Lán og ólán II: Breska ríkisstjórnin

Fyrir skömmu fjallaði Deiglan um lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands. Lánafyrirgreiðslan er afleiðing hörmulegra atburða, en af mörgum slæmum kostum er hún sá illskásti. Það lán sem rætt hefur verið um af hálfu breskra stjórnvalda er þó allt annað og verra mál. Lánið sem slíkt sem væri reyndar ekki slæmt, en það er „smáa letrið“ sem er eitraður kaleikur.

Fyrir skömmu fjallaði Deiglan um lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands. Lánafyrirgreiðslan er afleiðing hörmulegra atburða, en af mörgum slæmum kostum er hún sá illskásti. Það lán sem rætt hefur verið um af hálfu breskra stjórnvalda er þó allt annað og verra mál. Lánið sem slíkt sem væri reyndar ekki slæmt, en það er „smáa letrið“ sem er eitraður kaleikur. Því hugmynd Breta virðist hafa verið sú að samhliða láninu myndi ríkisstjórnin viðurkenna þær óbilgjörnu kröfur sem Bretar höfðu uppi um ábyrgðir IceSave bankareikninganna.

Undanfarið hefur þeim almannatengslastormsveip sem Bretar höfðu uppi og Íslendingar stóðu ráðþrota frammi fyrir slotað. Útlit er fyrir að þeir muni leyfa afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum án þess að setja Íslendingum afarkosti um IceSave ábyrgðir. indefence.is reynir að halda málstað okkar á lofti á léttan hátt, blaðagreinar og samtöl hafa birst í erlendum fjölmiðlum, og Steingrímur J. blammerar Brown á alþjóðavettvangi.

En það væru mikil mistök að halda að Íslendingar geti þvingað Breta með yfirgangi. Og þótt hugsanlegt sé að lagaleg staða okkar sé sterk þá myndi hörð lagaleg milliríkjadeila leika okkur grátt, og sennilega mun verr en Breta. Bretland einfaldlega of stórt og hagsmunirnir of miklir. Ekki er nóg með að upphæðirnar séu háar, jafnvel fyrir Breta. Verra er að samningur við Íslendinga gæti skapað fordæmi gagnvart öðrum erlendum bönkum sem starfa á Bretlandi á svipuðum forsendum og IceSave, og hafa margfalt fleiri reikningseigendur en Landsbankinn hafði.

Besta leiðin er að ná samkomulagi á grundvelli sérstöðu íslenska bankahrunsins þannig að fordæmi skapist ekki. Við Íslendingar þurfa að gera Bretum grein fyrir því að sú staða sem við stöndum frammi fyrir er ekki á nokkurn hátt sambærileg þeirri sem önnur stærri ríki sæu fram á ef þeirra bankar þeirra hryndu. Hundruð milljarða skuldir án nokkurra eigna á móti myndu sliga þjóðarbúið, og jafnver hafa heyrst útgjaldatölur sem slaga hátt í alla þjóðarframleiðslu Íslendinga.

Þeir sem fara með samningsumboð fyrir hönd Íslands ættu sjálfir að leggja áherslu á að finna lausn sem ekki er fordæmisgefandi, en ekki að bíða eftir að Bretar geri það. Íslendingar allir þurfa jafnframt að senda þau skilaboð að við munum ekki líta á hagfeldan samning sem sigur af okkar hálfu, heldur sem stórmennsku af hálfu Breta. Því þótt kröfur og framgangur Brown hafi tekið út fyrir allan þjófabálk, þá er ekki hægt að neita því að Íslendingar hafa verið með allt niður um sig.

Og þegar öldurnar lægir munum við kannski eftir því að Bretar hafa alls ekki reynst svo slæmir nágrannar. Til Íslands flykkjast nú breskir ferðamenn með mikilvægan gjaldeyri. Bretar gáfu okkur Coldplay og Radiohead, sköpuðu það umhverfi sem Björk okkar reis til frægðar í, og kveinkuðu sér mun minna en Danir þegar allt lék í lyndi og Íslendingar keyptu upp verslanir í útlöndum. Ásættanlegir samningar eru lykilatriði, en í því ferli megum við þó ekki gleyma því sem á eftir kemur.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)