Þá tveir deila

Á næstu tíu árum mun tæpur helmingur starfandi ljósmæðra hverfa úr stéttinni þegar þær fara á eftirlaun. Nýliðun er ekki að standa undir þessu brottfalli og fyrirsjáanlegt að þjónusta í kringum barnsfæðingar mun skerðast stórlega verði ekkert að gert. Stjórnvöld verða að tryggja ljósmæðrum réttlát laun en ljósmæður þurfa að vera tilbúnar að semja.

Kjarabarátta ljósmæðra hefur staðið yfir undanfarnar vikur og hafa ljósmæður gripið til tveggja skyndiverkfalla. Staða þessa hóps er sérstök, einkum í ljósi þess að í launakerfi þeirra er innbyggð sú undarlega skekkja að það borgar sig ekki fyrir þær að bæta tveggja ára ljósmóðurnámi við fjögurra ára hjúkrunarfræðinganám sitt, miðað við að vinna þessi tvö ár. Það er uggvænlegt að heyra að á næstu tíu árum muni tæpur helmingur starfandi ljósmæðra hverfa úr stéttinni þegar þær fara á eftirlaun. Nýliðun er ekki að standa undir þessu brottfalli og því fyrirsjáanlegt að sú góða þjónusta sem Íslendingar njóta í kringum barnsfæðingar mun skerðast stórlega verði ekkert að gert.

Ljósmæður veita verðandi foreldrum þjónustu meðan á meðgöngu stendur, í sjálfri fæðingunni og svo varðandi umönnun barnsins. Á meðgöngu mæta foreldrar í reglulega mæðraskoðun þar sem ljósmæður fylgjast með að allt gangi eðlilega og gæta þess að hægt verði að grípa inn í tímanlega ef eitthvað kemur upp á. Við fæðingar taka ljósmæður á móti börnunum og styðja mæðurnar gegnum þessa átakareynslu. Eftir fæðingu hlúa ljósmæður að mæðrum og börnum og veita foreldrum upplýsingar áður en farið er heim með nýjasta fjölskyldumeðliminn. Auk þess sinna þær mikilvægri upplýsingagjöf til foreldra, m.a. á vefsíðunni www.ljosmodir.is. Það er ekki að ástæðulausu að Ísland er með lægstu tíðni ungbarnadauða í heiminum.

Vissulega má gera lista yfir mikilvægi allra starfstétta og færa rök fyrir því að gera eigi betur við þær í launum. En það er ekki hægt að segja um allar starfstéttir að þær séu jafn undirlaunaðar og raunin er með ljósmæður. Það er ekki verið að beita neinni talnaleikfimi þegar á það er bent að sex ára háskólanám ljósmæðra skilar lægri launum en aðrar stéttir með sambærilegt nám að baki eru með. Ljósmæður segja þennan mun vera 25% og krefjast þess að laun þeirra verði leiðrétt sem því nemur.

Það er ótækt viðhorf að ekki megi hækka laun einnar stéttar af ótta við að það hrindi af stað holskeflu krafna um launahækkanir og það ætti sannarlega ekki að vera viðkvæðið í þessum aðstæðum. En einhversstaðar verður að setja mörkin. Ljósmæður vilja leiðréttingu sinna kjara á einu bretti og hafa þær hvergi slegið af kröfum sínum þrátt fyrir tilboð frá stjórnvöldum um 18% hækkun launa. Það er miður að ljósmæður hafi ekki náð betri kjarasamningum hingað til en 25% hækkun í einu lagi er of stór biti. Það er ekki nú eða aldrei. Stjórnvöld og ljósmæður verða að ná saman í kjaraviðræðunum með sett markmið um að laun ljósmæðra muni í næstu skrefum verða leiðrétt að fullu.

Mikilvægi ljósmóðurstarfsins er óumdeilt og sama má segja um þá hættu sem steðjar að stéttinni vegna lélegra launa. Ef við viljum halda þjónustu í kringum barnsburð í sama gæðaflokki og hún er og halda áfram að vera með lægstu tíðni ungbarnadauða í heiminum þá er vissara að við tryggjum mönnun ljósmæðrastéttarinnar til frambúðar.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.