Sjálfstæðir skólar

Undanfarin ár hefur fjölbreytni í skólastarfi á grunnskólastigi aukist verulega, en það er breyting frá því sem áður var þegar skólarnir voru alfarið á höndum ríkisins.

Undanfarin ár hefur fjölbreytni í skólastarfi á grunnskólastigi aukist verulega, en það er breyting frá því sem áður var þegar skólarnir voru alfarið á höndum ríkisins. Nú tólf árum eftir að grunnskólarnir voru fluttir til sveitarfélaganna má merkja breytingar í skólastarfi, en betur má ef duga skal. Í liðinni viku var tilkynnt um opnun nýs einkarekins grunnskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar, í Reykjavík. Skólinn er rekinn á grundvelli laga um grunnskóla og aðalnámskrár grunnskóla líkt og aðrir grunnskólar, en skólinn fylgir hugmyndafræði og kennsluháttum Hjallastefnunnar. Skólarekstrarfyrirtækið Hjallastefnan ehf er umsvifamesta fyrirtækið af þessu tagi, en það rekur átta leikskóla á grundvelli þjónustusamninga við sveitarfélög víða um land og tvo barnaskóla á grunnskólastigi í Hafnarfirði og Garðabæ.

Staða sjálfstæðra skóla hefur styrkst mikið undanfarin ár, annars vegar með breytingu á grunnskólalögum árið 2006 þar sem menntamálaráðherra var gert heimilt að viðurkenna grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum ásamt því að skólarnir eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar. Og hins vegar af því að nú eru forráðamenn ekki bundnir við að setja börn sína í ákveðinn hverfisskóla, heldur er þeim frjálst að velja þann skóla sem hentar best út frá sínum eigin forsendum. Það er fagnaðarefni að nemendur og forráðamenn þeirra hafi frjálst val um grunnskóla óháð rekstraformi þeirra, það er nýjung og nýtt viðhorf til þeirra sjálfstæðu skóla sem reknir eru í borginni. Þessar breytingar hafa haft jákvæðar afleiðingar í för með sér og orðið til þess að skólar hafa farið út í það að reyna að marka sér sérstöðu að einhverju leiti, hvort sem um er að ræða opinbera skóla eða einkarekna. Ljóst er að með auknu sjálfstæði skólanna og ábyrgð stjórnenda rekstri þeirra er hægt að byggja upp fjölbreyttara fyrirkomulag þar sem skólarnir vinna að skólastarfi út frá ákveðnum hugmyndafræðilegum áherslum. Til verður raunverulegt val fyrir foreldra sem gera sjálfsagðar kröfur um menntun barna sinna. Nauðsynlegt er að valfrelsi sé til staðar á öllum stigum skólakerfisins og að sjálfstæðum skólum sé tryggður jarðvegur þar sem þeir geta dafnað og verið dýrmæti viðbót við það skólakerfi sem fyrir er.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.