Hagsmunir hinna fáu

Sem stendur starfa tvö hagsmunasamtök framhaldsskólanema á Íslandi, Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema og Samband íslenskra framhaldsskólanema. Starfsemi og markmið þeirra eru alls ólík og skipta framhaldsskólarnir sér nú þegar í tvær fylkingar eftir því hvor samtökin þeir aðhyllast.

Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, hefur nú starfað í tæpt ár. Á þeim tíma hafa samtökin reynt ótrúlegustu hluti til að seilast til áhrifa, jafnt innan framhaldsskólanna sem utan.
Sambandið hefur aðgang að ákaflega miklu fjármagni. Aðildarskólarnir greiða 300 krónur til samtakanna fyrir hvern nemanda sinn, en auk þess er í fjárlögum gert ráð fyrir styrk frá Menntamálaráðuneytinu um 5.8 milljónir á árinu 2008.

Ekki er óeðlilegt að einhverjir spyrji sig til hvers í ósköpunum hagsmunasamtök framhaldsskólanema þurfi á viðlíka fjármagni að halda, enda verkefni þeirra af skornum skammti. Framhaldsskólanemar hafa það óvíðar betra en á Íslandi.

Það þarf því ekki að koma á óvart að sambandið hefur brugðið á það ráð að skapa sér langan verkefnalista svo starfsmenn samtakanna sitji nú ekki auðum höndum á skrifstofunni. Það væri í sjálfu sér gott og blessað ef SÍF hefði ekki valið sér að berjast fyrir umdeildum pólitískum álitamálum sem minna óþægilega á menntastefnu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar. Fjármagnið er jafnframt ötullega nýtt til að borga undir ferðir forkólfa SÍF innan lands og utan.

Það er ólíðandi að samtök sem þykjast tala fyrir munn allra framhaldsskólanema skuli voga sér að beinlínis beita sér gegn hagsmunum og lífsskoðunum hluta þess sama hóps. Þannig er fráleitt að SÍF skuli beita sér fyrir niðurfellingu skóla- og innritunargjalda, niðurgreiðslu námsbóka og efniskostnaðar og svona mætti áfram telja.
Jafnframt hlýtur það að rýra trúverðugleika hagsmunasamtaka á borð við SÍF að þiggja háar fjárhæðir frá sömu aðilum og hagsmunagæslan sjálf snýr að, Menntamálaráðuneytinu. Það er eins og ef Alcan væri stærsti bakhjarl Saving Iceland!

SÍF telur jafnframt til verkefna sinna að bæta kaup og kjör framhaldsskólanema, og virðist þar með líta á sig sem einhvers konar stéttarfélag. Þar er um algjöran hlutverkarugling að ræða, enda undarlegt að hagsmunasamtök nema skuli jafnframt ætla að gæta þeirra í fjölbreyttum störfum á vinnumarkaði. Eðlilegra væri að láta hefðbundnum stéttarfélögum það eftir.

Hagsmunasamtök framhaldsskólanema eiga að starfa eins og Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskóla. HÍF er rekið á grundvelli þeirrar hugsjónar að hagsmunagæsla hvorki þurfi né eigi að kosta formúgu til að skila árangri og áherslan eigi að vera á þau mál sem raunveruleg samstaða ríkir um – ekki á pólitísk álitamál. Þannig er ávinningur hins almenna framhaldsskólanema mestur.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)