Úti er ævintýri

Tvö bestu handboltalið í heimi mættust í úrslitum Ólympíuleikanna. Íslenska landsliðið var annað þeirra. Ævintýrið er úti en eftir stendur sögulegur árangur og ein stærsta stund íslenskrar íþróttasögu.

Þegar íslenska handboltalandsliðið hélt til Peking til að keppa á Ólympíuleikunum voru væntingar landsmanna í besta falli hóflegar. Það er nokkuð merkilegt að hugsa til þess að Íslendingar taki því sem sjálfsögðum hlut að íslenska landsliðið taki þátt í úrslitamótum í handbolta á heimsvísu. Þrátt fyrir að fótboltinn ber höfuð og herðar yfir aðrar íþróttir hér á landi hvað vinsældir, aðsókn og áhorf varðar, þá er engum blöðum um það að fletta að handboltinn er þjóðaríþrótt Íslendinga.

Hvort sem það voru hóflegar væntingar eða eitthvað annað, en þegar íslenska liðið hóf keppni í Peking kom strax í ljós að eitthvað magnað var að gerast. Hver stjórþjóðin á fætur annarri laut í lægra haldi fyrir Íslendingum og á köflum var eins og liðið væri fullkomlega ósigrandi. Eftir að hafa lagt Rússa og Þjóðverja í riðlakeppninni og náð frækilegu jafntefli við Dani, mættu strákarnir feiknalega sterku liði Pólverja í átta liða úrslitum. Bjartsýni var tekin að gera vart við sig hér heim en væntingar voru þó enn hóflegar fyrir leikinn gegn Pólverjum, sem taldir voru sigurstranglegri. En íslenska liðið steig yfir þá hindrun og sæti í undanúrslitum var staðreynd.

Eftir sigurinn á Pólverjum var íslenska þjóðin dottin í gírinn og ef einhvern tímann hefur geisað handboltafár hér á landi, þá var það undangengna viku. Alls staðar var rætt um árangur landsliðsins og Ólympíuleikarnir sem slíkir ekki aðalatriðið – þetta var fyrst og fremst handboltamót sem fram fór þarna í Kína. Fullyrða má að samkennd og samstaða íslensku þjóðarinnar hafi náð hámarki föstudaginn 22. ágúst þegar sýnt var frá undanúrslitaleiknum við Spánverja. Vinna lagðist niður á flestum vinnustöðum, skellt var á þá sem voru svo vitlausir að hringja á meðan á leik stóð og meira að segja gangverk kapítalismans stöðvaðist á meðan íslenska liðið fór hamförum gegn því spænska. Fólk á vinnustöðum og heimilum um allt land leit spyrjandi hvort á annað – erum við að fara að spila um gullið á Ólympíuleikunum?! Ævintrýrið var í algleymingi.

Í úrslitaleiknum sjálfum reyndust Frakkar óyfirstíganleg hindrun og unnu verðskuldaðan sigur, sinn fyrsta á Ólympíuleikunum. Óneitanlega hefði verið skemmtilegra að heyra íslenska þjóðsönginn í stað þess franska, eins fallegur og hann er, að lokinni verðlaunaafhendingunni. Íslensku strákarnir gengu hins vegar á verðlaunapallar sem hetjur og sigurvegarar, fögnuðu silfurverðlaunum sínum og því sem næst einstæðum árangri í íslenskri íþróttasögu. Íslenska þjóðin vann ekki silfurverðlaun – það gerðu strákarnir, sem einstaklingar og lið – en þjóðin fékk að taka þátt í ævintýrinu og eftir standa ógleymanlegar minningar í sögu þjóðar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.