Googlið tekur nýja mynd

Í dag ætlar Google að koma með nýja vafra, Google Chrome. Þetta gera þeir þótt þeir hafi verið aðalstuðningsaðilar Firefox vafrans. Þetta gefur hins vegar vísbendingar um hvert Google ætlar að stefna í framtíðinni.

Það fer kannski ekki mikið fyrir þessum degi hjá flestum, mbl.is á sínum stað og Deiglan líka. En í dag er dagurinn sem Google ætlar að breyta því hvernig við vöfrum á netinu, en þeir ætla að koma með nýjan og eigin vafra, Google Chrome. Orðrómur hefur verið í gangi í 2 ár um að þeir séu að þróa eigin vafra, nú hefur komið á ljós að þetta var á rökum reist.

Google hefur verið einn af aðalkostunaraðilum Mozilla Firefox vafrans sem í dag hefur um 20% markaðshlutdeild. Google endurnýjaði þann samning í seinustu viku. Það skýtur því nokkuð skökku við að þeir séu að fjármagna þennan vafra um leið og þeir eru sjálfir á fullu að þróa sinn eigin. Ekki síst þar sem nýi vafrinn mun til að byrja með fyrst og fremst koma niður á markaðshlutdeild Firefox.

Vafranum er hins vegar fyrst og fremst beint gegn Internet Explorer vafranum frá Microsoft. Microsoft hefur hins vegar algjöra sérstöðu, þar sem vafrinn fylgir með flestum nýjum vélum. Það er því undir notandanum komið að ákveða sjálfur að sá vafri sé ekki nógu góður og að sækja á netinu nýja vafra. Það er því á brattan að sækja fyrir þessa vafra og er 20% hlutdeild ótrúlega góður árangur.

Upplýsingar um nýja vafrann láku út þegar starfsmenn Google sendu frá sér kynningarefni of snemma, en það er sérstök teiknimynd þar sem hann er kynntur. Ólíkt eldri vöfrum, sem eru allir þróaðir úr gömlum vöfrum sem byggðu á textaumhverfi, er vafri Google í sjálfu sér ekki byltingarkenndur þrátt fyrir að Google segi að þeir hafi sest niður og hugsað frá grunni hvernig þeir vildu hafa vafra. Helstu kostir eru líklega betri nýting á minni, hraðvirkari vafri og svo ný vél til að keyra java skriftur.

En til hvers er Google að þróa nýja vafra? Þeir hafa jú verið aðal bakhjarlar Mozilla, sem hefur staðið sig vel í samkeppninni við Microsoft. Með tilkomu þessa nýja vafra munu þeir byrja á að ryðja sínum eigin samstarfsaðila út af markaðnum. Ástæðan fyrir þessu er líklega sú að Google vill tryggja hvernig efni frá sér birtist endanlegum notenda en þróunin á næstunni mun væntanlega vera í áttina að miðlægari vinnslu. Þú getur haft aðgengi og unnið í skjölunum þínum hvar sem er og hvenær sem er. Google er þegar farið að bjóða upp á þetta í mjög takmörkuðu mæli með Google docs en með takmörkunum á vafra er það ekki sama upplifun eins og vinna með hefðbundið ritvinnsluforrit.

Það er alveg ljóst að vafrinn er upphafið og lykilinn að meira spennandi hlutum frá Google, það verður gaman að fylgjast með þeim vörum sem þeir ætla að koma með í kjölfarið. Með þessu má þó vera ljóst að þeir ætli sér stóra hluti í miðlægri vinnslu.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.