Stjórnmálamenn og sendiboðar

Er það virkilega svo að fulltrúar Samfylkingarinnar í Evrópunefndinni hafi ekki meiri trú á hinu lýðræðislega gangverki í Evrópusambandinu en svo að kjörnir fulltrúar aðildarþjóðanna hafi ekkert um málin að segja? Ef svo er, þá eru það miklu meiri tíðindi en þau sem hingað til hafa borist af heimsókn Evrópunefndarinnar til Brussel.

Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar er þessa dagana í Brussel til að fylgja eftir því stefnumiði sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum að kanna hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið gagnvart Evrópusambandinu en sú vinna fer samkvæmt sáttmálanum fram á grundvelli skýrslu sem Evrópunefndin vann undir forystu Björns Bjarnasonar.

Eitt af því sem komið hefur til tals á fundum nefndarinnar með embættismönnum ESB er mögulegt myntsamstarf á grundvelli EES-samningsins. Skemmst er frá því að segja að embættismennirnir hafa ítrekað fyrri afstöðu sína um að slíkt sé ekki mögulegt án þess að því fylgi sérstakur rökstuðningur af þeirra hálfu. Það ætti auðvitað ekki að koma neinum á óvart að stækkunarstjóri ESB telji stækkun sambandsins betri kost en myntsamstarf á grundvelli EES.

Annar formanna nefndarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur tekið að sér það hlutverk að gerast sendiboði embættismannanna í Brussel og endurómar sjónarmið þeirra í fjölmiðlum hér heima. Sama má segja um fleiri svokallaða Evrópusérfræðinga hér á landi, sem flestir eiga það reyndar sameiginlega að hafa um lengri eða skemmri tíma haft lifibrauð af erindrekstri fyrir ESB.

Rétt er að minna Ágúst Ólaf og aðra íslenska jafnaðarmenn á að í samningum milli fullvalda ríkja er það hinn pólitíski vilji sem skiptir máli á endanum. Víst er að stjórnmálamennirnir í ESB munu mjög horfa til sjónarmiða embættismannanna en það breytir væntanlega ekki því að valdið er í höndum stjórnmálamannanna. Hvernig halda íslenskir jafnaðarmenn annars að Jón Baldvin Hannibalsson, átrúnaðargoð þeirra og andlegur leiðtogi, hafi samið um EES-samninginn? Með því að enduróma sjónarmið embættismanna eða með því að freista þess að ná markmiðum sínum með eftir pólitískum leiðum?

Ef það er skoðun Ágústs Ólafs og annarra sem vilja fyrir alla muni ganga í Evrópusambandið að hið endanlega vald í málefnum ESB liggi hjá embættismönnunum í framkvæmdastjórninni en ekki hjá stjórnmálamönnunum, þá væri forvitnilegt að þeir greindu jafnframt frá því, með hvaða hætti aðkoma okkar Íslendinga að þeirri stofnun yrði ef við ákvæðum að ganga sambandinu á hönd.

Er það virkilega svo að fulltrúar Samfylkingarinnar í Evrópunefndinni hafi ekki meiri trú á hinu lýðræðislega gangverki í Evrópusambandinu en svo að kjörnir fulltrúar aðildarþjóðanna hafi ekkert um málin að segja? Ef svo er, þá eru það miklu meiri tíðindi en þau sem hingað til hafa borist af þessari heimsókn.

Ekki er útilokað að til þess komi á næstu árum að hagsmunir Íslendinga standi til þess að ganga í Evrópusambandið. Þá er eins gott að við borðið sitji einhverjir aðrir en sendiboðar og undirlægjur framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)