbóta.

Dæmi um hugmyndir sem vert er að líta í þessu ljósi eru tillögur um fella niður hluta skulda til að létta undir með skuldsettum fjölskyldum landsins. Fjárhagserfiðleikar svíða án efa marga sárt sem myndu taka slíkum tilboðum fegins hendi, en þrátt fyrir það er engum af fyrrgreindum markmiðum náð.

Eins og fjallað var ágætlega um hér á Deiglunni fyrir stuttu er um að ræða varhugaverðar hugmyndir sem varla geta talist sanngjarnar. Hugsanlega gætu einkafyrirtæki séð hag sinn í því að fella niður hluta skulda með það fyrir augum lágmarka afskriftir og þar með hámarka afkomu hluthafa sinna. Hins vegar snýr málið allt öðruvísi við þegar ríkið á í hlut og er næstum ómögulegt uppfylla þær sanngirnis- og hagkvæmniskröfur sem þyrfti að gera til slíkrar aðstoðar.

Lærdómurinn og veganesti næstu kynslóða yrði að það borgar sig að skulda. Ríkið hleypur undir bagga ef illa fer. Skuldabyrðinni yrði varpað yfir á eftirlaunaþega og framtíðarskattgreiðendur og eignatilfærslan myndi þannig virka letjandi á virðisaukandi störf og sparnað. Því vinna slíkar hugmyndir beint gegn möguleikum ungs fólks í framtíðinni og auka líkur á því að þetta gerist aftur.

Annað dæmi er sterk tilhneiging í þá átt að dæma allar ákvarðanir sem voru teknar síðasta áratuginn sem misráðnar. Þær forsendur sem menn gáfu sér standist ekki og í kjölfarið er lýst yfir gjaldþroti markaðshyggjunnar.

Vissulega voru sumar forsendnanna rangar en það væri glapræði að snúa við markaðshyggjunni. Eins og við höfum nú fengið illilega að kenna á er Ísland þrátt fyrir allt hluti af mjög stórum markaði og alþjóðavæðing viðskipta hefur gert það að verkum að miklir fjármunir flæða um heiminn í leit að tækifærum. Þessi nýja skipan mála er komin til að vera og hefur m.a. átt stóran þátt í að minnka fátækt í heiminum. En hún gerir það einnig að verkum að endurskoða þarf ramma allra viðskipta og þær reglur sem hafa hingað til hafa gilt . Öll nútímahagkerfi þurfa nú að kljást við þessar breytingar og ef við ætlum ekki að stefna að algjörri einangrun, verðum við að aðlaga okkur að breyttum tímum.

Hversu vel við náum að tileinka okkur breyttar leikreglur skiptir sköpum um það hversu vel okkur á eftir að ganga að endurvekja traust á þessum nýja leikvelli alþjóðaviðskipta. Einangrun og afturhvarf til ríkisrekinna banka, pólitískra hrossakaupa og hafta takmarkar því verulega möguleika komandi kynslóða til metnaðarfullra starfa. Einnig sýnir reynsla fyrri ára að ríkisrekstur stuðlar að ósanngirni og sóun á góðum tækifærum.

Til að tryggja bankahrunið gerist ekki aftur verða að sjálfsögðu gilda skýrar og gagnsæjar leikreglur og fyrirhyggja að ráða för. Hrun bankanna sýndi ekki fram á veikleika markaðshyggjunnar heldur sýndi markaðshyggjan fram á veikleika bankanna og við verðum að tryggja að við séum ekki sett í þá stöðu aftur að bera þjóðfélagslega ábyrgð á skuldum einkaaðila.

Verkefni komandi mánaða og ára er ærið og mikið veltur á því að næstu skref okkar verði yfirveguð og vel ígrundið. Fljótfærni og skyndilausnir eru til þess fallnar að lengja þær efnahagsþrengingar sem göngum nú í gegn um.

Allt hefur sinn tíma og það mun koma að því að við gerum upp fortíðina og fara yfir það sem misfórst. Okkur er nauðsynlegt að fara í þá yfirferð með opnum hug og styrk til að greina það sem voru klárlega mistök frá því sem var vel gert.

Í kjölfarið er brýnt að allt gott fólk safni saman hugrekki sínu og setjist aftur í hnakkinn, reynslunni ríkari.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.