Allir geta sæst á Maastricht-skilyrðin

ESB-aðild og evra er nefnd sem lausn við vanda þjóðarinnar. Sú lausn er þeim annmörkum háð að Ísland uppfyllir ekki Maastricht-skilyrðin sem ESB setur fyrir upptöku evru. Ríkisstjórnin ætti að setja sér þau markmið að ná þessum skilyrðum á næstu misserum og taka í kjölfarið endanlega ákvörðun um ESB-aðild Íslands.

Möguleg aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur skotið upp kollinum á ný eftir atburði síðustu daga og vikna og skal engan undra. Sú gagnrýni heyrist að vísu að ósanngjarnt sé að ræða ESB-aðild á jafnörlagaríkum tímum og íslenska þjóðin upplifir núna en það er varla hægt að gera þá kröfu að ESB-umræðan fari eingöngu fram þegar allt er í himnalagi. Það er einmitt þegar mikið hefur gengið á að eðlilegt er að aðrir valkostir séu ræddir. Því má hins vegar ekki gleyma að lýðræðishallinn og miðstýringaráráttan í ESB hefur ekkert minnkað þrátt fyrir að Íslendingar glími við kreppu og fiskveiðireglur sambandsins eru enn þær sömu.

Ýmsar kenningar um stjórnarslit vegna ólíkra skoðana stjórnarflokkanna á ESB-aðild eru nú á sveimi og eru býsna skrautlegar. Fyrir liggur að ekki er meirihluti á þingi fyrir ESB-aðild og ekki væri unnt að mynda ríkisstjórn um ESB-umsókn nema einhver flokkanna á þingi kúvendi sinni afstöðu í skyndingu. Þetta er staðan nú hvað svo sem síðar kann að verða. Stjórnarskipti eru það síðasta sem þjóðfélagið þyrfti núna enda ríkir gott traust á stjórnarheimilinu í þeim stóru verkefnum sem framundan eru.

Ef af ESB-aðild Íslendinga yrði er ljóst að ferlið tæki nokkur ár. Breyta þyrfti stjórnarskrá, fara í aðildarviðræður og bera niðurstöðuna undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Mestur tími færi hins vegar í að uppfylla hin svonefndu Maastricht-skilyrði sem ríki þurfa að uppfylla til þess að geta fengið fulla aðild að evrunni. Nýr gjaldmiðill og samstarf við Seðlabanka Evrópu væri trúlega helsta aðdráttaraflið með ESB-aðild eins og sakir standa og því skipti okkur miklu máli að ná þeim skilyrðum sem ESB setur fyrir aðild að Myntbandalaginu. Maastricht-skilyrðin eru fimm:

1) Verðbólga sé ekki meiri en 1,5 prósentustigum meiri en verðbólga í þeim þremur ESB-löndum sem eru með lægsta verðbólgu
2) Vextir mega ekki vera hærri en 2 prósentustigum en vextir í þeim þremur ESB-löndum sem eru með lægsta verðbólgu
3) Halli á fjárlögum má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu
4) Heildarskuldir ríkissjóðs ekki meiri en 60% af landsframleiðslu
5) Að landið hafi tekið þátt í gengissamstarfi Evrópu (ERM) í tvö ár án gengisfellingar og að gengið sé innan vikmarka*

Það þarf engan hagfræðing til að átta sig á því að Ísland uppfyllir ekki þessi skilyrði núna og er langt frá því. Vextir og verðbólga eru hærri hér en annars staðar í Evrópu og þrátt fyrir að ríkissjóður hafi verið rekinn með miklum afgangi undanfarin ár verður breyting á næstu fjárlögum þar sem mikill hallarekstur verður á ríkissjóði. Sömu sögu má segja um skuldastöðu íslenska ríkisins, hún hefur undanfarin ár verið afar hagstæð eftir að stjórnvöld hafa greitt niður skuldir undanfarin ár en viðbúið er að með þeim stóru lánum sem ríkið hefur nú í undirbúningi muni sú staða breytast.

Skilyrðin fimm eru ekki valin af tilviljun og þau eru ekki sérevrópsk. Þau eru miklu frekar almenn lýsing á heilbrigðu hagkerfi, þ.e. lágri verðbólgu og vöxtum, hagstæðri skuldastöðu, vel reknum ríkissjóði og traustu gengi – allt eru þetta eftirsóknarverð einkenni í efnahagslífi þjóða, burtséð frá því hvort aðild að ESB hangir á spýtunni eða ekki.

Þar til við náum þessum skilyrðum er tómt mál að tala um upptöku evru hér á landi. Ríkisstjórnin ætti því að róa að því öllum árum að haga hagstjórninni á næstu misserum þannig að við getum uppfyllt Maastricht-skilyrðin. Til þess þyrfti hvorki stefnubreytingu né nýjan stjórnarsáttmála, enda kveður stjórnarsáttmálinn á um að stjórnarflokkarnir stefni að lágri verðbólgu, lágu vaxtastigi, jafnvægi í utanríkisviðskiptum og traustri stöðu ríkissjóðs. Um þetta markmið ættu báðir stjórnarflokkarnir að geta sæst burtséð frá afstöðu sinni til endanlegrar aðildar að ESB. Þegar við höfum uppfyllt skilyrðin getum við tekið endanlega ákvörðun um ESB-aðild en þá mun efnahagsleg staða þjóðarinnar reyndar vera orðin önnur og betri en hún er núna. Ákvörðunin um ESB-aðild yrði því ekki tekin í efnahagslegu neyðarástandi heldur að vel yfirlögðu máli þannig að unnt væri að meta allar hliðar málsins.

*M.a. stuðst við skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands frá mars 2007

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.