Til varnar lífskjörum almennings

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra stendur erfiða vakt um þessar mundir. Framundan eru kjarasamningar við fjölmarga hópa opinberra starfsmanna sem gerar kröfur um miklar launahækkanir í kjölfar einstæðra samninga sem gerðir voru við ljósmæður nú á dögunum.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra stendur erfiða vakt um þessar mundir. Framundan eru kjarasamningar við fjölmarga hópa opinberra starfsmanna sem gerar kröfur um miklar launahækkanir í kjölfar einstæðra samninga sem gerðir voru við ljósmæður nú á dögunum.

Flestir eru sammála um það að verðbólgan sé sá skaðvaldur í íslenskum efnahagsmálum sem brýnast sé nú að koma böndum á. Sú verðbólga sem nú geisar stafar af gengislækkun ólíkt því sem áður var þegar víxlhækkun launa og verðlags skapaði óðaverðbólgu. Við slíkar aðstæður verður verðbólgan illviðráðanleg og kaupmátturinn í stórkostlegri hættu. Óraunhæfar og óábyrgar launakröfur einstakra hópa opinberra starfsmanna eru þannig í raun aðför að lífskjörum almennings í landinu.

Það var því ekki að ástæðulausu sem forsætisráðherra lýsti því yfir skömmu áður en samið var við ljósmæður að samningar við þann hóp væru sérstakir og hefðu ekki foræmdisgildi fyrir aðra hópa opinberra starfsmanna. Með samningunum við ljósmæður var fylgt því stefnumiði ríkisstjórnarinnar að leiðrétta laun hefðbundinna kvennastétta, jafnvel þótt forsendur fyrir slíkri launahækkun væru ekki fyrir hendi.

Ef aðrir hópar ætla að taka mið af samningi ljósmæðra í komandi kjarasamninga eru þeir umfram allt að senda þau skilaboð að stjórnvöld geti aldrei undir neinum kringumstæðum tekið pólitíska ákvörðun um að bæta kjör tiltekins hóps. Sú samúð og sá stuðningur sem ljósmæður nutu hjá öðrum hópum hefur þá í raun verið fals til þess ætlað að skara eld að eigi köku.

Ljóst er að mikið mun mæða á fjármálaráðherra á komandi vikum og mánuðum. Hann mun ekki einungis þurfa að gæta hagsmuna ríkissjóðs og skattgreiðenda heldur í raun alls almennings með því að koma í veg fyrir að óraunhæfar og óbilgjarnar kröfur opinberra starfsmanna leiði ekki til stórkostlegrar lífskjaraskerðingar almennings með víxlverkunum launa og verðlags.

Við þær aðstæður er vissulega gott til þess að vita að þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar er stór og því ekki sama hætta á því að samstaðan rofni vegna þrýstings á einstaka þingmenn. Það er engu að síður gríðarlega mikilvægt, allra hluta vegna, að fjármálaráðherra fái stuðning frá þingmeirihlutanum og ekki síst frá samstarfsmönnum sínum í ríkissjórn í því erfiða verkefni sem hann á fyrir höndum.

Að vissu marki má segja að þeir kjarasamningar sem nú eru framundan við opinbera starfsmenn séu prófsteinn á styrk og heilindi ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)