Að axla ábyrgð

Mikil reiði ólgar í þjóðfélaginu enda þungt högg sem Ísland hefur fengið í magann og erfiðir tímar framundan fyrir marga. Þegar þannig stendur á er skiljanlega leitað að sökudólgum. Hverjum var þetta að kenna, hvernig er hægt að láta viðkomandi axla ábyrgð og hvernig á að styðja þá sem fara höllum fæti?

Mikið er nú rætt og bloggað um þann fámenna hóp sem felldi Ísland. Leiðtogar útrásarinnar æddu áfram í stjórnlausri græðgi og skeytingarleysi og ríkisstjórnin klappaði þá áfram eða sat í besta falli aðgerðalaus hjá. Svo rak Davíð Oddsson síðasta naglann í líkkistuna með ráðaleysi sínu á endasprettinum. Þessi kannski 30 manna hópur knésetti Ísland og ber alla ábyrgð á því ástandi sem nú er á Íslandi og mun ríkja næstu misserin. Svo einfalt er það. Eða hvað?

Vissulega uxu íslenskir bankar langt fram úr baklandi sínu og eftir á að hyggja hefði ríkissvaldið líklega átt að fylgjast betur með, og þá sér í lagi með þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem starfsemi bankanna erlendis fylgdu.

En erlendir greinendur gagnrýndu ekki bara bankana fyrir að vaxa án lánveitanda til þrautavara í erlendri mynt eða vegna þess að þeir lánuðu óvarlega til fjárfestingafélaga. Erlendir gagnrýnendur sáu líka að á Ísland var ógnvænlegur viðskiptahalli, sívaxandi skuldsetning heimilanna og þó nokkur hluti þeirrar skuldsetningar í erlendri mynt.

Íslenskir neytendur, eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum, gripu tækifærið þegar nóg var af lánsfé, skuldsettu sig, stækkuðu við sig í húsnæði og neyttu á meðan á nefinu stóð, hvað sem öllum varnaðarorðum leið, meðal annars orðum úr Seðlabankanum.

Skuldsetning heimilanna er það sem nú bítur Íslendinga hvað verst. Skuldir koma alltaf á gjalddaga og það hefðu þær gert hvað sem lausafjárstöðu bankanna hefði liðið. Allir greiningaraðilar bjuggust við hrinu fyrirtækjagjaldþrota og erfiðleika skuldsettra einstaklinga löngu áður en ljóst var að bankarnir myndu falla. Erfiðleikar skuldsettra heimila nákvæmlega núna er umfram allt að kenna ákvörðunum einstaklinga um að taka lán sem þeir höfðu ekki bolmagn til að endurgreiða. Seðlabankinn gerði sem hann gat til að reyna að gera lán dýr, einhverjir tóku áhættuna á því að taka lán í erlendri mynt með þá von í brjósti að það yrði ódýrara og eru nú að gjalda fyrir þá áhættusækni sína.

Mikið hefur verið rætt um “frystingu” margs konar. Ríkisstjórnin hefur beint tilmælum til bankanna um að frysta erlend lán. Vel má vera að skynsamlegt sé að fresta greiðslum rétt á meðan unnið er að því að koma að gjaldeyrismarkaði aftur á réttan kjöl. En eftir að hann er farinn að virka þá verða þeir sem skulda erlendan gjaldeyri að greiða hann. Sama á við um þá sem skulda verðtryggð lán. Breyting lána eftir á er hreinlega eignatilfærsla frá skuldunautum til skuldara eins og áður hefur komið fram hér á Deiglunni. Þetta stangast á við grundvallaratriði um að samningar og eignarréttur séu virtir. Það að samningar og eignaréttur séu virtir er lykilatriði í því að þjóðfélagið og hagkerfið nái sér aftur á fætur. Þau samfélög sem virða þessar reglur eru þau samfélög sem ná hagvexti til langframa og þau samfélög sem virða ekki þessar reglur sitja eftir. Það að svindla einu sinni þýðir að trúverðugleiki samninga er farinn til langs tíma.

Síðan er líka einfaldlega erfitt að finna réttlæti í því að þeir sem hvað hraðast fóru í skuldsetningum og lánum fái nú peninga upp í hendurnar, hvort sem það er með því að taka pening af skuldunautum þeirra eða ríkinu og þar með öðrum skattborgurum. Félagsleg samhjálp á ekki að vera í hlutfalli við vilja til lántöku. Það nær heldur enginn hefndum á Hannesi Smárasyni eða Jóni Ásgeiri með því að láta ríkiskassann dæla fé í þá sem geta ekki greitt sínar skuldir.

Engu af ofansögðu er ætlað að hreinsa einhverja af sinni sök. Það þarf hver að axla sína ábyrgð í hlutfalli við mistök sín og ef einhvers staðar hefur verið farið á svig við lög á að sjálfsögðu að rannsaka það og saksækja eins og lög segja til um.

Áhrifa hruns bankanna mun gæta í langan tíma. Lífeyrissjóðirnir taka á sig mikið tap vegna sinna fjárfestinga í bankakerfinu og allt útlit er fyrir að ríkið þurfi líka að skuldsetja sig vegna skuldbindinga á erlendum innistæðum þótt auðvitað voni allir að það verði sem minnst.

Þetta mun þýða meira atvinnuleysi, hærri skatta og lægri lífeyri í nánustu framtið sem og gjaldþrot einstaklinga. Það er þetta ástand sem þarf að vinna úr. Það þarf að ákveða hvernig skipta á skattbyrðinni á réttlætan hátt á næstu árum og misserum til að þjóðin geti unnið sig upp úr þessu. Einnig þarf væntanlega að draga úr því höggi sem gjaldþrot einstaklinga er með því að breyta og mýkja lög um gjaldþrot tímabundið. Með þessu verða þeir sem ógætilega fóru ekki verðlaunaðir en öllum gefinn möguleiki á að vinna sig út úr erfiðleikunum.

Hún er dýr lexían sem Íslendingar munu og eru að læra. Lærdómurinn er mikill en hann má ekki verða sá að við yfirgefum algjörlega leikreglur vestrænna hagkerfa um eignarrétt, gilda samninga og frjálsan markað. Hver verður áfram að taka afleiðingum sinna gjörða og vita að slíkt gildi líka um aðra.