Þegar lögregluaðstoðin bregst

Fyrir rúmri viku síðan varð pislahöfundur ásamt vinkonum fyrir fólskulegri líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur. Símtal okkar til lögreglu finnst ekki og lýsing okkar á árásarmanni ekki heldur. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins lofaði að athuga málið og við bíðum enn eftir svörum.

Aðfaranótt laugardags fyrir rúmri viku fór pistlahöfundur ásamt vinkonum í miðbæ Reykjavíkur. Slíkar ferðir verða æ sjaldnar eftirsóknarverðar enda má segja að Reykjavík sé að verða hálfgerð glæpaborg þar sem fólk má eiga það á hættu að verða annað hvort rænt eða barið. Gleði í heimahúsi með góðu fólki á frekar uppi á pallboðið enda ólíklegt að slík gleði endi með ráni eða barsmíðum.

Umrætt kvöld fórum við á vinsælan stað í Bankastræti. Pistlahöfundur var akandi og hafði því ekki áfengi um hönd. Þegar klukkan var að verða fjögur ákváðum við vinkonurnar að segja þetta gott og fórum. Í stað þess að ganga Lækjargötu í átt að bílnum, sem lagt var við MR, ákváðum við að taka styttri leið og labba upp Þingholtsstrætið.

Þegar við erum að ganga upp strætið kemur að okkur útlendingur, þjóðernið er óvíst a.m.k var hann ekki enskumælandi. Hann skoppast þarna með okkur einhvern spöl, lætur leiðinlega og talar virkilega dónalega. Býður í kynlífspartý og annað miður geðslegt.

Eftir fréttir undanfarið um rán og líkamsárásir í miðbænum bað ég stelpurnar að sýna honum engan áhuga og svara ekki þeim sora sem hann spýtti út úr sér. Þolinmæði þeirra var þó öllu minni en mín og svo fer að ein þeirra biður hann vinsamlega að koma sér í burtu. Eitthvað féll það í grýttan jarðveg hjá manninum því í kjölfarið hrækir hann á hana. Henni sem næst stóð varð svo mikið um að ósjálfrátt hrækti hún til baka.

Það sem gerðist næst grunaði okkur aldrei að myndi henda okkur. Maðurinn stekkur upp og sparkar (eins og fótboltamenn taka bolta viðstöðulaust í loftinu) í höfuðið á einni vinkonunni, beint á gagnaugað. Hún vankast við höggið og grúfir sig á fangið á pistlahöfundi sem stóð næst henni. Þetta var ekki nóg því aftur reynir hann sömu tilþrif en mistekst þó í þetta sinn þar sem ég næ að draga hana í burtu. Eftir þetta hleypur hann bölvandi á brott.

Fyrstu viðbrögð okkar voru að hringja í 112 og tilkynna þessa fólskulegu árás. Okkur var gefið samband við Lögregluna í Reykjavík. Lögreglan hlustar á hvað hafði gerst en kippir sér þó lítið upp við það. Þegar undirrituð heyrir að ekki er farið fram á lýsingu á manninum bið ég vinkonu mína að gefa lögreglumanninum í símanum lýsingu. Hann þáði það en bauð ekki aðstoð að öðru leyti.

Sú sem höfuðhöggið fékk bar sig vel og sagði að þrátt fyrir hausverk myndi þetta verða í lagi, bráðamóttakan hefði lítið að segja nema maður kæmi inn með sýnlega áverka. Við ákváðum því að fara niður í miðbæ, hafa þar uppi á lögrelgu á vakt og gefa lýsingu. Á horninu hjá Einari Ben hittum við miðbæjarlögregluna. Við gáfum þeim mjög nákvæma lýsingu á árásarmanninum og viðkomandi lögregluþjónn skrifaði þetta samviskusamlega niður, bað þó ekki um númer okkar né annað.

Pistlahöfundur var ekki alveg tilbúinn að bíta úr nálinni með viðbrögð lögreglu og hafði daginn eftir samband við félaga sinn sem var á vakt umrætt kvöld. Hann kannaði málið en fann ekkert skráð, enga tilkynningu um árás né lýsingu á árásarmanni sem við höfðum samviskusamlega veitt miðbæjarlögreglunni.

Viðbrögð lögreglu er í besta falli hægt að kalla “sérkennileg”, a.m.k. notaði lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins þau orð þegar pistlahöfundur hafði samband og lýsti undrun sinni á vinnubrögðunum. Okkur var lofað að málið yrði skoðað og fulltrúi fjarskiptamiðstöðvar lögreglu hringdi og sagðist ætla að skoða málið, finna símtalið og vonandi útskýra hvernig það gat horfið.
Síðan er liðin rúm vika og enn hefur ekkert heyrst. Hvernig er hægt að halda tölfræði yfir árásir í miðborginni þegar svona mál detta bara milli skips og bryggju?

Dæmi hafa sýnt að það að fá hnefahögg á gagnaugað getur drepið fólk. Að fá spark í höfuðið hefur líka drepið fólk enda höfuðið viðkvæmasti líkamshlutinn. Að bjóða ekki aðstoð þegar fólk hringir og tilkynnir slíka árás er mér hreinasta ráðgáta. Við þökkum þó fyrir að vinkonan var stálslegin þrátt fyrir bólgur og líklega hefur árásarmaðurinn verið í það mikilli vímu að kraftar hans voru af skornum skammti.

Lögreglan þarf klárlega að endurskoða vinnubrögð sín og viðbrögð við símtölum eins og okkar. Það er slæmt að verða fyrir árás en ekki síst verra þegar lögregluaðstoðin klikkar eins og hún gerði þetta kvöld.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.