Obama-vika

Harkan vex stöðugt í keppni Demókrata og Repúblikana um Hvíta húsið og Barack Obama og John McCain skiptast á að fanga sviðsljós fjölmiðla. Þessa vikuna verður Obama þó væntanlega meira í fréttum, þökk sé tilkynningu um varaforsetaefni um helgina og ræðu hans á landsþingi Demókrata í Denver á fimmtudaginn.

Harkan vex stöðugt í keppni Demókrata og Repúblikana um Hvíta húsið og Barack Obama og John McCain skiptast á að fanga sviðsljós fjölmiðla. Þessa vikuna verður Obama þó væntanlega meira í fréttum, þökk sé tilkynningu um varaforsetaefni um helgina og ræðu hans á landsþingi Demókrata í Denver á fimmtudaginn.

Val Barack Obama á varaforsetaefni kom kannski ekki mikið á óvart, en þó velta margir fyrir sér hvort Joe Biden sé sá rétti fyrir Obama. Söluræða Obama fyrir Biden er einföld; þrautreyndur stjórnmálamaður sem hefur haldið í alþýðurætur sínar þrátt fyrir langan feril í Washington. Biden er 65 ára öldungadeildarþingmaður frá Delaware sem hefur ávallt vakið athygli á 36 ára ferli sínum í þinginu, bæði fyrir umfangsmikla þekkingu og skilning á alþjóðamálum en ekki síður fyrir umdeild ummæli.

Biden á að öllum líkindum eftir að gefa Obama það sem George Bush eldri gaf Ronald Reagan í slagnum við Jimmy Carter árið 1980. Þá, eins og núna, var almenn óánægja með stöðuna í Bandaríkjunum en stöðugleiki Reagans í alþjóðamálum var dreginn verulega í efa. Val hans á Bush, ásamt góðri frammistöðu í kappræðum, gaf framboði Reagans aukinn þunga og trúverðugleika sem skilaði honum öruggri kosningu til forseta.

Gagnrýnendur ákvörðunar Obama benda þó meðal annars á að Hillary Clinton stóð sig mun betur í kappræðum en Biden, á meðan þau voru enn að keppast um útnefningu Demókrataflokksins, auk þess sem hún nær betur til stórs hóps innan flokksins, ekki hvað síst kvenna. Það virðist þó hafa verið ómögulegt fyrir Obama og Clinton að ná saman eftir hatramman slag.

Valið á Biden bendir til þess að þó svo boðskapur Obama um von og breytingar verði ennþá í forgrunni baráttunnar er verið að tryggja baklandið og höfða sterkar til þeirra kjósenda sem enn eru óákveðnir og vilja bitastæðari kosningaloforð en útópískar draumsýnir. Biden gefur framboði Obama nýja vídd án þess að hugsjónum framboðsins sé fórnað. Ekki skemmir heldur fyrir að báðir eru þeir afar færir ræðumenn þó ólíkir séu; Obama beitir varkárri fágun á meðan Biden er beinskeyttari og oft litríkari.

Ræðuhæfileikar Obama verða reyndir til hins ítrasta á fimmtudaginn þegar hann stígur fram fyrir skjöldu á landsþingi Demókrataflokksins og tekur formlega við útnefningu flokksins. Þar má búast við að langur lokaspretturinn hefjist af fullri alvöru með þrumuræðu frá Obama, því hann þarf svo sannarlega á því að halda að flokkurinn fylkist allur að baki honum.

Þar verður einnig fróðlegt að fylgjast með framgöngu Hillary Clinton við að sameina flokkinn og mikið veltur á að henni takist að sannfæra fylgismenn sína sem enn hafa ekki samþykkt Obama sem forsetaefni flokkins. Hennar skilaboð munu enn fremur skipta miklu máli ef Demókrötum á að takast að höfða betur til óákveðinna kvenkjósenda sem margar hafa miklar mætur á Hillary.

Eftir nokkra daga gætu átakalínur Obama-framboðsins skýrst verulega og spennandi að sjá hvernig slagurinn við McCain þróast í kjölfarið. Forsetakosningarnar 2008 stefna í að verða sögulegar.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)