Rétt skipað í hlutverk

Eftir umræður um efnahagsmál á Alþingi í gær þarf enginn að velkjast í vafa um að verkaskiptingin í íslenskum stjórnmálum er rétt.

Eftir umræður um efnahagsmál á Alþingi í gær þarf enginn að velkjast í vafa um að verkaskiptingin í íslenskum stjórnmálum er rétt. Við stjórnvölinn er fólk sem hægt er að treysta á að takist á við vandamál og verkefni af yfirvegun og festu en stjórnarandstaðan hefur nákvæmlega ekkert fram að færa.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sýndi fram á það í ræðu sinni að allt tal um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, sem fjölmiðlar hafa gleypt hrátt upp eftir hávaðamönnum, er út í bláinn. Rakti forsætisráðherra þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á síðustu misserum til að sporna við áhrifum fjármálakreppunnar sem herjar á heimsbyggðina. Gjaldeyrisforði ríkisins hefur verið fimmfaldaður á síðustu misserum og nemur nú 500 milljörðum króna. Þá hefur íslenska ríkið með nýjustu lántöku sinni upp á 30 milljarða sýnt fram á getu sína til að taka fé að láni á hagstæðum kjörum og þau skilaboð eru mjög mikilvægi fyrir íslenskt fjármálakerfi.

Forsætisráðherra gerði ekki lítið úr þeim erfiðleikum sem Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir heims, stæðu frammi fyrir um þessar mundir og sagði það vissulega bæði erfitt og sársaukafullt að sætta sig við versnandi lífskjör. Hitt væri þó sýnu verra að neita að rifa seglin þegar ágjöfin væri mikil eins og nú. Hann sagði réttilega að allir þyrftu að búa sig undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt um hríð.

Það sem skiptir hins vegar mestu máli er að vel hefur verið búið í haginn á síðustu árum og enginn vafi er á því að íslenska þjóðin, almenningur, fyrirtæki og ríkissjóður, hafur aldrei verið eins vel í stakk búin til að standast ágjöf í efnahagslífinu. Uppsveiflan var notuð til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, safna í digra sjóði og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og þar með verðmætasköpunina í þjóðfélaginu.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar voru samstíga í málflutningi sínum um að lífskjör hér á landi myndu batna hratt þegar í gegnum brimskaflinn væri komið og að undirstaða næsta uppgangstíma yrði byggð á aukinni framleiðslu, nýtingu mannauðs og annarra auðlinda sem íslenska þjóðin býr yfir. Þar skilur auðvitað á milli stjórnar og stjórnarandstöðunnar sem virðist trúa því statt og stöðugt að töfrabrögð og skyndilausnir séu þau meðöl sem best duga.

Framganga forystumanna stjórnarandstöðunnar í umræðunum í gær er sérstakt umhugsunarefni. Tilvistarkreppa Framsóknarflokksins hefur nú holdgerst í Guðna Ágústssyni, formanni flokksins, og sú spurning hlýtur að gerast æ áleitnari þar á bæ hvort von sé á því að flokkurinn nái fyrri styrk þegar við stjórnvölinn er maður sem hefur þá kosti mesta að vera fyndinn á þorrablótum. Steingrímur J. Sigfússon minnti helst á þáttinn Sjónvarp næstu viku sem var á dagskrá RÚV á 9. áratugnum, bæði fyrirsjáanlegur og innihaldslaus. Guðjón Arnar lýsti yfir áhyggjum sínum af gangi mála en þar sem kvótakerfið var ekki til umræðu sem slíkt var ekki mikið púður í hans málflutningi.

Það er gott til þess að vita í þeim erfiðleikum sem nú er við að etja í íslensku efnahagslífi að hlutverkaskipan í íslenskum stjórnmálum er rétt.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)