Lán og ólán I: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Íslenska orðið „lán“ er samheiti við bæði yfirdrátt og gæfu. Hvort lánafíkn Íslendinga eigi sér svipaða sögu og orðsifjar orðsins skal ósagt látið. En í því óláni sem ríður yfir Íslendinga þessa dagana eru lán í aðalhlutverki – gömul og ný. Ríkissjóður hefur að undanförnu átt í samningaviðræðum um tvö lán, sem eiga það sameiginlegt að vera með þeim stærstu í Íslandssögunni, en eru gerólík að öllu öðru leyti.

Íslenska orðið „lán“ er samheiti við bæði yfirdrátt og gæfu. Hvort lánafíkn Íslendinga eigi sér svipaða sögu og orðsifjar orðsins skal ósagt látið. En í því óláni sem ríður yfir Íslendinga þessa dagana eru lán í aðalhlutverki – gömul og ný. Ríkissjóður hefur að undanförnu átt í samningaviðræðum um tvö lán, sem eiga það sameiginlegt að vera með þeim stærstu í Íslandssögunni, en eru gerólík að öllu öðru leyti. Annars vegar er um að ræða lánveitingu bresku ríkisstjórnarinnar, sem fjallað verður um síðar.

Hins vegar er um að ræða fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í erlendri mynt, sem Íslendingar hafa neyðst til að leita eftir vegna þeirra fjárhagslegu hamfara sem hafa orðið á Íslandi að undanförnu. Eftir að hafa tekið þetta lán (og væntanlega lán frá Norðurlöndunum að auki) verður Ísland (Seðlabankinn nánar tiltekið) afskaplega skuldsett. Þetta skelfir marga.

En lán hefur í sjálfu sér engin áhrif á fjárhagsstöðu einstaklinga eða ríkja. Um leið og lánið er afgreitt fær Seðlabankinn lánsupphæðina greidda og á þá eign sem samsvarar skuldinni upp á krónu. Í raun væri hægt að ávaxta þetta fjármagn og endurgreiða eftir tvö ár án þess að nokkuð hefði breyst. En hvað ræður því að fólk hefur slíka andúð á þessari skuld?

Meginástæðan er væntanlega sú að fólk er reitt yfir því að nú þurfi ríkið að taka lán, en áður þurfti þess ekki. Risavaxnar upphæðir hafa tapast á undanförnum vikum og það tap mun hafa mjög slæm áhrif á þjóðarbú og hag Íslendinga. En það að taka lán breytir engu um það. Tap okkar er og verður staðreynd, hvort sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitir okkur aðstoð eða ekki.

Það er ekki lánið sem skiptir máli, heldur hvað er gert við peningana. Þessir fjármunir verða ekki settir í að bjarga bönkum eða öðrum fyrirtækjum, heldur verða þeir settir í gjaldeyrissjóð Seðlabankans. Sjóðurinn þarf að vera nógu stór til að kaupa þær krónur sem menn vilja selja, og eru þar tveir hópar sem skipta mestu máli. Í fyrsta lagi er fólk sem hefur misst alla trú á Íslensku krónunni (og skal kannski engan undra). Í öðru lagi er fólk sem þarf að kaupa erlendar vörur eða greiða erlend lán.

Hugmyndin er sú að ef sjóðurinn sé nógu stór þá hætti fyrri hópurinn að selja krónur. Ef Seðlabankinn velur markgengi eða „gólf“ og þurrkar upp þær krónur sem eru til sölu undir á verra gengi, heldur stýrivöxtum háum og sendir út skilaboð um hörku í peningamálastefnu, er ólíklegt að þessi hópur vilji selja krónur á þeim verðum sem hafa sést að undanförnu. Þá er vonin sú að gengið muni styrkjast og verðbólgan ganga niður.

Síðari hópurinn verður að halda áfram að selja krónur, en á móti kemur útflytjendur munu vilja selja vörur fyrir gjaldeyri og kaupa svo krónur í staðinn. Ef allt færi á besta veg þyrfti í raun ekki að nota gjaldeyrissjóðinn, en í því andrúmslofti sem nú ríkir verður þó væntanlega ekki hjá því komist að Seðlabankinn sýni í verki hvar botninn verður settur með því að kaupa krónur á markaði í þónokkrum mæli.

Seðlabankinn hefur nú þegar hækkað vextina og mun væntanlega verða virkur á gjaldeyrismarkaði þegar lánið er gengið í gegn. Margir keppast við að halda því fram að hún vaxtahækkunin muni ekki virka til að styrkja gengið, en því miður eru færri sem boða aðrar lausnir á gengisvanda Íslands. „Trú á að krónan geti hækkað,“ eins og Vilhjálmur Egilsson óskaði eftir, er góðra gjalda verð en varla meira en óskhyggja ef ekki fylgja aðgerðir í kjölfarið. Vaxtahækkunin verður sár fyrir marga, og skiljanlegt að fólk fyllist gremju. En þegar allir valkostir eru slæmir er nauðsynlegt að hugsa sig vel út áður en þeim illskásta er úthúðað.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)