Nýja Ísland

Ástand efnahagsmála hefur aukið mjög umræður og stuðning við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Er nú svo komið að svo virðist sem að meirihluti þjóðarinnar sé fylgjandi inngöngu. Færi ekki vel á því við slíkar aðstæður – aðstæður þar sem allt skal vera uppi á borðum og engu skal hlíft við endurskoðunina – að kanna nánar innviði fyrirheitnalandsins?

Ástand efnahagsmála hefur aukið mjög umræður og stuðning við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Er nú svo komið að svo virðist sem að meirihluti þjóðarinnar sé fylgjandi inngöngu. Áberandi fólk í þjóðfélaginu hrópar að krónan sé fallin og að hinu nýja Íslandi skuli skipað í ríkjasamband Evrópuþjóða.

Færi ekki vel á því við slíkar aðstæður – aðstæður þar sem allt skal vera uppi á borðum og engu skal hlíft við endurskoðunina – að kanna nánar innviði fyrirheitnalandsins?

Er það svo, að þrátt fyrir að flestir geti sammælzt um að íslenzka krónan geti vart þjónað hagsmunum Íslands við núverandi aðstæður, að íslenzkum hagsmunum sé bezt borgið með inngöngu í Evrópusambandið? Eigum við að leyfa gjaldeyrismálum að ráða úrslitum um hvernig framtíðarskipulagi allrar þjóðarinnar skuli háttað?

Er óeðlilegt að spyrja hvort Ísland eigi samleið með samfélagi þjóða, sem stofnað var til, til að hindra ófrið og styrjaldir og grundvallast nú um stundir af stórveldadraumum og hugsjónum um frekari samruna og samþættingu?

Evrópusambandið er afar ólýðræðisleg stofnun, þar sem langur vegur er á milli kjósenda og hinna kjörnu fulltrúa. Kjörnir fulltrúar á Evrópuþinginu hafa í bezta falli lítil völd í öllu stóra samhenginu, en eins ótrúlegt og það hljómar að þá er það framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ein sem hefur leyfi til að hafa frumkvæði að lagasetningu! Má því með nokkrum sanni segja að Evrópuþingið sé nokkurs konar afgreiðslustofnun, sem stofnað var til, til að friðþægja háværar raddir hinna almennu borgara um stórkostlegan lýðræðishalla Evrópusambandsins.

Evrópuþingmenn sitja, á hinn bóginn, við djúpa kjötkatla, þar sem þeim eru skömmtuð rífleg laun, sæg aðstoðarmanna og gnótt fjár til að ferðast vikulega á beztu farrýmum til heimalanda sinna. Að auki heldur Evrópusambandið úti tveimur þinghúsum í hundruða kílómetra fjarlægð hvort frá öðru. Einu sinni í mánuði taka allir þingmenn, aðstoðarmenn og starfsfólk þinghússins í Brussel sig upp og flytja ásamt þúsundum blaðsíðna af gögnum í eina viku til Strassborgar. Skyldi vera einhver eðlileg skýring á þessu? Nei, því miður ekki. Þetta er bara svona. Frökkum datt einhverju sinni í hug að mikilvægt væri að ein af stofnunum Evrópusambandsins væri í Frakklandi. Ekki þarf að spyrja að því að þessir mánaðarlegu flutningar nokkurra þúsunda manna og gagna kosta evrópska skattborgara skildinginn.

Þó að hátturinn á Evrópuþinginu komi mörgum kostulega fyrir sjónir er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins enn furðulegri. Líta má á framkvæmdastjórnina sem nokkurs konar ráðuneyti, nema hvað að „ráðherrann“ eða framkvæmdastjórinn hefur ekkert pólitískt umboð, heldur er hann skipaður af einu af 27 aðildarlöndum Evrópusambandsins. Það eru því 27 framkvæmdastjórar þar sem hver og einn fer með sitt ráðuneyti. Við stækkanir Evrópusambandsins síðustu ára skapaðist erfið staða, þar sem nær allir málaflokkar voru orðnir uppurnir. Greip Evrópusambandið því til þess ráðs búa til furðuleg ráðuneyti til að mynda ráðuneyti Rúmenans Leonard Orbans, en hann fer fyrir tungumálaráðuneyti Evrópusambandsins.

Er ekki rétt að staldra aðeins við spyrja mikilvægra spurninga við núverandi aðstæður? Öllum er ljóst að „gamla Ísland“, þar sem allir höfðu óbilandi trú á að fjármál væru framtíðin og auðmenn og fólkið sem vann í bönkum skipaði eða taldi sig skipa forréttindastétt landsins, er liðin tíð. Viljum við búa til nýtt samfélag stéttarskiptingar? Vill þjóðin binda trúss sitt við Evrópusambandið og leggja þannig grunn að nýrri elítustétt umboðslausra embættismanna eða þingmanna sem hafa ekki einu sinni réttlætiskennd til að leiðrétta óráðsíuna og ruglið í eigin þingstörfum? Fer ekki betur á því að læra af mistökunum og leggja grunn að samfélagi þar sem fólkið skiptir máli og hver og einn Íslendingur getur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og mótað þannig sína eigin framtíð?

Latest posts by Páll Heimisson (see all)